Í sjálfbærnimenntun felst viðleitni til að skapa ábyrgt samfélag, sem stuðlar að aukinni víðsýni um mikilvægi vistkerfa náttúrunnar í afkomu kynslóðanna. Nemendur þurfa því að þekkja, skilja og virða náttúruna, bæði vegna sjálfgildis hennar og þeirrar þjónustu sem hún innir af hendi. Nemendur þurfa einnig að verða meðvitaðir um mikilvægi einstaklingsins í samfélagslegri uppbyggingu og þátttöku, sem er undirstaða velferðar og jöfnuðar (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).
Í GBF eru nemendur hvattir til umræðu og gagnrýnnar hugsunar. Lögð er mikil áhersla á góða umgengni um skólalóð og eigur skólans, einnig að nemendur verði meðvitaðir um þau verðmæti sem þeir umgangast dags daglega og gildi þess að fara vel með gjafir náttúrunnar. Unnið er eftir ákveðnum vinnuferlum í tengslum við flokkun sorps og umgengni um skólann. Skólinn er Grænfánaskóli.
GBF stefnir að því að starfsmenn hans og nemendur verði meðvitaðir um siðferðisleg gildi, virðingu og gagnrýna hugsun varðandi hnattræn áhrif okkar. Þar skiptir meginmáli að gera sér grein fyrir því að viðbrögð heima skipta ekki síður máli en þáttaka á heimsvísu. Með öðrum orðum „Við verðum að vera breytingin sem við viljum sjá í heiminum.“ (Ghandi)
Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Til að takast á við daglegt líf þarf einstaklingur að vera í andlegu jafnvægi, líða vel líkamlega og standa vel félagslega. Mennta þarf nemendur og styðja þá þannig að þeir geti tekið upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið heilbrigði.
Með skýrum markmiðum skóla um líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði nemenda er stuðlað að jákvæðum skólabrag, bættum námsárangri og vellíðan nemenda.
Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra. Í skólum þarf að skapa börnum og ungmennum aðstæður til heilbrigðra lífshátta (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).
Nemendur í Grunnskóla Borgarfjarðar fá allir fjóra íþrótta- og sundtíma á viku. Skólinn er Heilsueflandi skóli og vinnur eftir þeim grunngildum.