Fljótandi dagskipulag
Í Uglukletti er fljótandi dagskipulag sem hefur það markmið að börnin hafa áhrif á daginn sjálf, þau ráða hvaða viðfangsefni þau velja sér og hversu lengi þau eru á hverjum stað. Með því að styðjast við fljótandi dagskipulag gefum við einstaklingunum færi á að hafa áhrif á nám sitt, nýtum sjálfsákvörðunarrétt hvers og eins auk þess sem ýtt er undir frumkvæði og sjálfstæði barnanna. Virðing er borin fyrir tíma foreldra og barna og gefur dagskipulag Uglukletts foreldrum mikið svigrúm til að njóta hverrar stundar með barninu sínu. Gleði er mikilvægur þáttur í námi barna og með opnu dagskipulagi næst fram jákvætt andrúmsloft þar sem hver og einn fær tækifæri til þess að vinna að sínum verkefnum. Með gleði og vellíðan að leiðarljósi verður nám barnanna jákvæð upplifun.
Þegar börnin koma í leikskólann finna þau sér viðfangsefni eftir áhuga. Við höfum tekið eftir því að börnin sækja oft og tíðum á sömu staðina þegar þau koma í leikskólann. Við teljum þetta byggjast á því að börnin finna sérstakt öryggi á þessum stöðum. Þau staldra þar við en innan tíðar eru þau komin af stað og finna sér önnur verkefni. Börnunum stendur til boða að fá sér morgunmat þegar þeim hentar á bilinu kl 8.15 til 8.50.
Klukkan 9.00 eru allir starfsmenn komnir í hús og hefst þá stöðvavinna. Hún gengur út á að hver starfsmaður á sína stöð sem hann hefur umsjón með og sér þar um ýmiss verkefni. Stöðvarnar eru t.d hreyfistundir í sal, útikennsla, listakrókur, stærðfræði, málörvun og vísindi. Börnunum er frjálst að koma á stöðvarnar þegar þau vilja eða halda áfram að leika sér í sjálfsprottnum leik. Klukkan 10.00 er útivera og ráða börnin hvert fyrir sig hvort þau fara út fyrir eða eftir hádegi. Yngri börnin sem sofa fara yfirlett út fyrir hádegi þar sem þau sofa eftir hádegi. Klukkan 11.30 er hádegismatur.
Eftir hádegismat fara þau börn sem ekki sofa, í samveru í litlum hópum þar sem markvisst er unnið með hina ýmsu þroskaþætti svo sem málþroska, talnaskilning, hljóðkerfisvitund, félagsfærni og samskipti.
Klukkan 13.00 fara þau börn út sem völdu að vera inni fyrir hádegi (auðvitað mega börnin fara út bæði fyrir og eftir hádegi ef þau vilja) og hin velja sér verkefni eða leik eftir áhuga.
Í kaffitímanum býðst börnunum að setjast til borðs á bilinu 14.30 – 15.00 og fá sér næringu. Eftir að hafa borðað geta þau svo snúið aftur til þeirra verkefna eða í þann leik sem þau voru í eða fundið sér ný viðfangsefni.
Verkefni barnanna á kubbasvæðum fá að standa á milli daga og jafnvel lengur ef byggingin er í þróun. Oft gefast tækifæri til þess að geyma önnur verkefni og koma að þeim aftur þegar áhugi kviknar á ný.