Skólastarf
Uppeldisleg sýn leikskólans
Bernskuárin eru þroskaskeið sem ber að virða og taka fullt tillit til. Hvert barn er einstakt og þarf að fá að rækta hæfileika sína.
Í Klettaborg er barnið alltaf í brennidepli og á að fá að þroskast og mótast á eigin forsendum. Barnið er hvatt til að reyna sjálft og fikra sig þannig áfram, það er þátttakandi í að móta eigin veröld, þar sem rödd þess fær að hljóma og á hana er hlustað.
Við viljum í samvinnu við heimilin sjá sjálfstæðan, hamingjusaman, skapandi og agaðan einstakling með jákvæða sjálfsmynd, sem tjáir tilfinningar sínar, virðir skoðanir og tekur tillit til annarra.
Umönnun og daglegar venjur eru stór hluti leikskólastarfsins. Umönnun er fólgin í því að annast börnin líkamlega og andlega af hlýju, áhuga og ábyrgðarkennd en við það skapast tilfinningatengsl og trúnaðartraust. Í hinu daglega leikskólastarfi er tekið mið af þroska barnanna, aldri, þörfum og dvalartíma. Leikskólastarfið er sveigjanlegt og tekur mið af reynslu, áhuga og þroska ólíkra barna.
Einkunnarorð leikskólans eru: sjálfstæði – virðing – gleði.
Leiðarljós/hugmyndafræði
Í Klettaborg er unnið samkvæmt framfarastefnu John Dewey og Leiðtoganum í mér/The Leader in Me sem er hugmyndafræði fyrir skóla sem byggir á bók Steven R. Covey „The 7 Habits of Highly Effective People“.
Áherslur í starfi:
Samkvæmt aðalnámskrá á leikskóli að vera lýðræðislegur vettvangur og lærdómssamfélag þar sem kennarar, foreldrar og börn eru virkir þátttakendur og leitast er eftir því að rödd allra fái að hljóma.
Áhersluatriði í leikskólastarfinu eru: einstaklingsmiðað nám, leiðtogahæfni, leikskólalæsi og heilsuefling.