roofing

Vinátta í Andabæ

  Haustið 2017 hóf Andabær þátttöku í verkefninu Vinátta sem er á vegum Barnaheilla en allir leikskólar í sveitafélaginu taka þátt í þessu verkefni. Starfsmenn leikskólans fóru á námskeið til að allir væru með sömu sýn á verkefnið. Fri for mobberi, eins og verkefnið heitir á frummálinu, er þróað og mótað af Red barnet og Mary Fonden í Danmörku og kom þar fyrst út árið 2007. Verkefnið byggir á nýjustu rannsóknum á einelti. Í því er unnið að því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. 

Þátttaka allra; barna, starfsfólks og foreldra er grundvöllur þess að vel til takist. Lögð er sérstök áhersla á að ná til þeirra barna og fullorðinna sem verða vitni að einelti án þess að bregðast við því. 

Unnið er með bangsann Blæ sem getur verið stelpa eða strákur eða annað kyn. Litlir hjálparbangsar eru fyrir hvert barn og hafa þau greiðan aðgang að þeim ef þau þurfa. Í námsefninu eru spjöld þar sem ýmsar aðstæður eru fyrir hendi og hægt er að ræða þær með börnunum. Einnig eru klípusögur fyrir starfsfólk, börn og foreldra, sögubók, tónlistardiskur og nuddhefti. Börnin í Andabæ fara í vinastundir einu sinni í viku og þar er unnið með söngva, nudd og spjall. 

Efnið byggir á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem skulu samofin öllu leikskólastarfinu og er órjúfanlegur hluti þess í allri vinnu og starfi leikskóla sem vinnur með Vináttu. Gert er ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi grunngildi við vinnu og samskipti í leikskólasamfélaginu.

Í linknum hér fyrir neðan má nálgast meiri upplýsingar um efnið

https://barnaheill.is/vinatta/