Náttúrugripasafn Borgarfjarðar
Árið 1972 kom Bjarni Bachmann fram með þá hugmynd að náttúrugripasafn myndi vekja áhuga fólks og auka safnflóruna í Borgarnesi. Þetta orðaði hann við nemanda sinn Dagmar Ólafsdóttur sem týndi skeljar og kuðunga í fjörunni á Ökrum á Mýrum og færði honum. Það voru fyrstu gripirnir í Náttúrugripasafn Borgarfjarðar, 30. maí 1972. Í kjölfarið á því hefjast mikil aðföng til safnsins, í formi gjafa, kaupa eða söfnun forstöðumanns sjálfs. Fyrst voru þetta helst steinar, steingerfingar og skeljar.
Í nóvember var ákveðið að safnið yrði deild í Byggðasafninu en fjárhagslega sjálfstæð. Stofnuð var stjórn safnsins og skyldi einn stjórnarmaður sitja í stjórn Safnahúss. Í desember 1972 kom leyfi frá Menntamálaráðuneytinu til að safna fuglum, eggjum og hreiðrum til safnsins. Handhafi veiðileyfisins var Haukur Jakobsson sem sá um að elta uppi þá einstaklinga sem á safninu skyldu lenda. Árið 1974 Alþingi veitti svo safninu 100.000 kr og þá fyrst hófst vöxtur safnsins þegar samið var við hamskerann Jón M. Guðmundsson að stoppa upp fenginn sem Haukur veiðimaður bar í hús.
Eigendur safnsins greiddu alltaf upphæðir til safnsins auk styrkja, meðal annars frá Alþingi. Svo virðist sem sjóðseign safnins hafi aukist ár frá ári þrátt fyrir töluverð útgjöld til uppstoppunar og stórra kaupa á dánarbúi Kristjáns Geirmundssonar á 1 milljón, alls 165 fuglar. Mikill fengur þótti í því safni þar sem hann hafði lengi safnað mjög sjaldgæfum fuglum og flækingum sem ekki væri hlaupið að því að ná í. Árið 1978 ákvað stjórnin að safnið myndi taka þátt í að greiða laun safnvarðar og það sama ár var safnið brunatryggt. Á árunum 1978-1981 er gerð fyrsta reglugerð um Náttúrugripasafnið (stofnsamþykktir). Mikil gróska var í safninu þessi fyrstu ár og gestir á safnið eru taldir 10-13 þús, en fer nokkuð minnkandi eftir 1980. Gjafir bárust í bunkum, oft tugir fugla á ári, sem safnið sá um að stoppa upp. Nú eru í safninu rúmlega 360 fuglar, um 140 tegundir, auk spendýra, skelja og steina.