roofing

Rannsóknir

Hér má lesa um rannsóknir, umfjöllun og fróðleikur um viðfangsefni sem tengjast sviðum Safnahússins.

Benónína Jónsdóttir

Benónía Jónsdóttir (1872-1946) var fædd á Gilsbakka í Hvítársíðu, dóttir hjónanna Jóns Jónssonar og Sigurbjargar Steingrímsdóttur sem síðar bjuggu í Suddu í Reykholtsdal og fluttu til Ameríku vorið 1898. Þess má geta að Jón og Sigurbjörg eru fyrirmyndir aðal söguhetja bóka Böðvars Guðmundssonar, Híbýli vindanna og Lífsins tré. Jón og Sigurbjörg eignuðust ellefu börn en aðeins fimm komust upp, auk Benóníu þau Sigríður, Böðvar, Þóra og Jóhannes. Þau fluttu öll síðar til Ameríku og einungis Böðvar og Benónía urðu eftir heima.

Böðvar ólst upp hjá hjónunum Eyjólfi Jóhannessyni og Helgu Guðmundsdóttur sem lengst af bjuggu í Hvammi í Hvítársíðu. Síðar varð hann bóndi á Kirkjubóli í sömu sveit og var faðir Guðmundar Böðvarssonar skálds. Foreldrar Benóníu voru bláfátæk og voru háð sveitarframfærslu. Litla stúlkan var tekin af þeim nýfædd og komið í fóstur. Svo segir Silja Aðalsteinsdóttir um hana í bókinni Skáldið sem sólin kyssti: „Benónía var ársgömul skráð sveitarbarn á Bjarnastöðum árið 1872, og þegar skipti um ábúendur þar árið 1874 var hún skilin eftir eins og búshlutur. Allir á bænum fóru burt; hún ein tók á móti nýrri fjölskyldu sem flutti þangað inn, þriggja ára gamalt barn.“

Benónía giftist Eggerti Gíslasyni árið vorið 1897 og bjuggu þau að Vestri Leirárgörðum í Leirársveit. Þau áttu sex börn á árabilinu 1896-1907: Sæmund, Magnús, Láru, Áslaugu, Kláus og Gunnar. Árið 2019 barst Byggðasafni Borgarfjarðar rokkur úr eigu Benóníu. Hann hafði hún fengið árið 1886 og var hann smíðaður af Árna Þorsteinssyni smið á Brennistöðum í Flókadal (1860 – 1939).  Það var Svanhildur Ólafsdóttir dótturdóttir Benóníu sem gaf rokkinn til safnsins. Þess má geta að á aðventunni þetta sama ár var rokknum stillt upp í Safnahúsi við hlið lítils jólatrés sem Guðmundur Böðvarsson skáld og frændi Benóníu hafði smíðað. Gripirnir stóðu á útsaumuðum dúkum eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur, móður Guðmundar.

Safnahús Borgarfjarðar 2020. Guðrún Jónsdóttir.

  Helstu heimildir: Silja Aðalsteinsdóttir. 1994. Skáldið sem sólin kyssti, bls 16-17, 20, 28, 99 og 201. Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1969. Borgfirskar æviskrár I, bls. 177-178 og 503-504. Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1971. Borgfirskar æviskrár II, bls. 53-54. Svanhildur Ólafsdóttir. 2019, samantekt um Benoníu Jónsdóttur. Ljósmynd: Árni Böðvarsson, Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.

