Um slökkvilið Borgarbyggðar
Slökkvilið Borgarbyggðar sinnir slökkvistarfi samkvæmt lögum um brunavarnir nr. 75/2000. Og reglugerð um starfsemi slökkviliða nr. 747/2018. Brunavarnir og slökkvistörf eru hluti að lögboðinni starfsemi sveitarfélaga gagnvart íbúum sínum. Einnig mjög mikilvægur liður í almannavarnarkerfi Lögreglustjórans á Vesturlandi og sinnir slökkviliðið brunavörnum og mengunarslysum í samvinnu við aðra björgunaraðila. Markmið slökkviliðsins er að bjarga mannslífum, eignum og umhverfi.
Hjá Slökkviliði Borgarbyggðar er slökkviliðsstjóri í 100% starfi, varaslökkviliðsstjóri og eldvarnareftirlitsmaður í 100% starfi og er hann staðgengill slökkviliðsstjóra í fríum og forföllum hans, aðrir starfsmenn eru hlutastarfandi slökkviliðsmenn. Fagleg og rekstrarleg ábyrgð slökkviliðs er í höndum slökkviliðsstjórnenda. Í útköllum er unnið eftir aðgerðaskipulagi sem skilgreinir í megin dráttum hvert verkefni manna er í ákveðnum stöðum.
Slökkviliðið Borgarbyggðar hefur starfsstöðvar á Bifröst, Borgarnesi, Hvanneyri og Reykholti. Á hverri starfsstöð eru varðstjórar og slökkviliðsmenn í útkallsliði. Varðstjórar á hverjum stað fara með stjórn á vettvangi þangað til slökkviliðsstjóri og/eða varaslökkviliðsstjóri mæta á svæðið og taka þá yfir stjórn á bruna- eða slysavettvangi í samvinnu við viðkomandi varðstjóra. Borgarbyggð er með gildandi samninga um slökkvistarf og eldvarnareftirlit í Eyja- og Miklaholtshreppi og einnig í Skorradalshreppi.
Slökkvilið Borgarbyggðar vinnur að öllum helstu þáttum slökkvistarfa, vatnsöflun bæði úr brunahönum og úr opnum vatnsbólum. Slökkviliðið sinnir slökkvistarfi bæði innan og utanhúss, björgun mannslífa, vinnur að reykköfun og reyklosun húsnæðis, verðmætabjörgun og slökkvistarfi í mosa, sinu og trjágróðri.
Eldvarnareftirlit er einnig mikilvægur þáttur í starfsemi slökkviliðs. Í starfsemi eldvarnareftirlits felst yfirferð teikninga og úttektir, auk fræðslu fyrir almenning, fyrirtæki og stofnanir.
Auk þess að sinna brunaútköllum veitir slökkviliðið ýmsa aðra neyðarþjónustu. Á meðal helstu verkefna Slökkviliðs Borgarbyggðar má nefna:
- Slökkvistarf og vatnsöflun utan húss.
- Slökkvistarf innanhúss og reykköfun.
- Björgun fólks vegna umferðaróhappa.
- Náið samstarf við lögreglu og sjúkraflutningamenn.
- Viðbrögð við vatns- og mengunaróhöppum.
- Forvarnir og eldvarnareftirlit.
- Sérstök áhersla á forvarnir og fræðslu í skólum á starfssvæði slökkviliðsins.
- Slökkvitækjaþjónusta.
- Samstarf og þjónusta við önnur brunavarnarsvæði.
- Náin samvinna og samstarf við slökkvilið annarra sveitarfélaga á vesturlandi, auk Húnaþings-Vestra og Brunavarna Suðurnesja.
- Almannavarnir.
- Verðmætabjörgun.
- Tilfallandi aðstoð við almenning.