roofing

Aðgangur að safninu er öllum opinn og lánþegaskírteini  gildir í eitt ár í senn.

Frítt er fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega og einnig börn að átján ára aldri.

Fyrir þá sem dvelja í skamman tíma í héraðinu er einnig boðið upp á skammtímaskírteini sem gildir í þrjá mánuði í senn.

Lánþegahópurinn er fjölbreyttur og þarfir notenda að sama skapi ólíkar, hvort sem um er að ræða afþreyingalestur, eða lestur vegna náms eða atvinnu. Benda má á í því sambandi að nemendur fjögurra skólastiga sækja safnið heim í heimildaleit eða til lestrarörvunar. Auk hins ágæta bókarkosts má einnig finna ýmislegt annað efni, s.s tímarit, bæði ný og gömul sem oft nýtast t.d námsfólki, myndefni, hljóðbækur og tónlistardiska.

Sé eintak af bók eða öðru safngagni ekki til á safninu er oft hægt að útvega eintakið með millisafnaláni frá öðrum söfnum en þá er tekið gjald upp í póstkostnað. Eins lánar safnið oft bækur sínar til annarra safna sé þess óskað. Sérstakur samstarfssamningur gildir milli safnsins og Bókasafns Akraness og nægir lánþegum að eiga gillt skírteini í öðru safninu til að geta notað bæði söfnin. Þá er hægt að skila efni á hvorum staðnum sem er. Í Handbókaherbergi er aðstaða fyrir námsfólk og aðra til lestrar og vinnu og og á safninu er þægilegt leshorn þar sem má t.d. líta í nýjustu dagblöðin.

Héraðsbókasafn Borgarfjarðar varð til vegna laga um bókasöfn og stofnsett 1956. Þar áður voru þó lestrarfélög starfandi í héraðinu og tilheyra þau einnig sögu safnamenningar á þessu sviði í Borgarfirði.

Fyrsta bókasafnið í Borgarfirði hét Hið J. Möllerska bókasafn og lestrarfélag, starfrækt af prestum, stórbændum og læknum á bilinu 1832-1882. Starfssvæði safnsins var Mýra- og Borgarfjarðarsýsla innan Skarðsheiðar, það sama og Héraðsbókasafn Borgarfjarðar tilheyrir nú.

Upp úr aldamótunum 1900 fóru að verða til bókasöfn í öllum hreppum héraðsins og einstök félög eða ungmennafélög stofnuðu til lestrarfélaga. Í Borgarnesi var Lestrarfélag Borgarness stofnað árið 1905, fyrir tilstilli Jóns Björnssonar frá Bæ. Við formennsku tók síðan Gestur Kristjánsson, verslunarmaður, en í hans tíð var safnið afhent Héraðsbókasafninu. Í dag er safnið hluti af safnaklasa í Safnahúsi sem er til húsa að Bjarnarbraut 4-6 í Borgarnesi.

Bækur

Reynt er eftir fremsta megni að nálgast nær allar útgefnar bækur á íslensku, um svipað leyti og þær koma út, yfirleitt eitt eintak af hverri bók. Nokkuð magn erlendra bóka er á safninu og má þar nefna bækur á ensku, skandinavísku málunum og þýsku. Yfirleitt eru bækur lánaðar út til 30 daga en nýjar bækur einungis í 10 daga. Hægt er að láta skrá sig á biðlista yfir bækur og er þá haft samband við viðkomandi þegar bókin kemur inn.

Dagsektir reiknast á bækur sem komnar eru fram yfir lánstíma og hafa ekki verið endurnýjaðar.  Sendar eru út áminningar í slíkum tilfellum.

Bækur í handbókasal (merktar ,,H” á kili) eru að jafnaði ekki lánaðar út, heldur eingöngu til afnota í handbóka/lestrarsal. Eru það einkum ættfræðibækur, stórar yfirlitsbækur og orðabækur.

Geymslueintök, (merkt ,,G” á kili bókar), eru gamlar og oft fágætar bækur, ætlaðar til afnota í lestrarsal og eru ekki lánaðar út. Þær eru geymdar sér bakatil.

Þá reyna bókaverðir að nálgast bækur sem safnið á ekki í millisafnaláni frá öðrum söfnum, sé þess óskað, hvort sem um er að ræða ákveðna bók eða bækur á öðrum tungumálum.

Glatist bók eða annar safnkostur hjá lánþega ber að útvega safninu nýtt eintak eða greiða fyrir nýtt eintak.

Tímarit

Safnið kaupir eða fær send mörg tímarit sem gefin eru út innanlands, auk nokkurra erlendra timarita.

Töluvert margir titlar eldri tímarita eru geymdir í tímaritageymslum og eru að jafnaði ekki til útláns, heldur til skoðunar á staðnum, í lestrarsal eða þægilegum leskrók á safninu þar sem gestir geta aukinheldur gluggað í nýjustu dagblöðin.

Dagblöð eru geymd að jafnaði í sex mánuði en eru ekki til útláns.  Tímarit eru lánuð út í 10 daga.

Myndefni

Myndefni (DVD) er lánað út í tvo virka daga í senn.

Tónlistardiskar

Safnið á svolítið úrval geisladiska með tónlist af öllum toga, jafnt innlendri sem erlendri. Þeir eru lánaðir í 14 daga.

Hljóðbækur

Safnið reynir að festa kaup á flestum þeim hljóðbókum sem út koma á íslensku. Þá hefur safnið eignast nokkrar hljóðbækur á ensku til að auka úrvalið ennfremur. Nokkrar hljóðbækur eru til á erlendum málum. Hljóðbækur eru lánaðar í 30 daga eins og bækur.