Björn Guðmundsson
Þann 14. janúar 2011 voru hundrað ár liðin frá fæðingu Björns Hjartar Guðmundssonar sem smíðaði Bjössaróló. Af því tilefni var sett upp sýning í Safnahúsi í sem tileinkuð var minningu Björns, eða Bjössa eins og flestir kölluðu hann.
Björn var fæddur á Ferjubakka í Borgarhreppi en bjó í Borgarnesi frá tvítugsaldri. Hann var trésmiður og vann lengst af hjá Kaupfélagi Borgfirðinga. Hann var samviskusamur í störfum sínum og sérstaklega var nýtni hans viðbrugðið, en hann gat gert ótrúlega margt nýtilegt úr efni sem flestir aðrir hefðu hent. Meðal þess sem hann átti þátt í að bjarga frá eyðileggingu voru gömlu verslunarhúsin í Englendingavík.  Kona hans var Inga Ágústa Þorkelsdóttir (1917-1993) og eignuðust þau tvö börn, Birgi og Öldu. Björn var barnelskur og börn hændust að honum.
Árið 1979 hóf hann smíði róluvallar fyrir börn á Vesturnesi í Borgarnesi og hélt honum síðan við og endurbætti. Hann lagði áherslu á að hafa leiktækin í náttúrulegum litum og vildi að börnin gengju vel um og umgengjust náttúruna af virðingu og gætni. Meðal annars beindi hann þeim tilmælum til þeirra að þau tíndu ekki blómin heldur leyfðu þeim að vaxa. Á nokkrum stöðum setti hann upp málshætti til þess að börnin lærðu þá, gjarnan bjó hann þá stafina til úr trjágreinabútum.
Í dag annast umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi Borgarbyggðar eftirlit og viðhald vallarins, sem kenndur er við höfund sinn og kallaður Bjössaróló. Völlurinn er orðinn mörgum landsmönnum kunnur fyrir sérstakt útlit og hönnun og er skilgreindur sem menningarminjar. Árið 2001 var afhjúpað þar upplýsingaskilti þar sem m.a. má sjá mynd af Birni og Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, þar sem hún prófar rólu á Bjössaróló.
Þegar Björn var orðinn aldraður og bjó í blokk eldri borgara við Borgarbraut 65, hóf hann smíði nýs leikvallar þar og gerði litla torfbæi sem hann dreifði um holtið. Til smíðanna byggði hann litríkan vinnuskúr úr ýmis konar efni sem til féll. Skúrinn var því miður rifinn eftir lát Björns en myndir af honum hafa varðveist og verið gefnar skjalasafninu. Verkfærasafn Björns barst Byggðasafni Borgarfjarðar árið 2011 sem gjöf frá Ágústu Einarsdóttur, dótturdóttur hans.
Ljósmyndir: Efst er mynd af Birni við vinnu sína (Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, ljósmyndari óþekktur) Neðst frá vinstri: Vinnuskúr Bjössa við blokkina að Borgarbraut 65 (ljósm: Björn Sv. Björnsson), Bjössi og Inga kona hans ásamt Vigdísi Finnbogadóttur (ljósm: Theodór Þórðarson) og nokkur leiktæki á Bjössaróló (ljósm: Guðrún Jónsdóttir).
Dr Selma Jónsdóttir listfræðingur – minningarsíða

Uppruni og fjölskylda Selma fæddist 22. ágúst 1917, yngst barna kaupmannshjónanna Helgu Maríu Björnsdóttur og Jóns Björnssonar. Foreldrar hennar voru bæði mikilhæf og virtar manneskjur, hvort á sínu sviði. Helga María var frá Svarfhóli í Stafholtstungum og Jón var ættaður frá Húsafelli í Hálsasveit en kenndi sig ávallt við Bæ í Bæjarsveit þar sem hann ólst upp. Selma ólst upp við gott atlæti, stóran frændgarð í uppsveitum Borgarfjarðar og glaðværð á æskustöðvunum í Borgarnesi. Það varð henni gott veganesti að vera alin upp á menningarheimili þar sem gestagangur var mikill. Heimili kaupmannshjónanna var í þjóðbraut og opið fjölmörgum góðum vinum sem þar áttu leið um.

Mynd: Selma var yngst í fjögurra systkina hópi og listrænir hæfileikar einkenndu þau öll. Á myndinni sjást þau ásamt foreldrunum sínum. Frá v. var elstur Björn Franklín (f. 1908), þar næst Guðrún Laufey (Blaka, f. 1910), þá Selma og næstyngstur (lengst til hægri) var Halldór Haukur Jónsson arkitekt (f. 1912).

Kaupangur er elsta húsið í Borgarnesi, byggt um 1880. Þangað fluttu Jón og Helga María árið 1907 og bjuggu þar í nærfellt fjörutíu ár. Á upphafsárum búskapar þeirra hjóna var það eitt örfárra íbúðarhúsa á staðnum og mæddi mikið á heimilinu vegna gestamóttöku. Húsið stendur við höfnina og var ekki að sökum að spyrja því þá ferðuðust flestir sjóðleiðis upp í Borgarnes.  Í dag hefur húsið verið gert upp og er nýtt í ferðaþjónustu. Selma giftist árið 1955 Dr Sigurði Péturssyni, gerlafræðingi, sem síðar varð forstöðumaður gerlarannsóknarstofu Fiskifélags Íslands. Þau voru barnlaus.

