Fyrir nýja íbúa
Borgarbyggð er fallegt, friðsælt og fjölskylduvænt sveitarfélag á Vesturlandi. Sveitarfélagið kappkostar við að bjóða alla nýja íbúa velkomna og hefur því tekið saman helstu þætti sem gott er að hafa í huga þegar hugað er að flutningum.
Leikskólar
Í Borgarbyggð eru starfandi fimm leikskólar; tveir í Borgarnesi, einn á Bifröst, einn á Hvanneyri og einn á Kleppjárnsreykjum.
Leikskólarnir starfa eftir lögum og reglugerðum um leikskóla og skólastefnu Borgarbyggðar. Sérhver leikskóli skipuleggur og starfar eftir sínum áherslusviðum og mótar skólanámskrá sem er aðgengileg á heimasíðu Borgarbyggðar ásamt skólastefnu sveitarfélagsins.
Leikskólarnir eru allir heilsueflandi og með heilsustefnu auk þess sem þeir eru flestir með Grænfána.
Allir leikskólar taka við börnum á aldrinum 12 mánaða til 6 ára og sótt er um leikskóladvöl í þjónustugátt sveitarfélagsins inn á heimasíðu Borgarbyggðar.
Nánar um leikskólana hér (HLEKKUR).
Sótt er um leikskóladvöl á vef Borgarbyggðar (Þjónustugátt).
Grunnskólar
Tveir grunnskólar eru starfandi í sveitarfélaginu á fjórum stöðum. Grunnskólinn í Borgarnesi er starfræktur í Borgarnesi og Grunnskóli Borgarfjarðar er starfræktur á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Þessir skólar starfa eftir lögum, reglugerðum um grunnskóla, aðalnámskrá grunnskóla og skólastefnu Borgarbyggðar.
Grunnskólinn í Borgarnesi og Grunnskóli Borgarfjarðar eru heilsueflandi skólar með Grænfána. Skólarnir bjóða upp á málsverði í samræmi við lýðheilsumarkmið og nemendur hafa kost á því að nýta skólabílana, bæði á morgnana og þegar skóla lýkur.
Einkunnarorð Grunnskólans í Borgarnesi eru eftirfarandi; sjálfstæði, ábyrgð, virðing og samhugur.
Einkunnarorð Grunnskóla Borgarfjarðar eru eftirfarandi; Gleði, heilbrigði og árangur.
Upplýsingar um skólaakstur má finna á heimasíðu grunnskólana.
Sótt er um skólavist í grunnskóla í þjónustugátt sveitarfélagsins á heimasíðu Borgarbyggðar.
Menntaskóli
Borgarbyggð státar af fyrirtaks menntaskóla (MB) sem stofnaður var árið 2006 í Borgarnesi. Skólinn fer ótroðnar slóðir í starfsháttum og námsframboð er fjölbreytt. Í boði er félagsfræðibraut, íþróttafræðibraut, náttúrufræðibraut, opin braut, framhaldsskólabraut og starfsbraut. Nýlega bættist við braut sem nefnist náttúrufræðibraut – búfræðisvið sem er samstarf á milli MB og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.
Háskólar
Tveir háskólar eru starfræktir í sveitarfélaginu, Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri. Fá sveitarfélög bjóða upp á jafn fjölbreyttar námsleiðir á háskólastigi.
Tónlistarskóli
Tónlistarskóli starfar í Borgarbyggð og heitir Tónlistarskóli Borgarfjarðar. Kennsla fer fram í Borgarnesi, á Hvanneyri, á Kleppjárnsreykjum og á Varmalandi.
Tónlistarskólinn tekur mið af áhugasviðum nemenda, getu þeirra og þroska. Kennsluaðferðir og viðfangsefni skólans eru fjölbreytt og sveigjanleg og henta öllum aldurshópum. Kennt er á helstu hljóðfæri en einnig er boðið upp á forskóladeild fyrir leikskólabörn og söngleikjadeild fyrir grunnskólanemendur. Árið 2022 var sett upp stúdíóaðstaða í skólanum og í mótun eru áfangar þar sem kennt er á stúdíóið sem hljóðfæri. Listaskóli Borgarfjarðar er í burðarliðnum og á vegum hans er reglulega boðið upp á ýmis konar námskeið í leiklist og myndlist.
