Velkomin á Hnoðraból
Leikskólinn Hnoðraból er á Keppjárnsreykjum í Reykholtsdal í Borgarbyggð. Hann er tveggja deilda leikskóli og að jafnaði eru um 30 börn á aldrinum frá 12 mánaða til 6 ára. Starfsemi leikskólans heyrir undir fræðslunefnd og starfar eftir settum verklagsreglum fyrir starfsemi leikskóla í Borgarbyggð, sjá verklagsreglur hér.
Leikskólinn Hnoðraból starfar eftir lögum um leikskóla (nr.90/2008) og Aðalnámskrá leikskóla 2011. Þar kemur fram að leikskólar séu fyrsta skólastigið í skólakerfinu. Leikskólinn skal annast uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri.
Markmið Hnoðrabóls er að hafa velferð og hag barna að leiðarljósi samkvæmt lögum. Nám á að fara fram í leik og skapandi starfi og starfshættir byggja á umburðarlyndi, jafnrétti, kærleika, ábyrgð, lýðræðislegu samstarfi, virðingu og umhyggju.
Þegar ný börn hefja sína skólagöngu á Hnoðrabóli ganga þau í gegnum þátttökuaðlögun með sínu foreldri.
Hún fer þannig fram að fyrst er haldinn fundur með foreldrum og starfsfólki þar sem starfsfólkið kynnir sig, deildina og segir frá því sem framundan er. Næst mætir foreldri með barnið og fylgir því fyrstu þrjá dagana. Á fjórða degi mætir barnið og kveður foreldri sitt.
„Hugmyndafræðin á bak við þetta ferli er að öruggir foreldrar smiti eigin öryggiskennd yfir til barna sinna. Öruggir foreldrar = örugg börn. Með því að foreldrar séu fullir þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum“(Kristín Dýrfjörð, 2009).
Hnoðraból er grænfánaleikskóli.Á Hnoðrabóli er unnið eftir þessum kenningum fræðimanna, hugmyndir John Dewey um nám og reynslu, kenningar Rudolf Steiners sem Waldorfuppeldisfræðin byggir á, hugmyndum Steven Covey um Venjurnar sjö/Leiðtoginn í mér. Helstu kennsluaðferðir eru í gegnum frjálsan leik, lögð er mikil áhersla á útiveru, hreyfingu, sköpun og málörvun.
Saga Hnoðrabóls
Leikskólinn Hnoðraból/Dagheimili Reykholts – og Hálsahrepps var stofnaður af áhugasömum foreldrum í sveitinni 9. september 1982. Fyrstu árin var leikskólinn staðsettur í Smiðjunni í Reykholti og Læknishúsinu að Kleppjárnsreykjum en lengst af var hann til húsa í Litla Hvammi. Reykholtsdalshreppur tók við rekstri leikskólans árið 1986. Árið 1991 keypti hann hús á Grímsstöðum undir leikskólastarfsemina og var hann þar til húsa allt til ársins 2020. Þegar húsið var keypt var efnt til hugmyndasamkeppni um nafn á leikskólann og Hnoðraból varð fyrir valinu, átti Halldóra Þorvaldsdóttir í Reykholti hugmyndina að því. Borgarbyggð byggði nýtt húsnæði fyrir leikskólann sem viðbyggingu við grunnskólann á Kleppjárnsreykjum og var starfsemi leikskólans flutt þar inn í desember 2020.
Starf Hnoðrabóls hefur verið farsælt í gegnum áratugina og hefur hann notið mikillar velvildar nærsamfélagsins alla tíð. Nærsamfélagið hefur mótað og auðgað starf skólans, hvatt til samskipta, samvinnu og vináttu sem er hverjum skóla afar dýrmætt.