roofing
Kennslustefna er í mótun fyrir Grunnskólann í Borgarnesi en hægt er að kynna sér helstu áherslur í kennslu á hverju stigi fyrir sig hér:
Yngsta stig (1. – 4. bekkur)
Áherslur í kennslu á yngsta stigi

Á yngri barna stigi er lögð áhersla á að virkja leik- og sköpunargleði nemenda. Litið er á árganginn sem eina heild og kennarar vinna sameiginlega að undirbúningi fyrir kennslu. Gengið er út frá því að hægt sé að skipta árganginum í ýmis konar hópa, eftir viðfangsefnum og áherslum hverju sinni. Stundum er unnið þvert á stigið t.d. í sérstökum þemaverkefnum  þar sem nemendum er blandað í hópa óháð aldri. Áhersla er lögð á þroska einstaklingsins í námi og starfi og ábyrgð hans á lífi sínu og verkum. Skipulag námsins miðast við getu hvers og eins og leitast er við að vinna með skapandi verkefni sem vekja áhuga á viðfangsefninu. Námið er að stærstum hluta byggt á samþættum þemaverkefnum sem eru undirbúin með hliðsjón af markmiðum Aðalnámskrár og útfærð á þann hátt að reyni á sem flestar kennsluaðferðir. Þemaverkefnin eru markvisst tengd lífi nemenda, umhverfi þeirra og samfélaginu sem þeir búa í. Samhliða því að nemendur skoða viðfangsefni tengd  nærumhverfi er lögð áhersla á að setja þau í víðara samhengi; tengja þau umheiminum og efla þannig með nemendum víðsýni og tilfinningu fyrir að þeir séu hluti af heild; tilheyri stærri veröld.

Miðstig (5. – 7. bekkur)
Áherslur í kennslu á miðstigi

Á aldrinum 10 – 12 ára eru nemendur yfirleitt námfúsir og hugmyndaauðugir, hafa mikla hreyfiþörf og eru fljótir að tileinka sér ný og æ flóknari verkefni. Hugsunin verður smám saman óhlutstæðari, börnin verða færari um að hugsa rökrétt, greina orsakasamhengi og draga ályktanir. Nemendur eiga nú almennt auðveldara með að setja sig í spor annarra og sjá hluti út frá þeirra sjónarhóli. Þetta eru þýðingarmikil mótunar- og þroskaár, hugurinn er opinn og móttækilegur, þörfin rík til að tjá sig með orðum og athöfnum.

Nemendur hafa sterka þörf til að rannsaka, afla sér vitneskju, leita lausna, þjálfa margs konar fimi og færni. Það að vera virkur í athugun, rannsókn og athöfnum þjálfar huga og hönd og veitir haldbesta þekkingu og reynslu. Kennsluhættir þurfa að vera í samræmi við þarfir barnanna og gefa þeim kost á að nýta möguleika til þroska. Kennslan þarf að vera í formi einstaklings- og hópvinnu þannig að hægt sé að vinna með sem flesta þroskaþætti. Á þessu aldursskeiði er þroskamunur verulegur og í lok þess koma oft einkenni gelgjuskeiðs fram og þarf kennarinn að bregðast við af nærgætni.

Í ljósi ofangreindra atriða skal eftirfarandi haft í huga við val á kennsluháttum í Grunnskólanum í Borgarnesi að :

  • Nemendur læri að skipuleggja nám sitt og bera ábyrgð á eigin vinnu.
  • Kennsla sé heildstæð og námsgreinar samþættar.
  • Nemendum gefist góð tækifæri til að vinna með öðrum og rækta með sér ábyrgð á vinnu hópsins.
  • Verkefni séu fjölbreytt og bjóði nemendum efni við hæfi.
  • Áhersla sé lögð á sjálfstæða öflun þekkingar í formi heimildavinnu, þar sem nemendur nýti sér m.a.; tölvur, myndbönd, fjölmiðla, bækur, heimildamenn, umhverfi og áfram má telja.
  • Byggja námið sem mest út frá fyrri reynslu og þekkingu nemanda
  • Heimanám sé eðlilegur hluti skólastarfsins
  • Nemendur læri að setja niðurstöður sínar fram á skiljanlegan máta á ýmsan hátt s.s.; ritgerðir, bæklingar, myndverk, leikræn framsetning, útvarpsþáttagerð, vefsíður og glærur svo eitthvað sé nefnt.
Unglingastig (8. – 10. bekkur)
Áherslur í kennslu á unglingastigi

Á unglingsárum eykst hæfni nemenda til að hugsa óhlutbundið, skilningur opnast á nýjum þekkingarsviðum og þeir geta glímt við fjölbreyttari viðfangsefni en áður. Af því leiðir að gera þarf auknar kröfur um þekkingu, vinnubrögð og dýpri skilning.

Við val á kennsluaðferðum skulu kennarar gæta þess að  viðfangsefnin séu í samræmi við þroska nemenda og áhuga og að námið sé í eðlilegu framhaldi af því  sem á undan er komið. Taka verður tillit til getu nemenda með því að leggja fyrir þá fjölbreytt verkefni sem reyna m.a. á rökhugsun og gildismat þeirra. Efla þarf samvinnu og samskiptahæfni nemenda, gera þá ábyrga fyrir náminu og framkomu sinni. Leggja þarf áherslu á að byggja upp jákvæðan bekkjaranda og efla sjálfsmynd nemendanna. Þetta er gert með því að nota fjölbreytta kennsluhætti t.d. hópvinnu hvers konar, þar sem nemendur bera sjálfir ábyrgð á vinnubrögðum, þurfa að skipuleggja vinnuna og ákveða sjálfir með hvaða hætti niðurstöður eru settar fram. Nemendum eru veitt tækifæri til þess að afla þekkingar og auka þá færni sem þarf til að flokka, vinna úr og miðla upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt. Þessi færni er undirstaða að ævilangri símenntun.

Einstaklingur, sem býr yfir slíkri færni, á að geta aflað sér af sjálfsdáðum þekkingar og upplýsinga til að mæta síbreytilegum kröfum umhverfisins.

Valgreinar í 7. – 10. bekk

Með því að bjóða upp á val er stefnt að því að laga námið að áhuga og þörfum nemenda. Þeim er gefinn kostur á að nálgast tiltekin greinasvið eftir áhuga eða fyrirætlunum um framhaldsnám. Valið má fella í þrjá meginflokka.

  • Í fyrsta lagi er um að ræða val sem miðar að skipulegum undirbúningi fyrir nám á bóknámsbrautum framhaldsskóla.
  • Í öðru lagi er val sem miðar að skipulegum undirbúningi undir starfsmenntun, list- eða tækninám.
  • Í þriðja lagi eiga nemendur að geta valið um viðfangsefni sem einkum miða að því að víkka sjóndeildarhring þeirra eða stuðla að lífsfyllingu.

Við val á áföngum skal hafa óskir nemenda og forráðamanna þeirra til hliðsjónar (gera kannanir áður) og að skólinn hafi á að skipa vel menntuðu starfsfólki sem kenni viðkomandi áfanga. Að vori skal kynna fyrir nemendum og forráðamönnum þeirra þá valáfanga sem verða í boði. Nemendur skulu síðan ganga frá vali sínu í samráði við forráðamenn sína.