roofing

Skólareglur

Samkvæmt grunnskólalögum ber hverjum skóla að setja skólareglur.

„Í hverjum grunnskóla skal setja skólareglur. Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur. Í reglunum skal koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð skólareglna og kynningu þeirra og skulu þær unnar í samráði við skólaráð og fulltrúa nemenda í skólaráði“

(Lög um grunnskóla nr. 91/2008, 30. grein )

  • Við virðum landslög
  • Við metum heilbrigt líf
  • Við leggjum okkur fram um að ná árangri
  • Við erum stundvís
  • Við virðum rétt til náms og höfum vinnufrið í kennslustundum
  • Við göngum vel og snyrtilega um
  • Við sýnum háttvísi innan skóla sem utan
  • Við notum ekki sælgæti á skólatíma
  • Við virðum hlutverk hvers og eins
  • Við virðum reglurnar okkar

Sá sem kýs að brjóta reglur kýs jafnframt að hlíta þeim viðurlögum sem gilda

Við virðum landslög
Allir Íslendingar virða þau lög sem sett eru á Alþingi. Sem dæmi um lög frá Alþingi eru t.d. grunnskólalögin, lög um tóbaksvarnir og lög um vernd barna og unglinga sbr. útivistarreglur.

Við metum heilbrigt líf
Sá sem sýnir sjálfum sér ræktarsemi, stundar holla hreyfingum borðar hollan mat og nær góðum nætursvefni er líklegri til að ná árangri í skóla en ella. Þar af leiðandi höfnum við reykingum, neyslu áfengis og annarra vímuefna sem valdið geta heilsutjóni og eru vanabindandi en leggjum áherslu á holla iðju í námi og leik.

Við leggjum okkur fram um að ná árangri
Við skipuleggjum vinnu okkar og förum vel með námsgögn og bækur. Við leggjum metnað í að skila vönduðum verkefnum og úrlausnum. Við munum eftir að koma með nauðsynleg gögn í skólann og skilum vinnu samkvæmt vinnuáætlunum.

Við erum stundvís
Stundvís nemandi missir ekki af neinu sem fram fer í kennslustundum. Sá sem kemur of seint  þarf að vinna upp það sem hann missti af og hann truflar vinnu annarra. Engum líður vel sem kemur of seint. Nemandi fær fjarvist komi hann eftir að kennslustund er hálfnuð.

Við virðum rétt til náms og höfum vinnufrið í kennslustundum
Skólinn snýst um námið sem fram fer í kennslustundum. Sá sem truflar skemmir bæði fyrir sjálfum sér og öðrum. Góður vinnufriður eykur líkurnar á betri árangri og vellíðan.

Við göngum vel og snyrtilega um
Við virðum verðmætin sem okkur er treyst fyrir í skólanum. Við krotum hvorki á borð né stóla eða skemmum hluti. Ef nemandi veldur vísvitandi eða vegna alvarlegs gáleysis skemmdum á eignum skólans eða annarra í skólanum, er hann bótaskyldur og málinu er vísað til skólastjóra. Nemendur bera ábyrgð á eigum sínum innan skólans s.s. fartölvum, tónhlöðum, símum og fatnaði. Fartölvur eru ekki leyfðar í frímínútum. Skólinn er vinnustaður og sameign okkar allra. Þess vegna göngum við vel um skólann okkar, förum úr skóm við útidyr, geymum yfirhafnir og skó í fatahengi og notum ruslafötur.

Við sýnum háttvísi innan skóla sem utan
Við virðum hvert annað sem einstaklinga, erum kurteis og sýnum hvert öðru tillitssemi.

Við notum ekki sælgæti á skólatíma
Við temjum okkur holla lífsvenjur og því neytum við ekki sælgætis á skólatíma. Undanþága er háð leyfi kennara.

Við virðum hlutverk hvers og eins
Allir í skólanum hafa sitt hlutverk. Við sýnum hvert öðru virðingu og nemendum ber að fara að fyrirmælum kennara og annars starfsfólks skólans.