Menntun Selma fór ung að heiman til náms og lærði m.a. stund á þýsku og þýskar bókmenntir í Hamborg og Heidelberg. Árið 1941 lá leiðin til Bandaríkjanna þar sem hún lagði stund á listasögu. Auk þess las hún heimspeki, mannfræði o.fl. og lauk B.A. prófi í listasögu við Columbia háskólann í New York. Einnig fór Selma til Englands þar sem hún stundaði masternám við Warburg Institute í London. Þar kynntist hún miðaldalist og heillaðist af henni. Árið 1949 lauk hún síðan M.A. prófi í listasögu frá Columbia háskólanum. Var hún fyrst Íslendinga til að ljúka háskólaprófi í listfræði og starfa við fræðigrein sína hérlendis. Doktorsritgerð sína Býzönsk dómsdagsmynd í Flatatungu (útg. 1959) varði hún við Háskóla Íslands í janúar 1960 og varð fyrst íslenskra kvenna doktor þaðan.

Hlutverk í sögu Listasafns Íslands Árið 1950 var Selma ráðin að Listasafni Íslands, sem þá var til húsa í byggingu Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu. Var hún skipuð fyrsti forstöðumaður safnsins  árið 1961. Selma byggði upp starfsemi Listasafnsins með miklum metnaði, lagði línurnar um varðveislu verka, innkaup á samtímalist og uppsetningu á vönduðum yfirlitssýningum þar sem helstu listamenn þjóðarinnar voru kynntir. Auk þeirrar þekkingar á miðaldalist sem hún hafði öðlast hafði hún einnig einlægan áhuga á nútímalist, erlendri sem innlendri og átti margt góðra vina meðal fremstu listamanna Íslands. Selma var félagslynd, hafði sterka útgeislun og fór létt með að eignast góða vini og trausta samstarfsmenn. Hugurinn snerist um kynningu á íslenskri myndlist og að vegur Listasafns Íslands yrði sem mestur. Til að ná fram markmiðum sínum þurfti hún oftar en ekki að beita eðlislægri útgeislun og hyggindum. Hún var jafnaðarlega létt og kát og hrókur alls fagnaðar meðal góðra vina. Meðfram starfi við Listasafnið vann Selma stöðugt að rannsóknum á íslenskri miðaldalist. Framtíðarsýn Selmu dreymdi stóra drauma um framtíð Listasafns Íslands, sá fyrir sér sjálfstæða safnbyggingu og vildi veg safnsins sem mestan. Hún fylgdi áhuga sínum fast eftir og tók að lokum af skarið með tillögu um staðsetningu í miðborg Reykjavíkur. Hún var hugmyndasmiðurinn og driffjöðurin á bak við þá aðgerð þegar ríkissjóður hafði makaskipti við þáverandi eigendur brunarústa að Fríkirkjuvegi 7 til þess að við Tjörnina í Reykjavík yrði framtíðar aðsetur safnsins.  Selma náði að sjá draum sinn verða að veruleika við Fríkirkjuveginn. Hún sá hylla undir lok verksins þótt ekki entist henni aldur til að taka þátt í vígslu nýju heimkynna safnsins 30. janúar 1988. Selma lést í Reykjavík 5. júlí 1987.

 

Byggt á samantekt undirritaðra sem gerð var í júlí og ágúst 2017

Garðar Halldórsson Guðrún Jónsdóttir

Ljósmyndir: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar og fjölskylda Selmu. Mynd efst á síðu: Kaldal.

Eftirtaldir aðilar minnast Dr Selmu í samstarfi á afmælisárinu:

