roofing

Foreldrar

Ábyrgðarsvið foreldra

Hlutverk skólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Það er sameiginlegt verkefni skólans og foreldra að bjóða nemendum upp á sem besta menntun sem stuðlar að alhliða þroska þeirra. Til að svo megi verða er mikilvægt að samstarf heimilis og skóla sé sem farsælast og einkennist af gagnkvæmri virðingu, gagnkvæmu trausti, samábyrgð og gagnkvæmri upplýsingamiðlun.

  • Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi barna sinna. Á þeim hvílir sú skylda að börnin sæki skóla og að þau séu móttækileg fyrir þeirri menntun sem skólinn annast.
  • Meginhlutverk foreldra er að sjá til þess að barnið fái gott atlæti (m.a. nægan svefn og hollan mat), mæti stundvíslega í skólann með nauðsynleg námsgögn og undirbúið til að takast á við skólaverkefni dagsins.
  • Foreldrar sjái til þess að nemandi stundi ekki vinnu á starfstíma skóla valdi hún því að hann geti ekki rækt nám sitt eins vel og best verður á kosið.
  • Foreldrar skulu fylgjast af áhuga með námi og skólastarfi barns síns og taka virkan þátt í starfinu.
  • Foreldrar skulu leggja áherslu á að barnið skili sem bestum árangri miðað við hæfileika og getu, hlúa að og aðstoða barnið við heimaverkefni.
  • Foreldrar bera ábyrgð á að börn þeirra fari eftir gildandi lögum og reglum, m.a. reglum um útivist.
  • Höfum það að leiðarljósi að áhugi, aðhald, jákvæð hvatning, góð leiðsögn og gagnkvæm virðing eru ávísun á góðan árangur.

Samvinna heimilis og skóla felst m.a. í því að:

  • Haldnir eru kynningarfundir að hausti fyrir foreldra þar sem fjallað er um vetrarstarfið.
  • Foreldrasamtöl eru tvisvar á vetri.
  • Skólinn er ávallt opinn foreldrum og við hvetjum foreldra til að heimsækja barnið í skólann og taka þátt í því starfi sem fer fram þar.
  • Vikufréttir koma út vikulega frá umsjónarkennurum, með fréttum af atburðum í komandi viku.
Stjórn foreldrafélagsins 2023-2024

Hafdís Jóhannsdóttir formaður
Johanna Karin Knudsen gjaldkeri
Soffía Anna Sveinsdóttir ritari

Elsa Þorbjarnardóttir varamaður
Erla Rún Rúnarsdóttir varamaður

Álfheiður Sverrisdóttir skoðunarmaður reikninga
Sævar Birgir Ólafsson skoðunarmaður reikninga

Lög foreldrafélags Grunnskóla Borgarfjarðar

Lög foreldrafélags Grunnskóla Borgarfjarðar

1. grein

Félagið heitir Foreldrafélag Grunnskóla Borgarfjarðar. Starfstöðvar Grunnskóla Borgarfjarðar eru að Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Félagar teljast allir forráðamenn nemenda skólans.

2. grein

Markmið félagsins er að:

  • vera samstarfsvettvangur foreldra sem eiga börn í skólanum og efla tengsl á milli foreldra og barna í öllum starfsdeildum GBF og á milli starfsstöðva.
  • efla og tryggja gott samstarf foreldra og starfsfólks skólans.
  • styðja heimili og skóla við að skapa nemendum góð uppeldis- og menntunarskilyrði.
  • koma á framfæri sjónarmiðum foreldra varðandi skóla- og uppeldismál.
  • standa vörð um réttindi barna til mennta og aukins þroska.

3. grein

Tilgangi sínum hyggst félagið ná m.a. með því að:

  • skipuleggja og styðja utan um starf bekkjarfulltrúa í hverjum bekk.
  • koma á umræðu- og fræðslufundum um uppeldis- og skólamál.
  • kjósa fulltrúa í skólaráð samkvæmt reglum félagsins.
  • standa að upplýsingamiðlun til foreldra í samstarfi við GBF m.a. þar sem birtar eru fundargerðir og annað er viðvíkur starfsemi félagsins.
  • veita skólayfirvöldum lið svo að aðstæður til náms og félagslegra starfa verði sem bestar.
  • styðja og efla hverja þá starfsemi, sem stuðlar að auknum þroska og menningu skólans.
  • taka þátt í samstarfi við önnur foreldrafélög, svæðisráð og landssamtök foreldra.