Við virðum reglurnar okkar
Reglur eru settar til þess að gera lífið betra og árangursríkara. Við virðum reglurnar og förum eftir þeim. Þeir sem brjóta þær viljandi eða óviljandi verða að læra þær betur og fara eftir þeim.

Viðurlög við brotum á skólareglum

  1. Umsjónarkennarar taka á brotum umsjónarnemenda sinna. Unnið er eftir vinnureglum um brot á skólareglum í GBF, sjá nánar hér á eftir.
  2. Ef starfsfólk, annað en umsjónakennari viðkomandi nemanda, verður vart við brot nemanda á skólareglum skal vísa málinu til umsjónarkennara, sé þess þörf.
  3. Ef nemandi er uppvís að neyslu áfengis eða ólöglegra vímuefna á skólatíma, á skemmtunum eða ferðum á vegum skólans skal málinu strax vísað til skólastjóra sem hefur samband við foreldra nemandans. Þá þegar skal gengið úr skugga um hvort grunurinn sé á rökum reistur og fengin aðstoð þar til bærra aðila svo sem lögreglu ef þörf þykir. Komi í ljós að nemandinn sé undir áhrifum er honum vikið úr skóla tímabundið.
  4. Ef nemandi beitir grófu ofbeldi á skólatíma, á skemmtunum eða ferðum á vegum skólans skal málinu strax vísað til skólastjóra sem hefur samband við foreldra nemandans og er honum vikið úr skóla tímabundið.

Vinnureglur við brotum á skólareglum GBF

  1. Viðkomandi kennari eða starfsmaður ræðir við nemanda einslega. Nemanda gefst tækifæri að bæta fyrir brot án frekari beitingar viðurlaga. Kennari, umsjónarkennari eða annar starfsmaður skólans getur aðstoðað nemandann við að leysa úr sínum málum.
    Atburður skráður í persónumöppu nemenda.
  2. Breyti nemandi ekki hegðun sinni er umsjónarkennari látinn vita og hann gerir nemandanum grein fyrir alvarleika málsins, skráir atburðinn í persónumöppu nemanda og hefur samband heim.
  3. Náist ekki árangur boðar umsjónarkennari nemanda og forráðamenn hans á fund um málið. Niðurstöður fundarins skráðar og allir viðstaddir kvitta undir. Umsjónarkennari skráir í persónumöppu nemanda og gerir skólastjóra/deildarstjóra grein fyrir stöðu málsins.
  4. Umsjónarkennari vísar málinu alfarið til skólastjóra/deildarstjóra.
  5. Skólastjóri vinnur með málið og kynnir það nemendaverndarráði.
  6. Ef ekki tekst að finna lausn á vanda nemandans og ef hegðun hans kemur í veg fyrir eðlilegt skólastarf getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla tímabundið, meðan lausn er fundin (Lög um grunnskóla nr. 91/2008, 14. grein ). Skólastjóri vísar málinu til fræðsluyfirvalda.

Ef brot nemandans er minniháttar er unnið út frá fyrsta lið. Ef brotið er alvarlegt er unnið út frá þeim lið er talið er hæfa brotinu. Á öllum stigum málsins er meðferð þess skráð í persónumöppu nemanda.

Neyðarúrræði:

  • Ef nemandi hefur ítrekað gerst brotlegur við skólareglur og úrræði innan skóla duga ekki er haft samband við foreldra og þeir beðnir að sækja nemenda. Nemandi kemur ekki í skólann fyrr en lausn hefur verið fundinn.
  • Ef nemandi beitir grófu ofbeldi, neytir áfengis eða ólöglegra vímuefna á skólatíma, á skemmtunum eða ferðum á vegum skólans, er málinu strax vísað til skólastjóra sem hefur samband við foreldra/forráðamenn og nemandanum er vikið úr skóla tímabundið.

Við virðum reglurnar okkar
Reglur eru settar til þess að gera lífið betra og árangursríkara. Við virðum reglurnar og förum eftir þeim. Þeir sem brjóta þær viljandi eða óviljandi verða að læra þær betur og fara eftir þeim.