roofing

Viðburðir/sýningar

Á móti straumnum: (08.02.24-30.03.24)

Listaverk úr eigu Listasafns Borgarfjarðar
Sýningarstjóri: Kolbrún Anna Björnsdóttir

Í safneign listasafns Borgarfjarðar má finna margar perlur úr íslenskri listasögu. Með sýningu á verkum kvenna úr safneigninni er verið að gefa þessum merku listakonum rými og samhengi í sögunni.

Listakonurnar, sem eiga verk á sýningunni, hafa allar verið brautryðjendur, hver á sínu sviði. Þær hafa auðgað íslenska menningarsögu með verkum sínum og opnað gáttina fyrir aðrar konur sem vildu helga líf sitt listinni. En konur sem kosið hafa að gera listsköpun að ævistarfi, hafa gegnum tíðina þurft að synda móti straumnum. Sumar þeirra þurftu að berjast fyrir tækifærum til náms og sumar þurftu að þola mótspyrnu frá bæði eigin stétt og almenningi. Enn þann dag í dag þarf að spyrja spurninga og skoða samhengi listsköpunar og jafnréttis kynja; áhrifin á listafólkið sjálft, verk þeirra og hvernig þeim er tekið í samfélaginu.

Módelin hans Guðmundar: (11.01.24-26.01.24)

Eigandi: Guðmundur Stefán Guðmundsson (Muddur)
Sýningarstjóri: Þórunn Kjartansdóttir

Guðmundur Stefán Guðmundsson er fæddur þann 14. Júlí 1957 í Borgarnesi og er uppalinn á bænum Hvammi í Norðurárdal. Guðmundur hefur alla tíð verið áhugamaður um vinnuvélar og tæki tengdum þeim. Hann byrjaði að safna leikfanga vinnuvélum sem ungur drengur og hefur safnað þeim síðan. Fyrsta traktorinn, bláan ford fékk hann í jólagjöf þegar hann var 5 ára og var gleðin svo mikil að hann fell í yfirlið.

Guðmundur smíðaði fjöldann allan af trébílum í sveitinni á Hvammi, málaði þá og lék sér með þá. Hann merkti þá eins og flutningabílana sem keyrðu framhjá bænum (t.d. flutningamiðstöðin á Akureyri). Þórir Ormsson úr Borgarnesi smíðaði oft hjólin undir bílanna fyrir Guðmund í rennibekk.

Guðmundur vann hjá Bifreiða- og Trésmiðju Borgarness en þar fékk hann áhuga á að smíða fylgihluti á vélarnar sínar úr járni og fór upp úr því að smíða snjóruðningstæki eins og eru notuð í Vegagerðinni í Borgarnesi. Auk þess hefur Guðmundur smíðað beltabíl sem er merktur Björgunarsveitinni Brák og er til sýnis á sýningunni.

In memoriam: (04.11.23-02.12.23)

Listamaður: Stefán Geir Karlsson
Sýningarstjóri: Ilmur Stefánsdóttir

Á sýningunni gefur að líta skúlptúra sem byggðir eru á frásögnum úr Egilssögu, verk sem Stefán Geir skapaði skömmu áður en hann féll frá, auk málverka frá því hann lét draum sinn rætast og stundaði myndlistarnám í Danmörku.

Stefán Geir Karlson lærði Plötu- og Ketilsmíði, Skipatæknifræði, Vímuefnaráðgjöf, Heilun og Myndlist. Hann starfaði á öllum þessum sviðum á fjölda vinnustaða. Hann hafði ánægju af að veita litlum hversdagslegum hlutum athygli og endurgera þá í stækkaðri mynd. 2 verka hans rötuðu í Heimsmetabók Guinnes, stærsta Herðatré í heimi og stærsta Blokkflauta í heimi. Stefán var andans maður og lagði stund á trúarbrögð og hugleiðslu af ýmsu tagi. Hann var lífsglaður, bjartsýnn og stórhuga og myndlistin var hans leið til að tjá sig og auðga umhverfi sitt. Hann skapaði myndlistarverk allt fram á síðasta dag og hugur hans var óþrjótandi uppspretta hugmynda og hugvits. Vorið 2023 veiktist Stefán alvarlega. Með bjartsýni að vopni skipulagði hann myndlistarsýningu í nóvember en entist ekki ævin til að opna sýninguna. Afkomendur Stefáns halda því sýninguna eftir leiðbeiningum hans.

Ævintýri fuglanna: (lokuð tímabundið)

Sýningin Ævintýri fuglanna var opnuð árið 2013. Grunnur að henni er fuglasafn úr eigu Náttúrugripasafns Borgarfjarðar sem er eitt fimm safna í Safnahúsi.  Hönnuður sýningarinnar er Snorri Freyr Hilmarsson leikmyndahönnuður og notar hann liti hafs og himins í listrænni nálgun sinni við fugla himins.  Flestir gripanna eru stoppaðir upp af Kristjáni Geirmundssyni og Jóni M. Guðmundssyni. Helsta viðfangsefni sýningarinnar er hið mikla ævintýri farflugsins.

Sýningin er helguð minningu Sigfúsar Sumarliðasonar (1932-2001) fyrrv. formanns Náttúrugripa- og Byggðasafns Borgarfjarðar.

Sýningarhönnun: Snorri Freyr Hilmarsson. Yfirsmiður: Hannes Heiðarsson. Grafíkmálun: Steingrímur Þorvaldsson og Snorri Freyr Hilmarsson. Prentun: Merking ehf. Grafík: Heiður Hörn Hjartardóttir. Endurbætur á fuglasafni: Bjarni Hlynur Guðjónsson. Lýsing: Glitnir ehf. Hljóðhönnun: Sigurþór Kristjánsson. Hamskerar: Jón Guðmundsson, Kristján Geirmundsson ofl.

Stuðningur með einum eða öðrum hætti: Borgarbyggð, Íslenska Gámafélagið ehf., Landsbanki Íslands, Límtré Vírnet, Menningarráð Vesturlands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofa Vesturlands, Safnaráð Íslands.

Þessir lögðu einnig hönd á plóginn: Davíð Árnason, Guðmundur Guðmundsson, Guðni Rafn Ásgeirsson, Hilmar Eiríksson, Jóhann Hlíðar Hannesson, Magnús Guðjónsson, Menja von Schmalensee, Róbert Arnar Stefánsson, Þorvaldur Þór Björnsson.