roofing

Nærsamfélagið

Deildir Grunnskóla Borgarfjarðar hafa í gegnum tíðina verið í góðu samstarfi við nærsamfélagið. Skólarnir þrír, Andakílsskóli á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjaskóli og Varmalandsskóli eru þar hver með sína sérstöðu, allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Neðst á síðunni er sérstaklega fjallað um þau verkefni sem eru staðbundin.

Sérstaða sveitaskóla

Varmalandsskóli hóf verkefnið Sérstaða sveitaskóla fyrir síðustu aldamót og hefur það síðan verið innleitt á Kleppjárnsreykjum einnig.
Verkefnið gengur út á að nemendur í 8.-9. bekk dvelji á sveitabæ í tvo skóladaga í maí, kynnist þannig landbúnaði og nærumhverfinu.

Nemendur vinna svo kynningu á störfunum og halda dagbók yfir dvölina.

Samstarfið við bændur hefur verið virkilega gott og jafnvel dæmi um að nemendur sem hafa dvalið á bæjum í sérstöðu fái jafnvel sumarvinnu þar í kjölfarið.


Staðbundin verkefni

Hvanneyri

Samstarf við íbúa á Hvanneyri er mikið og gott en það lýsir sér best í mikilli góðvild íbúa gagnvart skólanum og nemendum. T.a.m. hafa íbúar haft forgöngu um bætingu umhverfisins með uppsetningu þrautabrautar, biðskýla og hjólastanda. Nemendur endurgjalda það með því að senda falleg skilaboð til íbúa, gefa sultu og bjóða í kaffi í skólanum.

 

Oddstaðarétt

Nemendur úr Hvanneyrardeild heimsækja Oddstaðarétt í Lundarreykjadal á hverju hausti og fá þá tækifæri til að kynnast því sem þar fer fram. Mörg fá að prófa að draga kind á meðan önnur láta sér nægja að fylgjast með atganginum.

Skjólbeltin

Útinámssvæði Hvanneyrardeildar kallast Skjólbeltin og er svæðið nýtt af öllum skólastofnunum á svæðinu, auk þess sem íbúar koma þar saman á hátíðisdögum.
Auk þess að nýta svæðið til kennslu sækja nemendur þangað jólatré en sú ferð er mikið tilhlökkunarefni.

Leikskólinn Andabær

Nemendur grunnskólans fara reglulega í heimsókn í Andabæ þar sem þau lesa fyrir nemendur leikskólans. Einnig hefur reglulega farið í Álfagöngu í kringum Þrettándann þar sem jólin eru kvödd.

Landbúnaðarháskóli Íslands

Samstarf við LBHÍ hefur verið öflugt og margþætt. Nemendur grunnskólans fara m.a. í heimsókn í gróðurhús og kennslufjós skólans og kynnast þannig landbúnaðarstörfum. Einnig hefur LBHÍ verið þátttakandi í verkefninu BioBlitz og nemendur GBF á Hvanneyri tekið þátt með þeim.

Kleppjárnsreykir

Læknistún

Útikennslusvæði skólans er staðsett á Læknistúni, rétt fyrir ofan skólasvæðið. Þar hafa nemendur í gegnum tíðina gróðursett, byggt og bakað en um þessar mundir (vor 2025) er verið að byggja nýja útikennslustofu. Það eru nemendur í smíðavali sem hafa veg og vanda af byggingunni.

Leikskólinn Hnoðraból

Nemendur á miðstigi fara einusinni í viku og lesa fyrir nemendur Hnoðrabóls í samverustund og morgunmat. Samstarfið er nýtilkomið, eftir að leikskólinn hóf störf í sama húsnæði og grunnskólinn.

Ávaxtarækt

Íbúar í Smátúni hafa verið dugleg að bjóða nemendum í heimsókn vor og haust í gróðurhúsin. Þar fá nemendur að skoða ávaxta- og garðrækt.

Varmaland

17. júní hlaup UMF Stafholtstungna

Ungmennafélag Stafholtstungna hefur um árabil staðið fyrir 17. júníhlaupi sem er létt keppnishlaup fyrir yngri nemendur. Þau hafa verið í samstarfi við skólann á Varmalandi og hlaupið haldið á skólatíma. Allir þátttakendur fá þáttökuviðurkenningu.

Leikskólinn Hraunborg

Samstarf grunnskóladeildarinnar við Hraunborg hefur helst falist í heimsóknum en frá hausti 2025 hefur leikskólinn verið í sama húsnæði og grunnskólinn. Þetta hefur aukið mjög möguleikana á samstarfi skólanna með fjölbreyttum viðfangsefnum.