4. grein

Stjórn félagsins skipa þremur foreldrum/forráðamönnum. Starfsheiti stjórnar formaður, ritari og gjaldkeri. Ritara og gjaldkera skulu kjörnir til eins árs í senn, formaður skal kosinn til tveggja ára í senn. Sjá reglur um kjör stjórnar.

5. grein

Bekkjartenglar starfa á vegum foreldrafélagsins sem setur þeim starfsreglur. Bekkjartenglar mynda fulltrúaráð foreldrafélagsins. Hlutverk bekkjartengla er að efla og styrkja samstarf foreldra og barna og leitast við að treysta samband heimilis og skóla innan hverrar bekkjardeildar með nánu samstarfi við umsjónarkennara. Stjórn foreldrafélagsins ber ábyrgð á að í upphafi skólaárs séu kosnir einn til tveir tenglar forráðamanna úr hverri bekkjardeild til eins árs í senn. Bekkjartenglar skulu verða valdir fyrir 1. september ár hvert. Bekkjartengill eða staðgengill hans hefur skyldusetu á aðalfundi.

6. grein

Aðalfundur skal haldinn að vori í ár hvert. Málfrelsi, atkvæðisrétt og tillögurétt á aðalfundi hafa allir foreldrar/forráðamanna nemenda GBF. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa allir bekkjartenglar ásamt stjórn foreldrafélagsins. Stjórnin boðar til fundarins í samstarfi við fulltrúa foreldra í skólaráðinu með minnst viku fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Í fundarboði skal kynna efni fundarins.

Verkefni aðalfundar:

Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla stjórnar
Lagabreytingar
Reikningar lagðir fram til samþykktar
Staðfesting á vali stjórnarmanna, (sjá reglur)
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
Skýrsla fulltrúa foreldra í skólaráði
Staðfesting á vali 3 fulltrúa í skólaráð samkvæmt starfsreglum félagsins
Önnur mál

7. grein

Stjórn foreldrafélagsins getur skipað nefndir um afmörkuð verkefni. Stjórnin ber ábyrgð á störfum nefnda og setur þeim erindisbréf.

8. grein

Fulltrúaráðið skal koma saman eigi sjaldnar en tvisvar á skólaárinu og oftar þurfa þykir. Fyrsti fundur skal haldinn í upphafi skólaárs. Stjórn félagsins undirbýr og boðar til þessara funda í samstarfi við stjórnendur hverrar deildar. Þar skulu rædd mál er varða markmið og starf foreldrafélagsins, starf bekkjartengla og verkefni skólaráðs. Fulltrúaráð skal aðstoða stjórn félagsins í stærri verkefnum.

9. grein

Stjórn foreldrafélagsins skal ekki sinna klögumálum eða hafa afskipti af vandamálum er upp kunna að koma á milli einstakra foreldra og starfsmanna skólans.

10. grein

Stjórn foreldrafélagsins er heimilt að óska eftir því að foreldrar greiði framlag til félagsins. Þetta framlag er innheimt árlega og er ákveðið á aðalfundi.

11. grein

Ákvörðun um slit félagsins verður tekin með einföldum meirihluta á aðalfundi og renna þá eignir þess til skólans.

12. grein

Lögum þessum má breyta með einföldum meirihluta á aðalfundi, enda sé lagabreytinga getið í fundarboði.

13. grein

Bráðabirgðaákvæði. Á fyrsta aðalfundi Foreldrafélags Grunnskóla Borgarfjarðar, vorið 2013, kjósa foreldrar barna í skólanum stjórn félagins til eins árs.

Þannig samþykkt á aðalfundi þann 3. júní 2013

Reglur um kjör stjórnar Foreldrafélags GBF og kjör bekkjatengla sem mynda fulltrúaráð Foreldrafélagsins GBF.

  1. Viðeigandi fulltrúar í stjórn foreldrafélagsins eru kosnir á aðalfundi.
  2. Bekkjartengill er skipaður af foreldrum barna í hverjum bekk fyrir sig í upphafi skólaárs. Skal því vera lokið fyrir 31. ágúst ár hvert. Heimilt er að skipa að hámarki tvö bekkjartengla fyrir hvern bekk.

Þannig samþykkt á aðalfundi þann 3. júní 2013

(uppfært 9. október 2014)