Leiðtoginn í mér
Árið 2013 var ákveðið að GBF myndi taka upp þróunarverkefni sem byggir á hugmyndum Stephen Covey, The Seven Habits of Highly Effective People. The Leader in me(Leiðtoginn í mér) er aðferð sem þróuð var til að veita nemendum víðtækari menntun innan skólakerfisins. Aðferðin hefur verið notuð um árabil víða um heim, og hefur skilað miklum árangri. Verkefnið er orðið fast í sessi sem hluti af skólamenningu Grunnskóla Borgarfjarðar.
Skólinn vill veita haldgóða menntun á sem flestum sviðum. Auk þess að kenna bóklegar og verklegar greinar á skólinn að efla alhliða þroska og heilbrigði nemendanna til að þeim farnist sem best í framtíðinni. Samfélagið hefur tekið örum breytingum á síðustu áratugum og atvinnulífið gerir sífellt meiri kröfur til hvers einstaklings um fjölbreytta hæfni á öllum sviðum. Rannsóknir hafa sýnt að það sem vinnuveitendur sækjast helst eftir hjá starfsmönnum eru þessir þættir:
- Að hann sé skapandi og frumlegur
- Búi yfir gagnrýnni hugsun og hæfni til að ráða fram úr málum
- Hafi góða hæfni í samskiptum og geti unnið með öðrum
- Búi yfir sveigjanleika og aðlögunarhæfni
- Sýni frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
Verkefnið Leiðtoginn í mér er ætlað að auka sjálfsöryggi, ábyrgðartilfinningu og frumkvæði ásamt því að undirbúa næstu kynslóð undir það að takast á við áskoranir og tækifæri 21. aldarinnar. Leiðtogaverkefnið snýst ekki um það að gera leiðtoga úr öllum börnum, heldur hjálpa hverjum einstaklingi að blómstra ásamt því að koma auga á styrkleika sína og annarra. Hlusta á nýjar hugmyndir, tjá hug sinn og geta borið ábyrgð á eigin ákvörðunum og þannig mótað líf sitt til hins betra. Nemendur og starfsfólk læra að nýta fjölbreytileikann í samstarfi og hvetja hvert annað til að til að ná enn betri árangri.
Aðferðin byggir á 7 venjum sem nemendur og starfsfólk tileinka sér og læra að nota. Venjurnar eru teknar fyrir í ákveðinni röð, og byggir hver venja grunn að þeirri næstu í röðinni. Þrjár fyrstu venjurnar snúast um persónulegan þroska, sjálfsstjórn og sjálfsaga. Til að ná framförum verðum við að byrja hjá okkur sjálfum. Næstu þrjár lúta að samskiptum okkar við annað fólk, að byggja upp traust tengsl við aðra og ná besta mögulega árangri í samstarfi við þá. Síðasta venjan í röðinni beinist að því að hlúa að sjálfum sér. Til að viðhalda árangri í leik og starfi og skapa okkur gott líf verðum við að gæta þess að ofbjóða okkur ekki; að brenna ekki út.
Venjurnar eru þessar:
- Venja 1 „Taktu af skarið“
- Venja 2 „Í upphafi skal endinn skoða“
- Venja 3 „Forgangsraðaðu“
- Venja 4 „Sigrum saman“
- Venja 5 „Skilningsrík hlustun“
- Venja 6 „Samvinna til árangurs“
- Venja 7 „Ræktaðu sjálfan þig“