Heilsueflandi grunnskóli
Grunnskóli Borgarfjarðar er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi grunnskóli sem er ætlað að styðja skóla í markvissri heilsueflingu í starfinu.
Áhersluþættir Grunnskóla Borgarfjarðar eru mataræði, geðrækt og hreyfing en skólinn er mjög framarlega í þeim þáttum.
Í skólanum er boðið upp á morgunmat, hádegismat og millimál.
Á öllum deildum eru starfandi matráðar og elda úr eins fersku hráefni og möguleiki er á. Lögð er áhersla á að nýta hráefni úr héraði, grænmeti, kjöt og fisk.
Boðið er upp á morgunverðarhlaðborð, morgunkorn, hafragraut og fleira, með fjölbreyttu meðlæti.
Í hádeginu er heitur matur með fersku grænmeti sem nemendur skammta sér sjálfir.
Nemendum er boðið upp á ávexti á milli matmálstíma.
Aðgengi að fersku vatni er gott.
Skóladagur yngsta- og miðstigs hefst á morgungöngu á öllum deildum. Lengd göngunnar er misjöfn eftir aðstæðum á hverjum stað.
Íþróttatímar eru fjórum sinnum í viku hjá nemendum sem er meira en viðmiðunarstundatafla kveður á um.
Nemendur á yngsta- og miðstigi fara út í öllum frímínútum og unglingastigið er eindregið hvatt til útivistar einnig.
Framtíðarsýn Grunnskóla Borgarfjarðar er að skólinn útskrifi metnaðarfulla nemendur, sem nýti styrkleika sína til að ná árangri. Þessu vinnur skólinn markvisst að með uppeldisstefnu sinni, Leiðtoganum í mér. Þar temja nemendur sér ýmsar venjur til að ná árangri, bæði námslega og persónulega.
Deildir Grunnskóla Borgarfjarðar eru fremur fámennar og tengsl starfsfólks og nemenda mikil. Það auðveldar skólanum uppbyggingu á jákvæðum skólabrag og að nemendur finni að þau sannarlega tilheyri hópnum.
Á Kleppjárnsreykjum og Varmalandi hefur verið unnið í samstarfi við ungmennafélögin á svæðinu þannig að íþróttaæfingar yngri barna eru á skólatíma. Þannig styttist vinnutími barnanna, foreldrar þurfa minna að skutla og fleirum gefst þannig kostur á að æfa íþróttir.
Valgreinar eru í boði fyrir nemendur í 5.-10. bekk, mis oft í viku fyrir hvern árgang.
Meðal valgreina sem boðið hefur verið upp á er Ferðamennska og rötun, þar sem nemendur lærðu réttan útbúnað til útivistar.
Útieldun er einnig mjög vinsælt val þar sem nemendur elda á báli ýmisskonar góðgæti.