roofing

Í Grunnskólanum í Borgarnesi er uppbyggingarstefnan eða uppeldi til ábyrgðar höfð að leiðarljósi í öllu starfi. Um  er að ræða aðferð til stefnumörkunar skóla og að því að efla jákvæð samskipti. Aðferðin byggir á því að ná samstöðu um lífsgildi til að hafa að leiðarljósi og að fylgja þeim síðan eftir með fáum en skýrum reglum.

Uppeldi til ábyrgðar er aðferð við að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga. Það byggir á þeirri meginhugmynd að fólk sé fætt með sjálfstæðan vilja og að áhuginn komi að innan. Áhersla er lögð á að nemandi læri af mistökum sínum og fái tækifæri til að leiðrétta þau. Uppeldi til ábyrgðar beinir athyglinni fyrst að persónunni sem síðan lítur í eigin barm og skoðar hvaða áhrif hegðun hennar hefur á aðra. Markmiðið er að styrkja einstaklinginn í að vera hann sjálfur frekar en að stjórnast af öðrum. Til að hjálpa börnum inn á þessa braut og fá þau til að skoða eigið gildismat er áhersla lögð á spurningar á borð við: Hvernig viljum við vera og hvað þurfum við að gera til að ná takmarki okkar?

Uppbyggingarstefnan eða uppeldi til ábyrgðar er lífsgildismiðuð aðferð. Það merkir að unnið er með lífsgildi sem eiga sér stoð í ákveðnum þörfum sem við öll höfum. Til að vera lífsglöð og hamingjusöm þurfum við reglulega að uppfylla meðfæddar grunnþarfir fyrir að tilheyra og fyrir áhrifavald, frelsi, gleði og öryggi. Hegðun okkar ræðst af því hvaða þörfum við viljum mæta. Stundum veljum við ranga leið og brjótum þá á þörfum annarra. Uppeldi til ábyrgðar hjálpar okkur að finna rétta leið.

Til að kenna uppbyggingu eru notaðar ýmsar aðferðir. Nemandinn lærir að þekkja grunnþarfir sínar og hvernig þær hafa áhrif á líðan hans. Hann lærir um lífsgildi og finnur sín eigin, gerður er bekkjarsáttmáli og starfsmannasáttmáli. Þá læra nemendur að leysa mál undir leiðsögn kennara og um Lífsvagninn þar sem fjallað er um rökhugsun og þýðingu þess að stjórna sér sjálfur en láta ekki aðra um það. Kennarar fá í hendur ýmiss konar verkfæri sem nýtast til að leysa vandamál og koma í veg fyrir þau.

Nemendur læra:

  • Leiðir til að hafa stjórn á eigin hegðun.
  • Að bera ábyrgð á eigin mistökum, leiðrétta þau og bæta fyrir þau.
  • Að verða þeir sjálfir – þær manneskjur sem þeir vilja vera.
  • Aðferðir við lausn ágreiningsmála.
  • Að sinna þörfum sínum af ábyrgð gagnvart sjálfum sér og öðrum.
  • Að bera ábyrgð á eigin námi.
  • Að mynda tengsl við aðra.
  • Að gera bekkjarsáttmála sem tryggir að ekki sé brotið á rétti einstaklinganna og að þeir fái að blómstra hver á sinn hátt.
  • Að  þekkja hlutverk sitt og skilja að aðrir hafa ákveðnum hlutverkum að gegna í starfinu í skólanum. Þeir læra mikilvægi þess að hver ræki sitt hlutverk eins vel og honum er unnt.
  • Að setja sér markmið, gera uppbyggingaráætlanir og stunda sjálfsskoðun.

Upphafsmaður Uppeldis til ábyrgðar er Diane Gossen. Rætur hugmyndafræðinnar liggja víða, bæði í viðurkenndum kenningum um eðli mannlegrar hegðunar og ýmsum rannsóknum á þeim. Þar má fyrst nefna hugmyndir dr. William Glasser um gæðaskólann og sjálfstjórnarkenningu hans. Í öðru lagi má nefna rannsóknir á heilastarfsemi og styðst Gossen þar við hugmyndir Eric Jensen um mælanleg neikvæð áhrif ógnunar á námsgetu. Í þriðja lagi sækir hún rök til Alfie Kohn sem hefur ritað ítarlega um neikvæð áhrif ytri umbunar. Þá er vísað til rannsókna á fornum aðferðum frumbyggja Ameríku við barnauppeldi og enduruppeldi brotamanna. Megináhersla er lögð á hegðun og líðan nemenda. Gossen segir að orsök vanlíðunar og slæmrar hegðunar felist í því að einstaklingurinn nái ekki að uppfylla grunnþarfir sínar á jákvæðan hátt.

