Nám og kennsla
Kennsluhættir
Grunnskóli Borgarfjarðar vinnur sem teymiskennslu skóli. Teymiskennsla er þegar fleiri kennarar vinna saman við kennslu í sama rými. Kennarar í teyminu bera sameiginlega ábyrgð á því hvað er kennt, kennslunni og mati á nemendum. Þeir hafa stuðning hver af öðrum og geta haft ákveðna verkaskiptingu í kennslu. Kennarar þróa starf sitt í gegnum samskipti, samvinnu og nám og tengja það lærdómssamfélagi og menningu skólans.
Teymiskennsla er ein leið til betri árangurs. Þegar fleiri vinna saman koma fram fleiri hugmyndir að leiðum. Kennarar eru lykilaðilar teymiskennslunnar, þeir þurfa að geta unnið saman til að efla starfsþróun sína, huga að samskiptum innan teymis og þróa samskipti og samvinnu milli kennara, foreldra, nemenda og annars starfsfólks.
Skólinn er í innleiðingarferli sem leiðsagnarnámsskóli. Innleiðingarferli hófst haustið 2023 en megin markmið leiðsagnarnáms er að gera nemendum kleift að taka aukna ábyrgð á eigin námi. Hugmyndin sem liggur að baki byggir á breyttum viðhorfum í samskiptum sérfræðinga og notenda á síðustu áratugum. Gera viðmið og markmið sýnilegri fyrir nemendum þannig að þeir viti til hvers er ætlast til af þeim.
Hægt er að kynna sér helstu áherslur í kennslu á hverju stigi fyrir sig hér:
Á yngsta stigi er lögð áhersla á að virkja leik- og sköpunargleði nemenda. Litið er á árganginn sem eina heild og kennarar vinna sameiginlega að undirbúningi fyrir kennslu. Gengið er út frá því að hægt sé að skipta árganginum í ýmis konar hópa, eftir viðfangsefnum og áherslum hverju sinni. Stundum er unnið þvert á stigið t.d. í sérstökum þemaverkefnum þar sem nemendum er blandað í hópa óháð aldri. Áhersla er lögð á þroska einstaklingsins í námi og starfi og ábyrgð hans á lífi sínu og verkum. Skipulag námsins miðast við getu hvers og eins og leitast er við að vinna með skapandi verkefni sem vekja áhuga á viðfangsefninu. Námið er að stærstum hluta byggt á Byrjendalæsisverkefnum sem eru undirbúin með hliðsjón af hæfniviðmiðum Aðalnámskrár og útfærð á þann hátt að reyni á sem flestar kennsluaðferðir. Verkefnin eru markvisst tengd lífi nemenda, umhverfi þeirra og samfélaginu sem þeir búa í. Samhliða því að nemendur skoða viðfangsefni tengd nærumhverfi er lögð áhersla á að setja þau í víðara samhengi; tengja þau umheiminum og efla þannig með nemendum víðsýni og tilfinningu fyrir að þeir séu hluti af heild; tilheyri stærri veröld.
Á aldrinum 10 – 12 ára eru nemendur yfirleitt námfúsir og hugmyndaauðugir, hafa mikla hreyfiþörf og eru fljótir að tileinka sér ný og æ flóknari verkefni. Hugsunin verður smám saman óhlutstæðari, börnin verða færari um að hugsa rökrétt, greina orsakasamhengi og draga ályktanir. Nemendur eiga nú almennt auðveldara með að setja sig í spor annarra og sjá hluti út frá þeirra sjónarhóli. Þetta eru þýðingarmikil mótunar- og þroskaár, hugurinn er opinn og móttækilegur, þörfin rík til að tjá sig með orðum og athöfnum.
Nemendur hafa sterka þörf til að rannsaka, afla sér vitneskju, leita lausna, þjálfa margs konar fimi og færni. Það að vera virkur í athugun, rannsókn og athöfnum þjálfar huga og hönd og veitir haldbæra þekkingu og reynslu. Kennsluhættir þurfa að vera í samræmi við þarfir barnanna og gefa þeim kost á að nýta möguleika til þroska. Kennslan þarf að vera í formi einstaklings- og hópvinnu þannig að hægt sé að vinna með sem flesta þroskaþætti. Á þessu aldursskeiði er þroskamunur verulegur og í lok þess koma oft einkenni gelgjuskeiðs fram og þarf kennarinn að bregðast við af nærgætni.
Í ljósi ofangreindra atriða skal eftirfarandi haft í huga við val á kennsluháttum í Grunnskóla Borgarfjarðar að :
- Nemendur læri að skipuleggja nám sitt og bera ábyrgð á eigin vinnu.
- Kennsla sé heildstæð og námsgreinar samþættar.
- Nemendum gefist góð tækifæri til að vinna með öðrum og rækta með sér ábyrgð á vinnu hópsins.
- Verkefni séu fjölbreytt og bjóði nemendum efni við hæfi.
- Áhersla sé lögð á sjálfstæða öflun þekkingar í formi heimildavinnu, þar sem nemendur nýti sér m.a.; tölvur, myndbönd, fjölmiðla, bækur, heimildamenn, umhverfi og áfram má telja.
- Byggja námið sem mest út frá fyrri reynslu og þekkingu nemanda
- Heimanám sé eðlilegur hluti skólastarfsins
- Nemendur læri að setja niðurstöður sínar fram á skiljanlegan máta á ýmsan hátt s.s.; ritgerðir, bæklingar, myndverk, leikræn framsetning, útvarpsþáttagerð, vefsíður og glærur svo eitthvað sé nefnt.
Á unglingsárum eykst hæfni nemenda til að hugsa óhlutbundið, skilningur opnast á nýjum þekkingarsviðum og þeir geta glímt við fjölbreyttari viðfangsefni en áður. Af því leiðir að gera þarf auknar kröfur um þekkingu, vinnubrögð og dýpri skilning.
Við val á kennsluaðferðum skulu kennarar gæta þess að viðfangsefnin séu í samræmi við þroska nemenda og áhuga og að námið sé í eðlilegu framhaldi af því sem á undan er komið. Taka verður tillit til getu nemenda með því að leggja fyrir þá fjölbreytt verkefni sem reyna m.a. á rökhugsun og gildismat þeirra. Efla þarf samvinnu og samskiptahæfni nemenda, gera þá ábyrga fyrir náminu og framkomu sinni. Leggja þarf áherslu á að byggja upp jákvæðan bekkjaranda og efla sjálfsmynd nemendanna. Þetta er gert með því að nota fjölbreytta kennsluhætti t.d. hópvinnu hvers konar, þar sem nemendur bera sjálfir ábyrgð á vinnubrögðum, þurfa að skipuleggja vinnuna og ákveða sjálfir með hvaða hætti niðurstöður eru settar fram. Nemendum eru veitt tækifæri til þess að afla þekkingar og auka þá færni sem þarf til að flokka, vinna úr og miðla upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt. Þessi færni er undirstaða að ævilangri símenntun.
Einstaklingur, sem býr yfir slíkri færni, á að geta aflað sér af sjálfsdáðum þekkingar og upplýsinga til að mæta síbreytilegum kröfum umhverfisins.