Uppgötvunarnám – könnunarleikur og kubbar
Uppgötvunarnám er mikilvægt vegna náttúrulegrar tilhneigingar barna til þess að nota forvitni sína og atorku til að skoða og rannsaka þann heim sem þau búa í. Í leik með opnum efnivið fær sköpunargleði barnanna að njóta sín.
Könnunarleikur
Könnunarleikurinn er námskerfi þar sem börnin fá þjálfun í að finna upp á hlutum sjálf og fái þau fá næði og frið án leiðbeininga frá fullorðnum uppgötva þau hlutina sjálf. Könnunarleikur tengist könnunarnámi sem byggist á virkni námsmannsins, leitað er eftir möguleikum og lausnum. Áherslan er á ferlið í leiknum frekar en staðreyndir, það sem er rétt og rangt. Börnin læra að nota einbeitinguna og fá mikla örvun í leik auk þess sem þau þroska skynjun og hreyfingar, bæði fín- og grófhreyfingar. Könnunarleikurinn er góður undirbúningur fyrir annað nám barnanna og þau öðlast t.d. sjálfstæði, þau eiga auðveldara með að finna sér verkefni og una sér í þeim. Þau fá einnig tækifæri til að auka orðaforða og hugtakaskilning, öðlast aukinn félagsþroska og færni í samskiptum eykst.
Börnunum er skipt í litla hópa og fær hvert barn á Skessuhorni og yngri börnin á Baulu að fara í könnunarleik um það bil einu sinni í viku. Í könnunarleik leika börnin sér með mismunandi opinn efnivið. Með þennan efnivið geta þau leikið frjálst, án afskipta hins fullorðna þó hann sé til staðar og fylgist með. Dæmi um opinn efnivið eru hinar ýmsu tegundir íláta, hlutir sem rúlla, keðjur af ýmsum stærðum og gerðum, þvottaklemmur, efnisbúta, hluti með mismunandi áferð, slöngubúta, lyklar og svo mætti lengi telja.
Kubbar
Kubbar eru góður efniviður í uppgötvunarnámi og eigum við í Uglukletti t.d. einingakubbar– og hollow kubbar.Í byrjun þegar börn byrja að vinna með þá eru byggingar einfaldar en með aukinni færni og þekkingu á eiginleikum kubbanna þróast byggingarnar, verða flóknari og smáatriði bætast við. Með því að fá tíma og rými til að gera tilraunir og láta reyna á eiginleika kubbanna eflist útsjónasemi barnanna. Með blönduðum aldri, getu og þroska læra börnin hvert af öðru þó svo ekkert rétt svar sé til í vinnunni með kubbana. Ferlið skiptir meira máli en útkoman sjálf og nám á sér stað í aðstæðum sem einkennast af gleði, einbeitingu og hugmyndaauðgi.
Eininga og Hollow kubbar (stóru/holu kubbar) eru þó í eðli sínu ólíkir þar sem að í stóru kubbunum verður barnið hluti að þeim byggingum og heimi sem það býr til en í einingakubbunum stendur barnið oft fyrir utan bygginguna og er sjónarhornið því annað. Þessar tegundir kubba vinna að því að skapa skemmtilegan heim með ólíkri nálgun.