Bekkjarsáttmálar 

Markmið 

Markmiðið með því að gera bekkjarsáttmála er að tryggja það að öllum líði vel í skólanum við leik og störf. Sáttmálinn á að vera virkur samningur sem allir hjálpast að við að halda. 

Umfjöllun 

Nemendur þurfa að átta sig á að saman getum við miklu meira en sem einstaklingar – þess vegna er mikilvægt að allar raddir fái að heyrast, að allir upplifi að þeir séu mikilvægir og hluti af bekk/árgangi. Bekkjarsáttmáli er samkomulag sem nemendur og kennarar gera með sér um vinnuaðstæður og samskiptavenjur innan bekkjar eða árgangs. Sáttmálinn er unninn í samvinnu nemenda og kennara og byggir á þeim lífsgildum sem allir eru sammála um að séu mikilvægust fyrir farsælt samstarf og vellíðan allra. 

Hér má vinna með:
• Lífsgildi
• Y spjöld
• T spjöld
• Sjálfsþekkingu – að þekkja þarfir sínar 

Sjá nánar í bók Judy Anderson, Sáttmálar um lífsgildi, sem þýdd er af Álftaneskóla 2004 og Sáttmálar um samskipti sem einnig er eftir Judy Anderson, þýdd af Magna Hjálmarssyni 2004, Undirstöður uppbyggingar, eftir Anne O´Brien (byggt á verkum Diane Gossen, gefin út á íslensku á Álftanesi árið 2008 og Verkfærakistan, byggð á verkum Diane Gossen en Magni Hjálmarsson tók saman, árið 2004). 

 

Hlutverk mitt og þitt 

Í skólanum hafa allir starfslýsingu en í henni felast mitt hlutverk og þitt hlutverk. Skólinn er fjölmennur vinnustaður; þar starfa saman nemendur, kennarar, ritari, húsvörður, þroskaþjálfar, stuðningsfulltrúar, starfsfólk í mötuneyti og stjórnendur. Starfsmenn og nemendur eru með ólík hlutverk en allir eiga að virða hlutverk annarra og fara eftir eigin hlutverki. Hlutverk kennara í skólanum eru til dæmis að skipuleggja kennslu, veita upplýsingar, hlusta, sýna áhuga, spyrja spurninga, fara yfir verkefni, þekkja þarfir nemenda og mæta á réttum tíma. Hlutverk nemenda er að mæta á réttum tíma, vera jákvæð og kurteis í tali, vinna verkefni sem lögð eru fyrir, hlusta á aðra, þora að takast á við ný verkefni, þekkja þarfir sínar og hafa umburðarlyndi gagnvart ólíkum þörfum. Með því að rækja hlutverk sín sýna starfsmenn og nemendur hvernig manneskjur þeir vilja vera og hvernig þeir vilja koma fram við aðra. Þegar allir fara eftir sínu hlutverki gengur skólastarfið vel. 

 

Lífsgildi 

Markmiðið með umfjöllun um lífsgildi með nemendum er að láta börn og unglinga leiða hugann að því hvaða lífsgildi eru þeim mikilvæg og hjálpa þeim að móta sér skoðanir á því hvað er mikilvægast fyrir þau sjálf en samræmist jafnframt hagsmunum heildarinnar.
Hér hugum við að einstaklingnum í lýðræðissamfélagi og sýnum nemendum að hægt er að ná árangri með því að:
• Tala út frá gildum sem við trúum að séu mikilvæg
• Hlusta af virðingu á skoðanir hvers annars
• Leysa úr þrætum
• Skapa sameiginleg markmið
Við lærum að taka lýðræðislegar ákvarðanir með því að finna jafnvægi milli frelsis einstaklingsins og hags heildarinnar.
Við spyrjum spurninga eins og: Hvaða lífsgildi eru mér mikilvægust?Hvaða lífsgildi eru mikilvægust á heimili mínu? Hvaða lífsgildi eru mikilvægust í skólanum? Hvernig manneskja vil ég vera? Hvernig fer ég að að verða sú manneskja?
Við hugum að því hvernig við komum fram við aðra, að maður tekur ábyrgð á sjálfum sér – hvað maður gerir og hvernig maður stuðlar að eigin velferð og hamingju. Afurð þess að fjalla um lífsgildi eru að jafnaði bekkjarsáttmálar, þar sem nemendur bekkja koma sér saman um gildi sem lögð eru til grundvallar í samskiptum innan hópsins.
Hér má vinna með:
• Y spjald
• T spjald
• Lífsgildabók
• Bekkjarsáttmálagerð
Sjá nánar í bók Judy Anderson, Sáttmálar um lífsgildi, sem þýdd er af Álftaneskóla 2004 og Sáttmálar um samskipti sem einnig er eftir Judy Anderson, þýdd af Magna Hjálmarssyni 2004. 

