Umhverfismennt
Gróðursetning
Skólinn hefur tekið þátt í gróðursetningarverkefni Yrkju – sem er sjóður æskunnar til ræktunar landsins, frá árinu 1997. Í fyrstu gerði skólinn samkomulag við staðarhaldara á Borg á Mýrum um að skólinn fengi til umráða svæði til gróðursetningar og var gróðursett í það til ársins 2015 en þá þótti fullplantað þar. Það voru nemendur í fyrsta, fimmta og tíunda bekk sem sáu um gróðursetninguna á þessum tíma.
Spildan á Borg er mitt á milli klettaborgarinnar sem staðurinn dregur nafn sitt af og Klaufarholts og liggur skammt ofan gamalla túna. Tegundir sem gróðursettar voru á vegum grunnskólans eru einkum birki, greni, fura, lerki, ösp og reynir.
Á vormánuðum ársins 2020 afhenti sveitarfélagið grunnskólanum nýtt svæði til gróðursetningar. Svæðið liggur nær landamerkjum Borgar og Kárastaða og liggur reiðleið með jaðri þess. Aðkoma akandi fólks að svæðinu er einföldust við flugvöllinn og er um 300 metra gönguleið að því. Svæðið er um 3,5 ha á stærð en með möguleika á mikilli stækkun ef þarf.
Ákveðið var að gróðursetningin yrði ,,vinabekkjaverkefni“ og eru það fjórði og níundi bekkur sem fá verkefnið í hendur. Gróðursett var í svæðið í fyrsta skipti haustið 2020, mest birki en einnig sígrænar plöntutegundir. Fyrirhugað er að gefa svæðinu nafn og unnið verður að því í vetur.
Hreinsun á skólalóð
10. bekkur – september
9. bekkur – október
8. bekkur – nóvember
7. bekkur – desember
6 .bekkur – janúar
5. bekkur – febrúar
4. bekkur – mars
3 .bekkur – apríl
2 .bekkur – maí
1.bekkur – Ekki þykir ástæða til að fyrsti bekkur taki þátt í þessu verkefni vegna þess að þau eru ný í skólanum og margt sem þarf að kunna á áður en að þessu kemur.
Verklag:
Skólalóðin er öll hreinsuð sem og leiðin í íþróttahús og skólabíl. Farið með báðum stigunum sem liggja niður frá skólalóðinni. Ef tök eru á þá er gott að flokka ruslið úti við ruslagámana á bak við skólann og fleygja því á rétta staði.
Útikennsla
Í Grunnskólanum í Borgarnesi er lögð áhersla náttúru og sögu við útikennslu í nánasta umhverfi skólans. Stutt er í fjöruna og lífríki hennar, Skallagrímsgarð þar sem finna má fjölda blómplantna og trjáa og útivistarsvæðið Einkunnir sem er gjöfult af berjum og sveppum og þar er svokölluð Álatjörn. Margvíslega rannsóknarleiðangra má skipuleggja í Einkunnum og við Álatjörn. Hafnarskógur er einstakur þar sem hann hefur lifað af nýtingu milli fjalls og fjöru allt frá landnámi. Skólinn er staðsettur í landnámi Skallagríms en landnámsjörð hans, Borg á Mýrum, er í útjaðri Borgarness og marga þekkta staði úr Egilssögu er að finna innan bæjarmarka Borgarness.
Vettvangsferðir eru ein af leiðum skólans til að tengja námið veruleikanum utan skólastofunnar og færa bóklegt nám nær reynsluheimi nemandans hverju sinni.