Innritun í tónlistarnám fer alla jafna fram að vori, en hægt er að sækja um skólavist allan ársins hring. Skólaárið sjálft skiptist í tvær annir, haust- og vorönn. Nemendur sem teknir hafa verið inn í skólann halda sæti sínu þangað til þeir láta vita af breytingum. Nemendur tónlistarskólans koma fram við ýmis tækifæri og taka þátt í viðburðum í Borgarbyggð og víðar.
Nemendur greiða skólagjöld í samræmi við námshlutfall. Veittur er 25% afsláttur hjá öðru barni og 50% afsláttur hjá þriðja barni í fjölskyldu.
Símenntun
Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi starfar í Borgarnesi. Símenntunarmiðstöðin stendur fyrir ýmsu námsframboði í fullorðinsfræðslu, auk náms- og starfsráðgjafar o.fl. Símenntunarmiðstöð þjónustar einnig fjarnema í háskólanámi, en þeir geta tekið próf í heimabyggð.
Lausar íbúðarlóðir til úthlutunar í sveitarfélaginu birtast ávallt inn á heimasíðu Borgarbyggðar undir lausar lóðir.
Leigufélögin Bríet, Brák og Alma eru með leiguhúsnæði í sveitarfélaginu. Þá er hægt að skoða fastseignir á söluskrá á fasteignasíðum Morgunblaðsins og Vísis.
Í Borgarbyggð er að finna fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf sem hentar öllum aldurshópum. Borgarbyggð vinnur eftir stefnu sveitarfélagsins í íþrótta- og tómstundamálum sem samþykkt er af sveitarstjórn. Nýjustu stefnuna má ávallt finna inn á heimasíðu Borgarbyggðar.
Frístundaheimili eru starfrækt við báða grunnskóla Borgarbyggðar. Þar er 6-9 ára börnum boðið upp á fjölbreytt tómstundastarf eftir að skóladegi lýkur. Leitast er við að bjóða upp á spennandi viðfangsefni sem veita börnum útrás fyrir leik- og sköpunarþörf.
Þjónusta við börn með sérþarfi er skipulögð í hverju frístundaheimili fyrir sig í samvinnu við foreldra, skóla og aðra fagaðila sem tengjast börnunum.
Sótt er um dvöl inn á heimasíðu Borgarbyggðar undir þjónusta og frístundaheimili
Íþróttamannvirki og sundlaugar eru á þremur stöðum; í Borgarnesi, á Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Sparkvellir hafa verið settir upp á skólalóðum í Borgarnesi, á Hvanneyri og á Bifröst. Fjölbreyttar hjóla- og gönguleiðir má finna í Borgarbyggð og unnið er að frekari uppbyggingu göngustíga m.a. í Borgarnesi. Víða eru góð leiksvæði fyrir börn, til að mynda aparólur og ærslabelgi víða um sveitarfélagið.
Borgarbyggð státar af mikilli náttúrufegurð hvort sem horft er til sjávar eða sveita. Hér eru spriklandi laxar í ám, hvítfyssandi fossar, fjölbreytt fjöll, víðfeðm hraun, stórir og litlir hverir, fallegir skógar og svipmiklir jöklar. Útivistarmöguleikarnir eru endalausir og því auðvelt að finna afþreyingu fyrir alla aldurshópa.
Í Borgarbyggð eru frábærir golfvellir með öflugu ungmennastarfi. Fyrir hestafólk er að finna góða aðstöðu til hestamennsku í nánd við þéttbýliskjarnana. Stangveiði er mikið stunduð í sveitarfélaginu yfir sumarmánuðina, jafnt af íbúum sem gestum. Áhugi íbúa sjósporti, svo sem á sjósundi og kajakróðri, fer vaxandi og áhugamannafélög hafa verið stofnuð
Menningarlíf í Borgarbyggð er með eindæmum blómlegt. Ýmis konar klúbbar, samtök og áhugamannafélög eru með virka starfsemi og standa fyrir reglulegum viðburðum. Kórastarf í sveitarfélaginu er öflugt og það sama má segja um leikfélögin. Árið um kring er hægt er að sækja sér nýja þekkingu á námskeiðum og fyrirlestrum af ýmsum toga í Borgarbyggð.