 

Óskaveröldin 

Glasser talar um að við höfum öll innbyggðar í okkur myndir af því sem okkur þykir eftirsóknarvert, það sem við viljum sjá, heyra, finna, bragða, ilma og sjá. Við geymum myndir af því sem okkur þykir eftirsóknarvert í svokallaðri óskaveröld. Þessar myndir eru af fólkinu sem við viljum hafa í kringum okkur, þeim hlutum og upplifunum sem við sækjumst eftir og þeim lífsgildum og skoðunum sem okkur þykja eftirsóknarverð. Þegar við skynjum eitthvað í veruleikanum sem er ekki í óskaveröldinni okkar, þá reynum við ekki að nálgast það. Ef veruleikinn er í samræmi við óskaveröldina, þá erum við ánægð en ef mikið ósamræmi er þar á milli erum við döpur. Við höfum safnað myndum af því sem hefur veitt okkur ánægju og mætt okkar þörfum allt frá barnæsku og geymum með okkur í þessari óskaveröld. Þessar myndir breytast þó í samræmi við aldur, þroska og aðstæður. Glasser líkir þessum myndum við okkar persónulega myndaalbúm, þar sem við geymum einungis myndir af ánægjulegum minningum og því sem skiptir okkur máli. Samkvæmt sjálfstjórnarkenningunni er allt sem við gerum tilraun til að nálgast þessar myndir sem við eigum í óskaveröldinni okkar. Í óskaveröldinni er öllum okkar þörfum fullnægt. 

 

Skýr mörk 

Uppeldi til ábyrgðar miðar að því að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfstjórn barna og unglinga og þjálfa þau í að ræða um tilfinningar og átta sig á þörfum sínum. Vinnuaðferðunum er einnig ætlað að styðja starfsmenn skóla við að móta sér skýra stefnu varðandi samskipti og agamál. Öðru fremur er um að ræða aðferðir við að kenna sjálfstjórn og sjálfsaga og styrkja einstaklinga í því að læra af mistökum sínum. Hugmyndafræðin hefur áhrif á kennsluhætti, stjórnunarhætti, áherslur í lífsleiknikennslu og ekki síst á meðferð agamála.Við erum Uppbyggingarskóli og það á að endurspeglast í öllu skólastarfi. 

Við starfsmenn höfum gert með okkur sáttmála – líkt og við látum nemendur okkar gera. Hann hljómar svona: Við viljum að í skólanum sé hlýlegt andrúmsloft og að við sýnum hvert öðru umhyggju og kurteisi. Við viljum að samskipti innan vinnustaðarins einkennist af jákvæðni, gleði og metnaði. 

Bekkjarsáttmáli, sem nemendur semja með kennurum sínum, er unninn í upphafi skólaárs. Í honum koma fram óskir um aðstæður og andrúmsloft í skólastofunni. 

Við viljum að starfsfólk og nemendur:
• finni sig örugga og þeim líði vel í skólanum.
• læri af þeim mistökum sem þeir gera varðandi hegðun og samskipti.
• séu reiðubúnir til þess að líta í eigin barm og nái betri stjórn á eigin hegðun.
• styrkist í því að takast á við mistök sín á uppbyggilegan hátt. 

Um hegðun:

Hegðun er annars vegar ásættanleg og eðlileg og hins vegar óásættanleg. Þarna á milli er dregin marklína, Skýr mörk. 

