Umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar

Ráðhús BorgarbyggðarAthyglisvert, Fréttir, Póstlisti

Á sauðamessu í Hjálmakletti s.l. laugardag voru afhentar umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar en þær eru fjórar.

  1. Snyrtilegasta bændabýlið

Sámsstaðir í Hvítársíðu

Fjárbú, í eigu Ólafs Guðmundssonar og Þuríðar Guðmundsdóttur, þar sem öll umhirða er til fyrirmyndar. Snyrtimennska í hávegum höfð varðandi heyskap, frágang vinnuvéla og tækja úti við, rúllustæður og girðingar. Húsum vel við haldið.

  1. Snyrtilegasta lóð við íbúðarhús

Berugata 5 – Ingibjörg Jónsdóttir og Anna E. Rafnsdóttir

Viðurkenningin er veitt fyrir garðrækt. Garðurinn er í gömlum garðastíl og þar er að finna fjölbreyttan gróðu.  Mikil natni og alúð er lögð í ræktunina og blómin ræktuð frá grunni. Mikil og sífelld vinna  er lögð í umhirðu garðsins.

  1. Snyrtilegasta lóð við atvinnuhúsnæði

Grenigerði

Snyrtileg  aðkoma og  gróskumikið ræktunarstarf. Rita og Páll í  Grenigerði hafa lagt mikla vinnu í umfangsmikla trjárækt, með virðingu og umhyggju fyrir náttúrunni í kring að leiðarljósi. Þá hafa þau gefið mikið af sér til samfélagsins; tekið á móti hópum og gefið trjáplöntur til skóla og annarra stofnana. Heimsókn í Grenigerði er heimsókn í ævintýraland.

  1. Sérstök viðurkenning umhverfis,-skipulags- og landbúnaðarnefndar vegna umhverfismála

Björk Jóhannsdóttir hlýtur viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf, elju og einstaklingsframtak. Björk var aðalhugmyndasmiður að  verkefninu „Egla tekur til hendinni“ og burðarplastpokalaus Borgarbyggð auk þess sem hún virkjaði hóp sjálfboðaliða í ruslatínslu í nærsamfélaginu undir nafninu Plokkhópur Eglu.