roofing

Smiðjuhelgi er haldin tvisvar á skólaárinu fyrir nemendur unglingastigs. Þær eru hluti af skólastarfinu og eykur mjög fjölbreytni námsvals nemenda. Tilgangur smiðjanna er að mæta vali fyrir unglingana með öðrum hætti en almennt tíðkast og gefa þeim kost á að hafa meira um val sitt að segja. Í fámennum skólum byggjast valgreinarnar oft á því sem kennarar innan hvers skóla treysta sér til að bjóða upp á að kenna og vill valið þá stundum verða einsleitt. Með smiðjuhelgunum fá nemendur fleiri tækifæri. Þeir setja fram hugmyndir sínar um það sem þeim finnst áhugavert og langar að hafa í vali. Unnið er út frá þeirra hugmyndum og leitast við að bjóða uppá smiðjur sem flestir hafa áhuga á hverju sinni. Smiðjurnar hafa verið kostaðar af skólunum og þátttökugjöld því engin.

Stundatafla unglinganna er einni kennslustund styttri en lögboðið er og bætir smiðjuhelgin þeim þann tíma. Nemendur velja sig inn í ákveðnar smiðjur og vinna í þeim undir leiðsögn kennara frá föstudagseftirmiðdegi til klukkan 14 á laugardegi. 

Undanfarna vetur hafa nemendur frá Auðarskóla og Reykhólaskóla komið og tekið þátt í smiðjuhelgi. Dagskrá smiðjuhelga er unnin út frá hugmyndum og áhugasviði nemenda. Þegar dagskrá liggur fyrir sendum við út valblað sem nemendur fylla út og skila til skólans. Hver nemandi velur eina smiðju og vinnur í henni allan tímann.

Nemendur gista í skólanum eina nótt, eiga saman skemmtilega kvöldstund þar sem nemendafélagið sér um að vera með kvöldvöku, ratleiki, sundsprell eða hvaðeina sem þeim þykir skemmtilegt. Foreldrar nemenda hjálpa til og taka kvöld- og næturvaktir.

Í lok smiðjuhelgarinnar koma foreldrar að sækja nemendur og gefst þeim tækifæri til að kynnast því sem unnið var að. Nemendur og kennarar gera grein fyrir verkefnum helgarinnar og afrakstur þeirra er sýndur. Vinna nemenda er metin af kennara eða leiðbeinenda hverrar smiðju fyrir sig í lokin og er hluti af námsmati valgreina skólans.