Æskileg og eðlileg hegðun: 

Allir mæti ávallt stundvíslega og vel undirbúnir í skólann, reiðubúnir til að takast á við verkefni dagsins. Gangi vel um skólann og sýni sjálfum sér og öðrum virðingu með framkomu sinni, orðum og gjörðum. 

Óæskileg hegðun: 

Nemendur mæta of seint, valda truflun, eru illa undirbúnir, ganga illa um og nota óviðeigandi orðbragð. 

Skýr mörk – óásættanleg hegðun: 

Með óásættanlegri hegðun er átt við vísvitandi skemmdarverk, andlegt eða líkamlegt ofbeldi, vopnaburð og notkun ávana- og fíkniefna. 

Viðurlög:
• Viðkomandi skal ávallt að vísa til umsjónarkennara/skólastjórnenda.
• Haft er samband við foreldra og nemandi sóttur.
• Þegar nemandi kemur aftur er gerð uppbyggingaráætlun í samráði við foreldra/forráðamenn. 

 

Starfsmannasáttmáli 

Við viljum að í skólanum sé hlýlegt andrúmsloft og að við sýnum hvert öðru umhyggju og kurteisi. Við viljum að samskipti innan vinnustaðarins einkennist af jákvæðni, gleði og metnaði. 

 

Verkefni fyrir hvern árgang

Formáli

Við erum Uppbyggingarskóli og það á að endurspeglast í öllu skólastarfi. Við starfsmenn höfum gert með okkur sáttmála – líkt og við látum nemendur okkar gera. Í honum er að finna það sem okkur finnst mikilvægast. Hann hljómar svona:
Við viljum að í skólanum sé hlýlegt andrúmsloft og að við sýnum hvert öðru umhyggju og kurteisi. Við viljum að samskipti innan vinnustaðarins einkennist af jákvæðni, gleði og metnaði.
Við leggjum sérstaka áherslu á geðrækt og eflingu sjálfsmyndar í starfinu í vetur (2017 – 2018). Þar fléttast saman verkefni Uppeldis til ábyrgðar og Heilsueflandi skóla að mörgu leyti og allt fellur þetta vel að markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla. Við höfum fengið Elínu Kristinsdóttur til liðs við okkur til að vinna með þennan þátt og kennarar eru hvattir til að nýta sér þann möguleika og flétta hann inn í bekkjarstarfið. Eins má geta þess að mikið af efni er til í ýmsum kennslubókum, á neti og á samskrá um þetta viðfangsefni.
Bekkjarsáttmáli er unninn í upphafi skólaárs. Hann er öflugt tæki til agastjórnunar sé hann notaður markvisst. Það er mikilvægt að nemendur finni að þeir hafi átt þátt í að semja hann og hann sé samkomulag þeirra um vinnuaðstæður í bekknum og samskipti við aðra. Eins og komið hefur fram þá eiga allir bekkjarsáttmálar að vera tilbúnir fyrir 15. september. Þá á lesa/fara yfir á hverjum morgni og minna á ef ástæða þykir til.
Mikið er til af efni til kennslu – bæði á Samskrá og á bókasafninu.

Uppeldi til ábyrgðar – 1. bekkur
• Bekkjarsáttmáli. Sáttmálann á að gera á fyrstu dögum skóla. Ætlast er til að kennarar lesi/fari yfir sáttmálann með nemendum í upphafi hvers dags og minni á hann eftir því sem þörf krefur yfir skóladaginn. Sáttmálinn eða afrit af honum er settur á spjald sem tekið er inn í list- og verkgreinar.
• Mitt og þitt hlutverk: Hlutverk nemenda, kennara og stuðningsfulltrúa – í fataklefanum, í frímínútum og í matartímanum. (Myndaspjöld bæði texti og myndir af þeim).
• Grunnþarfir kynntar.
• Þarfaarmband: Nemendur búa til armband til að fara með heim og kynna fyrir foreldrum þarfirnar ( Annað hvert ár).
• Unnið með hugtök tengd bekkjarsáttmála t.d. hugtökin hjálpsemi, virðing og vinátta.
• Skýr mörk, rauð, gul og græn hegðun.
• Að leysa úr ágreiningi: Stjarna með 5 sprota, einn fyrir hverja þörf, gjarnan búin til í samstarfi við vinabekk sem er 6. bekkur.
• Sáttatjald.
• Bekkjarfundir einu sinni í viku.
• Dagur gegn einelti.

