22. apríl, 2024
Fréttir

Komið sæl

  • Það eru allar vikur viðburðaríkar í starfi sveitarstjóra Borgarbyggðar. Engir tveir dagar eins og verkefni morgundagsins oft ófyrirsjáanleg. Aragrúi verkefna á stóru heimili en stikla hér á stóru.
  • Í þarsíðustu viku var ársuppgjör Borgarbyggðar 2023 afgreitt frá fyrri umræðu. Í framhaldinu tók ég fundi með lánveitendum og fjárfestum um uppbyggingu í sveitarfélaginu – og til að vekja athygli góðri fjárhagsstöðu. Hitti banka, fjárfestingafélag, lífeyrissjóð og fasteignafélag. Í framhaldinu komin þokkaleg mynd af fjármögnun fram eftir ári sem við Eiríkur fjármálastjóri kynntum fyrir byggðarráði í vikunni. Ég er stoltur af rekstri og fjárhagsstöðu Borgarbyggðar og hún er góður grunnur til að byggja á.
  • Framundan er veruleg uppbygging og þar með lántaka. Segja má að uppbyggingartímabil hafi hafist með framkvæmdum við endurbyggingu GBF á Kleppjárnsreykjum nú í apríl. Endurbætur á húsnæði Varmalandsdeildar framundan í sumar og sömuleiðis á húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi, svo knatthús, Ugluklettur, gatnagerð ofl.
  • Skólamálin fyrirferðarmikil eins og vikurnar á undan. Foreldrafélag GBF bauð upp íbúafund á Hvanneyri á þriðjudagskvöldið. Eins og sagan sýnir þá er fyrirkomulag skólamála ekki auðvelt umræðuefni í Borgarbyggð, ekki frekar en í mörgum öðrum víðfeðmum sveitarfélögum. Yfirskriftin var framtíðarsýn fyrir GBF en fyrirspurnir snerust að mestu leyti um þá ákvörðun að hætta kennslu á miðstigi á Varmalandi næsta vetur samhliða því að hætta kennslu á unglingastigi. Mitt innslag á fundinum snerist um að nú þegar ákvörðun liggur fyrir þá verðum við sameiginlega að beina orkunni á þá átt að láta leiða breytingar farsællega til lykta – færa fókusinn þangað.
  • GBF á Varmalandi fékk grænfánann frá Landvernd á föstudaginn. Gaman að vera viðstaddur afhendingu, flöggun, útileikfimi og söng. Varmalands lognið lét ekki að sér hæða og fáninn lá þétt upp við stöngina þar til smágjóla fékk hann til að blakta.
  • Eins og stundum áður fór tími og orka í skipulagshugmyndir í Brákarey. Fundir með Festir og KPMG. Festir að vinna að kynningu og KPMG að ljúka við hagræna greiningu á verkefninu.
  • Á miðvikudagsmorguninn sótti ég aðalfund Orkuveitu Reykjavíkur.  Borgarbyggð á 0,9% hlut.  Lítill hlutur en mikils virði og mikilvægt að eiga ,sæti við borðið þegar ákvarðanir eru teknar. Guðveig er okkar áheyrnarfulltrúi í stjórn. Fundurinn tíðindalítill í sjálfu sér en alltaf vettvangur samtals milli okkar, Akraneskaupsstaðar, Reykjavíkurborgar og stjórnenda Orkuveitunnar og dótturfélaga. Mikilvægur vettvangur sem slíkur.
  • Þá var fundað á samstarfsvettvangi sveitarfélaga vegna kjarasamninga. Heillaspor að það tókst að lenda kjarasamningum á almenna markaðinum um daginn og Borgarbyggð eins og önnur sveitarfélög að leggja talsvert af mörkum. Sveitarfélögin að horfa til þess að samningar við opinbera starfsmenn verði á sömu nótum – vextir og verðbólga verða að fara að lækka.
  • Framundan er viðburður vegna friðlýsingar Borgarneskirkju. Náði að aðeins að sinna undirbúningi í vikunni en Þórunn, forstöðukona menningarmála, og Petra nýr verkefnastjóri stafrænnar þjónustu upplýsingamiðlunar leiða það okkar megin. Verður vonandi skemmtilegur og hátíðlegur viðburður í góðu samstarfi við Minjastofnun, Umhverfisráðuneytið, sóknarnefnd Borgarneskirkju og auðvitað Heiðrúnu sóknarprest.
  • He Rulong sendiherra Kína á Íslandi heimsótti skrifstofur Borgarbyggðar í vikunni ásamt föruneyti. Ég kynnti sveitarfélagið í nokkrum orðum og glærum og síðan mjög skemmtilegt samtal um ferðaþjónustu, barneignir, innviði, öldrunarmál, náttúruvernd, náttúruvá og margt margt fleira. Sendiherrann var áður við stjórnvölinn á litlu 750 þúsund manna sveitarfélagi í Kína þannig að við vorum að tengja.
  • Það er líka einstaklega gaman að taka á móti fólki í fundarsalinn á efstu hæð ráðhússins – og hægt að fara út á svalir. Besta útsýni landsins þar í boði.
  • Ég messaði síðan yfir tæknifólki sveitarfélaga á föstudaginn. Á annað hundrað tæknifólk hjá sveitarfélögum var á ráðstefnu í Hjálmakletti á fimmtudag og föstudag. Okkar fólk af skipulags- og umhverfissviði voru gestgjafar og ég sló botninn í dagskrána með hálftíma romsu um Borgarbyggð, fólkið og tækifærin hér. Reyndi að vera hress.
  • Dagarnir fara mikið í að styðja mitt góða samstarfsfólk í sínum verkum. Upplýsa, gefa og þiggja ráð. Koma málum í farveg. Vera í samskiptum við kjörna fulltrúa og aðra íbúa.
  • Hrikalega svekkjandi að Skallagrímur skyldi detta út í körfunni gær. Sannarlega naglbítur þessi sería á móti Þór. Yjla mér við að hafa náð 30 stiga sigurleiknum í Borgarnesi á miðvikudaginn. Tökum þetta næsta ár.
  • Frábærir tónleikar með Soffíu Björgu og Pétri Ben í Landnámssetrinu um síðustu helgi. Þvílíkir listamenn og geggjað að geta verið þessari nánd sem Söguloftið býður upp á.
  • Undirritaði einmitt samstarfssamning um Reykholtshátíð á föstudaginn og Þórunn og Sigurður Bjarki listrænir stjórnendur komu til okkar í ráðhúsið. Hátíðin að vanda í lok júlí og boðið upp á framúrskarandi listafólk.
  • Vorið komið og bongóblíða í Borgarbyggð.

Tengdar fréttir

6. júní, 2023
Fréttir

241. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar

Fundarboð

6. júní, 2023
Fréttir

Umhverfisviðurkenningar – tilnefningar

Umhverfis- og landbúnaðarnefnd veitir árlega viðurkenningar fyrir snyrtilegar og fallegar lóðir og hvetur íbúa til að taka þátt í að gera ásýnd sveitarfélagsins sem besta.