Útikennsla
Við búum svo vel í Andabæ að það er stutt í fallega náttúru og kletta við leikskólann og erum við dugleg að fara í göngutúra. Við förum í skipulagða útikennslu einu sinni í viku á miðvikudögum, í Skjólbeltin og erum fram að hádegismat. Þangað fara allir nemendur skólans nema yngstu nemendurnir fara ekki alltaf en þá fara þau gjarnan í styttri gönguferðir. Í Skjólbeltunum er sungið við varðeld, lesnar sögur, höfð ávaxtastund, farið í leiki og farið í ævintýraferðir um skóginn. Þar er líka boðið upp á stöðvar og eru þær margskonar, stundum er boðið upp á leiðangur í nágrenni Skjólbeltisins, föndrað úr efnivið svæðisins, Lubba eða Blæstund, reiknað, týnd ber, rannsakað hvaða dýr og plöntur finnast á svæðinu og margt fleira.
Skjólbeltin eru í eigu Landbúnaðarháskóla Íslands og eru þau staðsett rétt fyrir utan Hvanneyrarstað. Uppbygging svæðisins hefur verið í mörg ár og eru komin mjög há tré þar sem mynda gott skjól. Það er t.d. búið að koma fyrir litlu sviði, indjánatjaldi og kofa sem þarf að klifra upp í. Uppbygging Skjólbeltanna hefur verið í höndum Landbúnaðarháskólans með aðstoð frá foreldrafélögum skólanna í gegnum árin. Hefur leikskólinn og grunnskólinn á staðnum aðganga að þessum stað og nýta hann vel.
Stór þáttur í útinámi er að taka áhættu og takast á við ögrandi hreyfingu. Upplifun í náttúrunni er að geta fyllt vitin af fersku lofti, greina angan af gróðri og hlusta á hljóðin sem heyrast frá umhverfinu. Einn af áhersluþáttum í skólastefnu Borgarbyggðar er Útikennsla sem hluti af Framsæknu skólastarfi. Við í Andabæ höfum sett það sem markmið okkar að hlúa að útinámi barnanna og tengja það við alla námsþætti skólans. Það sem við getum gert inni getum við líka gert úti.
Markmið okkar með útináminu eru:
- Að efla umhverfisvitund; þekkingu, skilning og væntumþykju á náttúru, umhverfi.
- Að auka vilja til náttúruverndar og virðingu fyrir fjölbreytileika náttúru og mannlífs.
- Að njóta náttúru í leik og kennslu.
- Að ganga um náttúru okkar af virðingu.
Við mælum með námsefninu hennar Sabínu Steinunnar Halldórsdóttur. En hún gaf út handbók sem heitir Færni til framtíðar og er um örvun hreyfifærni barna úti í nánasta umhverfi. Sabína er bæði með Facebook og Instagram síðu. Hvetjum foreldra til að skoða þær, því þar eru alls konar hugmyndir sem hægt er að gera með börnunum úti.