Uppeldi til ábyrgðar – 2. bekkur
• Bekkjarsáttmáli. Sáttmálann á að gera á fyrstu dögum skóla. Ætlast er til að kennarar lesi/fari yfir sáttmálann með nemendum í upphafi hvers dags og minni á hann eftir því sem þörf krefur yfir skóladaginn. Sáttmálinn eða afrit af honum er settur á spjald sem tekið er inn í list- og verkgreinar.
• Mitt og þitt hlutverk: Hlutverk nemenda, kennara og stuðningsfulltrúa – í fataklefanum, í frímínútum og í matartímanum.
• Grunnþarfir. Þarfaarmband: Nemendur búa til armband, fara með heim og kynna fyrir foreldrum þarfirnar. (Annað hvert ár).
• Unnið með hugtök tengd bekkjarsáttmála – t.d. hugtökin hjálpsemi, virðing, vinátta, sjálfstæði og ábyrgð (T-spjöld).
• Skýr mörk, rauð, gul og græn hegðun.
• Að leysa úr ágreiningi: Stjarna með 5 sprota, einn fyrir hverja þörf.
• Sáttatjald.
• Bekkjarfundir einu sinni í viku.
• Dagur gegn einelti.

Uppeldi til ábyrgðar – 3. bekkur
• Bekkjarsáttmáli. Sáttmálann á að gera á fyrstu dögum skóla. Ætlast er til að kennarar lesi/fari yfir sáttmálann með nemendum í upphafi hvers dags og minni á hann eftir því sem þörf er til yfir skóladaginn. Sáttmálinn eða afrit af honum er settur á spjald sem tekið er inn í list- og verkgreinar.
• Mitt og þitt hlutverk: Hlutverk nemenda, kennara og stuðningsfulltrúa – í fataklefanum, í frímínútum og í matartímanum.
• Grunnþarfir. Grunnþarfir/hurðarskraut: Upprifjun frá fyrri árum á þörfum. Nemendur búa til hurðarskraut, fara með það heim og kynna grunnþarfirnar fyrir foreldrum (Annað hvert ár).
• Lífsgildin. Nemendur vinna út frá eigin reynslu. Finna þau lífsgildi sem áhersla er lögð á heima, í samfélaginu og skólanum.
• Unnið með hugtök tengd bekkjarsáttmála – t.d. hugtökin hjálpsemi, virðing, vinátta, sjálfstæði og ábyrgð (T-spjöld).
• Skýr mörk.
• Sáttaborð.
• Óskaveröld. Fjallað um hugtakið og að við getum öll átt okkar óskaveröld. Óskasamskiptin í skólanum og í bænum okkar.
• Bekkjarfundir einu sinni í viku.
• Dagur gegn einelti.

Uppeldi til ábyrgðar – 4. bekkur
• Bekkjarsáttmáli. Sáttmálann á að gera á fyrstu dögum skóla. Ætlast er til að kennarar lesi/fari yfir sáttmálann með nemendum í upphafi hvers dags og minni á hann eftir því sem þörf er til yfir skóladaginn. Sáttmálinn eða afrit af honum er settur á spjald sem tekið er inn í list- og verkgreinar.
• Mitt og þitt hlutverk: Hlutverk nemenda, kennara og stuðningsfulltrúa – í fataklefanum, í frímínútum og í matartímanum.
• Grunnþarfir/hurðarskraut: Upprifjun frá fyrri árum á þörfunum. Nemendur búa til hurðarskraut, fara með það heim og kynna grunnþarfirnar fyrir foreldrum. (Annað hvert ár).
• Lífsgildin: Nemendur vinna út frá eigin reynslu. Finna þau lífsgildi sem áhersla er lögð á heima, í samfélaginu og skólanum.
• Skýr mörk.
• Sáttaborðið – upprifjun. Nota markvisst til að leysa úr ágreiningi.
• Óskaveröld: Fjallað um hugtakið og að við getum öll átt okkar óskaveröld. Óskasamskiptin í skólanum og í bænum okkar.
• Bekkjarfundir fastir einu sinni í viku.
• Dagur gegn einelti.

