26. janúar, 2024
Fréttir

Samstarf Borgarbyggðar og Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu

Fulltrúar Borgarbyggðar og Vegagerðarinnar á Vestursvæði funduðu nýverið með það að markmiði að skerpa á þjónustu og upplýsingamiðlun til íbúa og annarra vegfarenda. Tilefnið er snjóþyngsli milli jóla og nýárs og mikil hálkutíð í upphafi nýs árs. Starfsfólk Vegagerðinnar og Borgarbyggðar brást við fjölmörgum ábendingum í kringum áramótin í óvenjuþungu tíðafari og var samstarf aðila mjög gott.

Vegir á vegaskrá í dreifbýli í Borgarbyggð eru um 840 kílómetrar að lengd. Svæðið sem starfsstöð Vegagerðarinnar í Borgarnesi sinnir nær þar að auki yfir Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp og Eyja- og Miklaholtshrepp og telur því samtals um 1.030 kílómetra.

Nokkuð skýr verkaskipting er á milli Vegagerðarinnar og sveitarfélagsins þegar kemur að snjómokstri. Vegagerðin sinnir daglegum snjómokstri þegar nauðsyn krefur á Þjóðvegi 1, Snæfellsnesvegi og Bröttubrekku.  Á öðrum fjölförnustu vegum í héraði er mokað fimm sinnum í viku (stofnvegir – bláir vegir), sjá snjómoksturskort Vegagerðarinnar. Í samtali við Vegagerðina kom fram þó miðað sé við fimm ákveðna daga vikunnar þá sé brugðið út af dagatali þegar aðstæður krefjast. Annars staðar í dreifbýli er snjómokstur í umsjón sveitarfélagsins. Nýtt fyrirkomulag var innleitt haustið 2022 en því felst að sveitarfélaginu hefur verið skipti í sjö svæði og hefur verið samið við verktaka um að sinna snjómokstri hver á sínu svæði. Íbúar geta haft milliliðalaust samband við snjómokstursverktaka á sínu svæði þegar þörf er á snjómokstri og má finna upplýsingar um hvern og einn fulltrúa á heimasíðu. Við mat á forgangi er reynt að miða við skólaakstursleiðir haldist opnar og hægt sé að sinna annarri mikilvægri opinberri þjónustu. Hægt er að nýta kortasjá sveitarfélagsins til að glöggva sig betur á fyrirkomulaginu, sjá leiðbeiningar hér.

Snjómokstur í þéttbýli er í verkahring sveitarfélagsins og er sinnt af verktökum í samræmi við samninga.

Varðandi hálkuvarnir þá má sjá í reglum Vegagerðarinnar upplýsingar hvernig hálkuvörnum er háttað á þeim vegum sem hún er með í reglubundinni þjónustu. Aðrir vegir er ekki hálkuvarðir með reglubundnum hætti.  Aðilar eru hins vegar sammála um að gera það sem í þeirra valdi stendur til að halda vegum greiðfærum og draga úr slysahættu.

Það fyrirkomulag sem Borgarbyggð og Vegagerðin hafa komið sér upp varðandi hálkuvarnir í dreifbýli er þannig að þjónustuver eða umhverfis- og framkvæmdadeild Borgarbyggðar (borgarbyggd@borgarbyggd.is eða sími 433 7100) móttaka beiðnir um hálkuvarnir. Þeim er síðan komið til Vegagerðarinnar sem bregst við eins og frekast er unnt. Utan afgreiðslutíma Borgarbyggðar er hægt að hafa samband við Vegagerðina í gegnum ábendingarhnapp á heimasíðu (Hafðu samband) Vegagerðarinnar eða hafa samband við þjónustuver í síma 1777 varðandi þá vegi sem eru á hennar forræði. Vegagerðin og Borgarbyggð vinna síðan í sameiginlega að því að skipuleggja hálkuvarnir í dreyfbílinu og þá reynt eftir bestu getu að láta skólaakstursleiðir vera í forgangi.

Borgarbyggð annast mokstur og hálkuvarnir að og við stofnanir sveitarfélagsins í dreifbýli og þéttbýli; við heilbrigðisstofnun HVE í Borgarnesi, slökkvistöðvar, húsnæði björgunarsveita, leik- og grunnskóla, íþróttamiðstöð, Safnahús og ráðhús.

Notast er við salt við hálkuvarnir, bæði af hálfu sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar. Búnaður Vegagerðarinnar og Borgarbyggðar er ekki nægur til þess að tryggja greiðar samgöngur við öfgagkenndar aðstæður jafnvel þó unnið sé í samstarfi við verktaka.

Þau sem sinna skólaakstri fyrir sveitarfélagið bera ábyrgð á akstri eftir aðstæðum og að ökutæki sé vel búið fyrir vetrarakstur. Borgarbyggð sýnir því fullan skilning að við ákveðnar aðstæður sé betra heima setið en af stað farið.

Hér að neðan má finna nánari upplýsingar um reglur um vetrarþjónustu hjá Vegagerðinni.

Vinnureglur þjónustudeildar: 516 Uppsveitir Borgarfjarðar

Vinnureglur þjónustudeildar: 515 Snæfellsnesvegur, Borgarnes – Vegamót

Vinnureglur þjónustdeildar: 513 Borgarnes – Norðurárdalur og Brattabrekka

Vinnureglur þjónustudeildar: 511 Borgarnes – Botnsá

Leiðbeiningar og staðlar í vetrarþjónustu

 

Tengdar fréttir

18. júní, 2025
Fréttir

Aníta Björk Ontiveros er fjallkona Borgarnes 2025

Löng hefð er fyrir því í Borgarnesi að Kvenfélag Borgarness sjái um val á Fjallkonu úr hópi nýstúdenta ár hvert. Í ár 2025 var Aníta Björk Ontiveros fyrir valinu. Aníta Björk steig á svið og flutti ljóðið flutti ljóðið „Vorvísur“ eftir Sigríði Helgadóttur, frá Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum. Auk þess að flytja ljóð í Skallagrímsgarði heimsótti Aníta Brákarhlíð, þar sem hún …

18. júní, 2025
Fréttir

Sigríður Ásta Olgeirsdóttir er Listamanneskja Borgarbyggðar 2025

Árlega er viðurkenning veitt fyrir listamanneskju Borgarbyggðar á 17. júní. Listamanneskjan sem sveitarstjórn tilnefndi að þessu sinni er Sigríður Ásta Olgeirsdóttir, ung Borgfirsk sviðlistakona er fædd þann 15. apríl árið 1994 og steig sín fyrstu skref í inn á listabrautina 4ra ára gömul þegar hún hóf nám í Tónlistarkóla Borgarfjarðar þar sem hún lærði á píanó, fiðlu og söng. Eftir …