Safnahús Borgarfjarðar er staðsett í Borgarnesi. Þar er boðið upp á ýmsa viðburði allt árið um kring, t.d. ritsmiðjur, foreldramorgna, ljósmyndamorgna, námskeið, listasýningar og ýmislegt til fróðleiks og skemmtunar. Að Safnahúsinu standa fimm söfn, þau eru Héraðsskjalasafn, Byggðasafn Borgarfjarðar, Náttúrugripasafn, Listasafn Borgarness og Héraðsbókasafn Borgarfjarðar. Á bókasafninu er fjölbreytt úrval bóka og annars afþreyingarefnis auk aðgangs að tölvu, lesaðstöðu og aðstöðu fyrir börn.
Við Borgarbraut í Borgarnesi er verslunarkjarninn Hyrnutorg. Þar er Nettó-verslun, Lyfja, Vínbúðin, íþróttavöruverslun, gjafavöruverslanir, hárgreiðslustofa og fleira.
Bónusverslun er að finna í útjaðri Borgarness, við Borgarfjarðarbrúna. Í sama húsi er Geirabakarí. Byggingarvöruverslanir er jafnframt að finna í bænum.
Úrval veitingastaða í Borgarbyggð er gott og hefur aukist mikið á undanförnum árum
Olís, N1, Orkan og Atlantsolía reka þjónustu á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu.
Öll almenn læknaþjónusta fæst á Heilbrigðisstofnun Vesturlands sem staðsett er í Borgarnesi. Á heilsugæslunni er hægt að panta tíma hjá lækni eða á hjúkrunarmóttöku, eins er hægt að panta símatíma hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi ef málið er þess eðlis að hægt sé að leysa í gegnum síma.
Ef mál eru aðkallandi er hægt að fá símtal samdægurs hjá vakthafandi hjúkrunarfræðingi á opnunartíma heilsugæslunnar, sem kemur málinu í viðeigandi farveg.
Læknir er á vakt allan sólarhringinn og sinnir bráðaþjónustu. Utan opnunartíma skal ávallt hringja í 1700 nema um neyðartilfelli sé að ræða, en þá skal ávallt hringja í 112.
Vakin er athygli á því að ekki er hægt að mæta á heilsugæsluna, það þarf ávallt að panta tíma.
- Heimilisfang: Borgarbraut 65.
- Afgreiðsla og tímapantanir virka daga: 432-1430
- Opnunartími: kl. 08:00 – 16:00.
- Vaktsími heilsugæslulæknis utan dagvinnutíma: 1700.
Sorphirðudagatal hvers árs má ávallt finna á heimsíðu Borgarbyggðar. Þar er einnig hægt að leggja inn umsókn um sorpílát og förgun dýraleifa.
Móttökustöð sveitarfélagsins er við Sólbakka í Borgarnesi og er þar unnt að skila inn öllum úrgangi.
Flokkun
Eins og staðan er núna þá er fjagra tunnu sorpkerfi; grá tunna fyrir heimilisúrgang, brún tunna fyrir lífrænan eldhúsúrgang, græn merkt tunna/grænt lok fyrir pappa og bleik merkt tunna fyrir plast.
Í grænu tunnuna fer meðal annars bylgjupappi, dagblöð og tímarit, sléttur pappi/fernur. Mjólkurfernur, eggjabakkar, hólkar innan úr pappírsrúllum eru dæmi um hluti sem fer í þessa tunnu. Í bleik merkta tunnu fer plast eins og skyrdósir, plast utan af vörum/mat, snakkpokar o.fl. Þó skal hafa í huga að það þarf að fjarlæga matarleifar og efnaleifar áður en hent er í tunnurnar
Í brúnu tunnuna fara m.a. allir matarafgangar, plöntur ofl. lífrænt sem fellur til á heimilinu. Nauðsynlegt er að setja lífrænan úrgang í jarðgerðarpoka áður en hann er settur í tunnuna. Hér mega fara hlutir eins og ávextir, grænmeti, brauð, hrísgrjón og annað kornmeti, kaffikorgur og kaffifilter, ostur og annað álegg, fiskur, eggjaskurn, tepokar, afskorin blóm, eldhúspappír og tannstönglar.
Í gráu tunnuna fer allt almennt sorp sem ekki má fara í grænu, bleik merktu eða brúnu tunnuna.
Gler, málma og textíl ber að koma á grenndarstöðvar eða móttökustöðina að Sólbakka.
Flutningstilkynningar eru afgreiddar af Þjóðskrá Íslands.
RARIK ohf. sér um rafveitu í Borgarbyggð.
Veitur ohf. sjá um hitaveitu í Borgarbyggð.
Arion banki rekur útibú í Borgarnesi.