Uppeldi til ábyrgðar – 5. bekkur
• Bekkjarsáttmáli. Sáttmálann á að gera á fyrstu dögum skóla. Ætlast er til að kennarar lesi/fari yfir sáttmálann með nemendum í upphafi hvers dags og minni á hann eftir því sem þörf er til yfir skóladaginn.
• Mitt og þitt hlutverk. Hlutverk nemenda, kennara og stuðningsfulltrúa – í fataklefanum, í frímínútum og í matartímanum.
• Grunnþarfir/þarfaspilið: Fjallað um hvernig þarfir einstaklings geta skarast við þarfir annarra og rætt hvernig einstaklingurinn getur brugðist við því. Nemendur spila þarfaspilið sem er á bókasafninu.
• Lífsgildin: Nemendur vinna út frá eigin reynslu. Finna þau lífsgildi sem áhersla er lögð á heima, í samfélaginu og skólanum.
• Skýr mörk.
• Sáttasamningur: Skriflegur samningur sem nemendur gera sín á milli og skila til kennara. Nota markvisst til að leysa úr ágreiningi.
• Óskaveröld/vinnubók: Óskasamskiptin í bekknum okkar og skólanum.
• Vinnubók sem Álftanesskóli útbjó.
• Bekkjarfundir fastir einu sinni í viku.
• Dagur gegn einelti.

Uppeldi til ábyrgðar – 6. bekkur
• Bekkjarsáttmáli. Sáttmálann á að gera á fyrstu dögum skóla. Ætlast er til að kennarar lesi/fari yfir sáttmálann með nemendum í upphafi hvers dags og minni á hann eftir því sem þörf er til yfir skóladaginn.
• Mitt og þitt hlutverk. Hlutverk nemenda, kennara og stuðningsfulltrúa, í fataklefanum, í frímínútum og í matartímanum.
• Grunnþarfir/þarfagreining: Fjallað um hvernig þarfir einstaklings geta skarast við þarfir annarra og rætt um hvernig einstaklingurinn getur brugðist við því. Þarfagreining og nemendur útbúa heila, myndverk sem fer upp á vegg og sýnir styrkleika þarfa hvers og eins. (Annað hvert ár).
• Lífsgildin: Nemendur vinna út frá eigin reynslu og finna sín lífsgildi.
• Skýr mörk.
• Óskaveröld: Rifja upp frá fyrra ári.
• Lífsvagninn: Hér er ítarlega fjallað um hvernig maður þarf að ná tökum á orðum sínum og gjörðum. Láta höfuðið ráða en ekki frumhvatirnar.
• Bekkjarfundir einu sinni í viku.
• Dagur gegn einelti.

Uppeldi til ábyrgðar – 7. bekkur
• Bekkjarsáttmáli. Sáttmálann á að gera á fyrstu dögum skóla. Ætlast er til að kennarar lesi/fari yfir sáttmálann með nemendum í upphafi hvers dags og minni á hann eftir því sem þörf er til yfir skóladaginn.
• Mitt og þitt hlutverk. Hér er farið dýpra í hlutverkin en áður. Unnið markvisst með hlutverk í kennslu, öllum kennurum bekkjarins þarf að vera kunnugt um áherslur.
• Grunnþarfir/þarfagreining. Fjallað um hvernig þarfir einstaklings geta skarast við þarfir annarra og rætt um hvernig einstaklingurinn getur brugðist við því. Þarfagreining og nemendur útbúa heila, myndverk sem fer upp á vegg og sýnir styrkleika þarfa hvers og eins. (Annað hvert ár).
• Lífsgildin: Nemendur vinna út frá eigin reynslu og finna sín lífsgildi.
• Skýr mörk.
• Óskaveröld. Rifja upp frá fyrra ári.
• Lífsvagninn. Hér er ítarlega fjallað um hvernig maður þarf að ná tökum á orðum sínum og gjörðum. Láta höfuðið ráða en ekki frumhvatirnar.
• Bekkjarfundir einu sinni í viku.
• Dagur gegn einelti.

