roofing

Stilla – er þróunarverkefni sem Ugluklettur tekur þátt í ásamt þrem öðrum leikskólum og þrem háskólum. Leikskólarnir eru Aðalþing, Iðavöllur og háskólar eru Háskóli Íslands sem leiðir verkefnið (Anna Magnea Hreinsdóttir), Háskólinn á Akureyri (Kristín Dýrfjörð) og svo eru samrannsakendur frá háskólanum Sørøst-Norge (Alison Clark og Kari Karlsen).

Meginmarkmið verkefnisins er að þróa hæglátt leikskólastarf og dýpka þannig þekkingu og skilning á upplifun barna á tíma í leikskólum. Stuðst verður við aðferðir starfendarannsókna og uppeldisfræðilegar skráningar til að skrá ferlið. Tilgangur þess er að auka þekkingu starfsfólks, foreldra og barna á námi barna og þeim tíma sem börn þurfa til að kanna heiminn og prófa hugmyndir sínar í daglegu starfi í leikskóla. Hæglátt leikskólastarf felur í sér að kennarar gefi sér tíma og næði til að skoða rými og efnivið sem börn hafa til að kanna í leik sem og þau hugtök og aðferðir sem notaðar eru til að styðja við nám barna. Í slíku leikskólastarfi gefast tækifæri til að dýpka og þróa nám barna með því að „dvelja með“ og ígrunda með uppeldisfræðilegum skráningum. Tekið er mið af fjölbreyttum tungumálum barna og tími gefinn til að hlusta á hugmyndir þeirra og reynslu. Einnig er sett í forgang að ræða við og hlusta á samstarfsfólk og fjölskyldur. Gagnrýnin hugsun er mikilvæg og langtímasjónarmið í forgangi varðandi börn og nám þeirra. Lögð er áhersla á „hér og nú“ og gætt að deginum í dag og litið til reynslu barna og þá þekkingu sem þau hafa öðlast en einnig hugað að framtíðinni. Svigrúm er gefið í að hlusta og vinna saman í leik. Tekið er tillit til hópsins jafnt sem einstaklinga yfir lengri tíma. Ferlið er í fyrirrúmi og farið er á dýptina í námi.