roofing

Heimili og skóli

Ábyrgðarsvið foreldra

Hlutverk skólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Það er sameiginlegt verkefni skólans og foreldra að bjóða nemendum upp á sem besta menntun sem stuðlar að alhliða þroska þeirra. Til að svo megi verða er mikilvægt að samstarf heimilis og skóla sé sem farsælast og einkennist af gagnkvæmri virðingu, gagnkvæmu trausti, samábyrgð og gagnkvæmri upplýsingamiðlun.

 • Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi barna sinna. Á þeim hvílir sú skylda að börnin sæki skóla og að þau séu móttækileg fyrir þeirri menntun sem skólinn annast.
 • Meginhlutverk foreldra er að sjá til þess að barnið fái gott atlæti (m.a. nægan svefn og hollan mat), mæti stundvíslega í skólann með nauðsynleg námsgögn og undirbúið til að takast á við skólaverkefni dagsins.
 • Foreldrar sjái til þess að nemandi stundi ekki vinnu á starfstíma skóla valdi hún því að hann geti ekki rækt nám sitt eins vel og best verður á kosið.
 • Foreldrar skulu fylgjast af áhuga með námi og skólastarfi barns síns og taka virkan þátt í starfinu.
 • Foreldrar skulu leggja áherslu á að barnið skili sem bestum árangri miðað við hæfileika og getu, hlúa að og aðstoða barnið við heimaverkefni.
 • Foreldrar bera ábyrgð á að börn þeirra fari eftir gildandi lögum og reglum, m.a. reglum um útivist.
 • Höfum það að leiðarljósi að áhugi, aðhald, jákvæð hvatning, góð leiðsögn og gagnkvæm virðing eru ávísun á góðan árangur.

Samvinna heimilis og skóla felst m.a. í því að:

 • Haldnir eru kynningarfundir að hausti fyrir foreldra þar sem fjallað er um vetrarstarfið.
 • Foreldraviðtöl eru þrisvar á fyrsta vetri en tvisvar eftir það.
 • Ekki eru lengur tímasettir viðtalstímar kennara í skólanum. Forráðamenn eru hvattir til að hafa beint samband við umsjónarkennara eða aðra starfsmenn t.d. með tölvupósti (sjá netföng á http://www.grunnborg.is) eða í gegn um skiptiborð skólans.
 • Skólinn er ávallt opinn foreldrum og við hvetjum foreldra til að heimsækja barnið í skólann og taka þátt í því starfi sem fer fram þar.
 • Vikufréttir koma út vikulega (oftast á föstudögum), með fréttum af atburðum í komandi viku.
 •  Einnig má finna ýmsar upplýsingar á heimasíðu skólans http://www.grunnborg.is