roofing

Þegar barn byrjar í leikskóla er það stór stund í lífi bæði þess og foreldranna.  Fyrir margar fjölskyldur eru þetta tímamót sem krefjast breytinga á högum þeirra og valda oft streitu.  Til að auðvelda aðallega börnunum en líka foreldrum og starfsfólki umskiptin höfum við í Uglukletti ákveðið að fara þá leið að hafa svokallaða þátttökuaðlögun.  Er þetta aðferð að sænskri fyrirmynd og  byggir á því að ekki sé verið að venja barnið við að vera skilið eftir í leikskólanum, heldur sé það að læra að vera í nýjum aðstæðum.  Aðlögunin byggir á fullri þátttöku foreldranna í starfi leikskólans þá daga sem hún á sér stað.

Við þátttökuaðlögun er tiltekinn dagur upphafsdagur leikskólans og þann dag mæta flestir foreldrar og börn sem eiga að byrja á sömu deild, saman í leikskólann.   Foreldrar eru með börnunum í þrjá daga, fyrsta daginn frá 9.00 – 12.00 en næstu tvo daga frá 9.00 – 15.00 (þeirra vistunartíma).  Foreldrar eru inn á deildum með börnunum allan tímann .  Foreldrarnir sinna eigin börnum, skipta á þeim, gefa þeim að borða, leika með þeim og eru til staðar.  Starfsfólkið tekur að sjálfsögðu líka þátt, skipuleggur daginn, deilir út verkefnum og er til staðar.  Á fjórða degi koma börnin um morguninn, kveðja foreldranna og eru svo allan daginn (sinn vistunartíma) Einstaka börn hafa foreldrar sína með sér í fjóra daga ef foreldrar og starfsfólk meta aðstæður þannig.

Þátttökuaðlögun byggir meðal annars á þeirri trú að foreldrar smiti eigin öryggi forvitni og spennu fyrir þessum nýju aðstæðum til barna sinna.  Öruggir foreldrar = örugg börn.  Með því að foreldrar séu fullir þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum.  Annar kostur er að foreldrar tengjast hver öðrum og milli þeirra skapast oft vinskapur.

Ef barnið er að koma af öðrum leikskóla er ekki víst að það þurfi þetta langan tíma með foreldrinu, það er metið í samráði við foreldra og deildarstjóra í hverju tilviki fyrir sig.