Uppeldi til ábyrgðar – 8. bekkur
• Bekkjarsáttmáli. Sáttmálann á að gera á fyrstu dögum skóla. Ætlast er til að kennarar lesi/fari yfir sáttmálann með nemendum í upphafi hvers dags og minni á hann eftir því sem þörf er til yfir skóladaginn.
• Mitt og þitt hlutverk. Hér er farið dýpra í hlutverkin en áður. Unnið markvisst með hlutverk í kennslu, öllum kennurum bekkjarins þarf að vera kunnugt um áherslur.
• Grunnþarfir/þarfagreining: Hér eru umræður um þarfirnar dýpkaðar og sjónum beint að einstaklingnum og hvernig hann getur komið til móts við sínar þarfir. Eru einhverjar þarfir sem er ekki fullnægt? Hvernig ætlar nemandinn að fullnægja sínum þörfum?
• Plattar með þörfum hvers og eins. (Annað hvert ár).
• Lífsgildin: Nemendur vinna út frá eigin reynslu og finna sín lífsgildi.
• Skýr mörk.
• Óskaveröld: Rifja upp frá fyrra ári.
• Lífsvagninn: Hér er ítarlega fjallað um hvernig maður þarf að ná tökum á orðum sínum og gjörðum. Láta höfuðið ráða en ekki frumhvatirnar.
• Bekkjarfundir einu sinni í viku.
• Dagur gegn einelti.

Uppeldi til ábyrgðar – 9. bekkur
• Bekkjarsáttmáli. Sáttmálann á að gera á fyrstu dögum skóla. Ætlast er til að kennarar lesi/fari yfir sáttmálann með nemendum í upphafi hvers dags og minni á hann eftir því sem þörf er til yfir skóladaginn.
• Mitt og þitt hlutverk. Hér er farið dýpra hlutverk en áður. Unnið markvisst með hlutverk í kennslu, öllum kennurum bekkjarins þarf að vera kunnugt um áherslur.
• Grunnþarfir: Hér eru umræður um þarfirnar dýpkaðar og sjónum beint að einstaklingnum og hvernig hann getur komið til móts við sínar þarfir. Eru einhverjar þarfir sem er ekki fullnægt? Hvernig ætlar nemandinn að fullnægja sínum þörfum?
• Þarfagreining. Plattar með þörfum hvers og eins. (Annað hvert ár).
• Lífsgildin: Nemendur vinna út frá eigin reynslu og finna sín lífsgildi.
• Skýr mörk. Skýr mörk. Kynning á S:\Uppeldi til ábyrgðar/Skýr mörk
• Lífsvagninn: Hér er ítarlega fjallað um hvernig maður þarf að ná tökum á orðum sínum og gjörðum. Hugsa áður en framkvæmt er og taka ekki afdrifaríkar ákvarðanir í fljótræði. Vinna í tengslum við forvarnir af ýmsum toga t.d. kynfræðslu, vímuefni og umferðarfræðslu.
• Bekkjarfundir einu sinni í viku.
• Dagur gegn einelti.

Uppeldi til ábyrgðar – 10. bekkur
• Bekkjarsáttmáli. Sáttmálann á að gera á fyrstu dögum skóla. Ætlast er til að kennarar lesi/fari yfir sáttmálann með nemendum í upphafi hvers dags og minni á hann eftir því sem þörf er til yfir skóladaginn.
• Mitt og þitt hlutverk. Eru allir að rækja sitt hlutverk? Hvernig þjónar hegðun mín best hagsmunum mínum?
• Grunnþarfir: Hér eru umræður um þarfirnar dýpkaðar og sjónum beint að einstaklingnum og hvernig hann getur komið til móts við þarfir sínar. Eru einhverjar þarfir sem er ekki fullnægt? Hvernig ætlar nemandinn að fullnægja sínum þörfum?
• Þarfagreining: Blöðruhattar/diskar með blöðrum, mismikið blásið í eftir þörfum einstaklingsins.
• Lífsgildin: Nemendur vinna út frá eigin reynslu og finna sín lífsgildi.
• Skýr mörk. Skýr mörk. Kynning á S:\Uppeldi til ábyrgðar/Skýr mörk
• Óskaveröld: Fjallað ítarlega um óskaveröldina. Hér er fjallað um einstaklinginn, hvernig hann vill vera í samskiptum við aðra, hver óskaveröld hans er. Hver eru framtíðaráform hans og hvað þarf hann að gera til að komast þangað. Hvernig bregst einstaklingurinn við ef hann upplifir ekki óskaveröldina í daglegu lífi? Hvernig verður hann sjálfstæður einstaklingur sem tekur ákvarðanir með eigin hag fyrir brjósti?
• Veggspjöld og myndbönd tengd uppbyggingu.
• Bekkjarfundir einu sinni í viku.
• Dagur gegn einelti.