Ljósritun

Boðið er upp á ljósritunar- og útprentunarþjónustu á safninu.

Verðskrá:

A4: 25 kr. hver blaðsíða

A3: 50 kr. hver blaðsíða

Internet

Aðgangur að tölvu er á safninu og boðið upp á þráðlausan aðgang.

Bókasafn Páls Jónssonar

Í rúmgóðu herbergi inn af handbókasal er Pálssafn staðsett, en það er bókasafn hins kunna bókasafnara og bókavarðar Páls Jónssonar frá Örnólfsdal í Þverárhlíð.

Páll Jónsson var fæddur árið 1909 að Lundum í Stafholtstungum en ólst upp lengst af í Örnólfsdal í Þverárhlíð. Átján ára fluttist Páll til Reykjavíkur þar sem hann lagði stund á verslunarstörf og blaðamennsku þangað til hann hóf störf hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur árið 1953 sem bókavörður. Því starfi sinnti Páll þangað til hann lét af störfum árið 1980 fyrir aldurssakir. Auk áhuga síns á bókum og bókasöfnun hafði Páll mikinn áhuga á ljósmyndun, en myndir hans hafa birst víða í bókum og tímaritum. Tengt ljósmyndaáhuga Páls, var áhugi hans á ferðalögum og útivist. Páll var virkur félagsmaður í Ferðafélagi Íslands og sat í stjórn þess frá 1947 til 1978 er hann baðst undan endurkosningu.
Páll var ritstjóri Árbókar Ferðafélagsins frá 1968- 1982 er hann lét af starfi að eigin ósk. Fyrir ritstjórnartíð sína kom Páll að Árbókinni og lagði meðal annars fram myndefni í bókina.
Árið 1980 var Páll gerður að heiðursfélaga Ferðafélags Íslands.

Í Pálssafni eru á að giska um 5-7000 bindi frá ýmsum tímum, margar afar fágætar bækur. Elst bóka í Pálssafni er eitt af ritum Marteins Lúters, prentað í Wittenberg árið 1521. Í safninu er meðal annars Biblia laicorum eða Leikmannabiblía eftir Johann Auman, sem prentuð var 1599 í þýðingu Guðbrands biskups.
Páll lagði á það mikla áherslu að safna íslenskum bókum frá fyrri öldum og varð vel ágengt. Til að mynda eru 29 íslenskar bækur frá 17.öld, þar á meðal Þorláksbiblía gefin út á Hólum 1644.

Áritaðar bækur eru þó nokkrar í Pálssafni: elst er erlend latínubók úr eigu Brynjólfs biskups Sveinssonar. Af öðrum árituðum bókum frá fyrri tíð má nefna bækur Skúla Magnússonar Landfógeta, sr. Þorsteins Helgassonar í Reykholti og ljóðabækur skáldanna Gríms Thomsens, Þorsteins Erlingssonar og Einars Benediktssonar. Áritaðar bækur frá seinni tíð eru nær óteljandi.

Þess skal einnig getið að margar af sínum bókum batt Páll inn sjálfur, enda þótti hann meðal bestu bókbindara landsins. Ekki sótti hann þó iðnnám í þeirri grein heldur lærði af þýskum listbókbindara er hér dvaldist um nokkurra ára skeið eftir stríðslok.

Heimildir:
Ólafur Pálmason. 1991. Páll Jónsson og bókasafn hans. Erindi flutt í Héraðsbókasafni Borgarfjarðar 18.júní 1989. Sérprent úr Árbók Landsbókasafns 1991. Reykjavík.
Steindór Steindórsson frá Hlöðum. 20.júní 1989. Páll Jónsson frá Örnólfsdal. Örn og Örlygur Reykjavík.
Auk ofanritaða heimilda má benda á ritið Land og Stund; afmæliskveðja til Páls Jónssonar á 75 ára afmæli hans 20.júní 1984.

Rafbókasafn

Héraðsbókasafnið býður nú lánþegum sínum aðgang að Rafbókasafninu.

Í Rafbókasafninu eru mikið magn rafbóka og hljóðbóka. Meginhluti efnisins er á ensku og í formi rafbóka, en hlutur hljóðbóka fer ört vaxandi, enda njóta þær sérlegra vinsælda. Þetta þýðir að bókakostur nýju aðildarsafnanna stækkar um tæplega 4.000 bækur og  er safnkosturinn fjölbreyttur, en þar má finna skáldverk, fræðirit og rit almenns efnis, bæði nýtt efni og sígild verk.

Raf- og hljóðbækurnar má lesa og hlusta á, ýmist á vef safnsins, eða í snjalltækjum með öppunum Overdrive eða Libby.

Með aðgangi að rafbókasafni geta lesendur notað hvert tækifæri til að lesa bækur, í síma eða á spjaldtölvu. Rafbókasafnið er alltaf opið og þar eru engar sektir, því kerfið sér sjálft um að skila bókum þegar lánstími er útrunninn.

Allar nánari upplýsingar um Rafbókasafnið fær almenningur á héraðsbókasafninu og vefslóðin á rafbókasafnið sjálft er http://rafbokasafnid.is

Til að fá aðgang að rafbókasafni er nauðsynlegt að eiga gilt bókasafnsskírteini.

Allar frekari upplýsingar veitir Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður: bokasafn@safnahus.is eða 4337200.