Kvennasögusafn Íslands                    www.kvennasogusafn.is

Landsbókasafn-Háskólabókasafn    www.landsbokasafn.is

Listasafn Íslands                                  www.listasafn.is

Listfræðafélag Íslands                        www.listfraedi.is

Safnahús Borgarfjarðar                      www.safnahus.is

Þjóðminjasafn Íslands                        www.thjodminjasafn.is

Gilsbakki, gamli bærinn
Að haustlagi árið 1881 komu nýgift hjón ríðandi austan úr sveitum yfir Kaldadal, það var stefnt á Borgarfjörðinn. Þetta voru Sigríður Pétursdóttir og Magnús Andrésson, hún 21 árs og hann 36 ára. Hann hafði lært til prests í Reykjavík og fengið sitt fyrsta brauð, Gilsbakka í Hvítársíðu.
Þar komu hjónin að kirkju, bæjar- og útihúsum í bágu ásigkomulagi og byggðu staðinn upp. Í janúar 1882 brann hluti bæjarins og urðu ungu hjónin að endurnýja hann. Kirkja var byggð á árunum 1882-3 en hún fauk í desember 1907.
Í júlí 1882 eignuðust hjónin sitt fyrsta barn, Þorlák. Það ár geysuðu mislingar og Sigríður veiktist. Hún hélt þó lífi en barnið dó. Ári síðar fæddist Andrés og síðan koll af kolli, þau Sigríður yngri, Pétur, Katrín, Guðmundur (lést ársgamall), Steinunn, Guðrún, Ragnheiður og loks Sigrún, í apríl 1899.
Öll búskaparárin var heimilið stórt og umfangsmikið. Algengt var að um tuttugu manns væru í heimili og mikið var um gestakomur. Í þá daga var heimilið einnig framleiðslustaður, bæði á matvælum og fatnaði auk flestra verkfæra. Kornið var malað og kaffið brennt, ullin spunnin og skórnir saumaðir.
Auk þess sem vinnufólk var á heimilinu voru þar skjólstæðingar og í það minnsta tvö fósturbörn, þau Vigdís Eyjólfsdóttir og Jón Jónsson. Ýmsir aðrir áttu skjól á Gilsbakka sem griðastað eftir hrakninga um sveitir og gat slík dvöl framlengst í áratugi jafnvel.
Ný kirkja var byggð á Gilsbakka og vígð árið 1908, hún stendur enn. Prestakallið var lagt niður árið 1907 og sameinað Reykholtsprestakalli. Árið 1909 keypti sr. Magnús jörðina og lét síðar reisa þar stórt íbúðarhús úr steini í stað torfbæjarins.  Það hús stendur enn og á því er ártalið 1917. Sigríður Pétursdóttir lést árið 1917 og sr. Magnús Andrésson árið 1922.  

Ljósmyndir:

Mynd af bæjarhúsum efst á síðu (eftir 1882): Sigfús Eymundsson. Birt með góðfúslegu leyfi Þjóðminjasafns Íslands.

Sr. Magnús og Sigríður kona hans. P. Brynólfsson. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. Mynd sem tekin er í gömlu baðstofunni á Gilsbakka. Ljósmyndari ókunnur. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.

Endurgerð teikning sem Guðrún Sigurðardóttir frá Gilsbakka gerði af gamla bænum eins og hann var eftir 1882, byggð á lýsingu Katrínar Magnúsdóttur (1890-1972).

Grísatunga í Borgarnesi
Á fyrstu árum byggðar í Borgarnesi var algengt að fólk kæmi þangað úr dreifbýlinu í grennd og byggði sér hýbýli. Svo var einnig um ábúendur í Grísatungu í Stafholtstungum, hjónin Kristján Kristjánsson (1869-1949) og konu hans Þuríði Helgadóttur (1870-1959). Þau hjón höfðu búið í Grísatungu árin 1903 til 1915 en fluttu þá í Borgarnes og byggðu sér lítið hús við aðalgötuna inn í bæinn, sem nú nefnist Borgarbraut, áður Borgarnesbraut. Húsið nefndu þau Grísatungu eftir heimaslóðum sínum. Það var eitt svokallaðra Efstu húsa í Borgarnesi á þessum tíma.
Kristján og Þuríður áttu alls 12 börn og var það yngsta fætt í Grísatungu í Borgarnesi. Þegar þau flytja í húsið eru átta af börnum þeirra hjá þeim, á aldrinum 2ja til 12 ára: Steinunn 14 ára, Helgi 12 ára, Ingvar 11 ára, Halldóra 9 ára, Axel 8 ára, Karl Kristján 6 ára,  Ágúst Hannibal 4 ára og Davíð 2ja ára. Ekki er vitað hvað húsið var þá stórt, en í dag er það skráð 70,2 fm. Eftir lát foreldranna bjó ein dætra Kristjáns og Þuríðar í húsinu um áratuga skeið.
Þess má að lokum geta að byggingaleyfi var veitt fyrir húsið 27. apríl 1915 og hefur sú bókun varðveist í fundargerð bygginganefndar Borgarneshrepps frá þeim tíma. Á ljósmyndinni efst er húsið Grísatunga lengst til vinstri.
Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.
Ljósmyndir og aðrar heimildir: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, Borgfirskar æviskrár VII bindi, bls 190.
Gunnlaugsgata 21 og 21B
Tvö gömul hús í Borgarnesi voru rifin sumrin 2018 og 2019. Annað þeirra var hús sem nefnt var „Dýralæknishúsið,“ eða Gunnlaugsgata 21, sem rifið var sumarið 2018 og er hér í forgrunni. Hitt var húsið „Veggir“ eða Gunnlaugsgata 21b sem sést hér fjær á ljósmynd Bjarna Bachmann. Húsin stóðu á klettabrúninni við hlið Grunnskólans.
Ástæða niðurrifsins var breytingar á lóð Grunnskólans skv. deiliskipulagstillögu vegna undirbúnings viðbyggingar við skólann á sínum tíma.  Á vegum Byggðasafns Borgarfjarðar var áhersla lögð á að húsin fengju að standa vegna gildis þeirra sem sérkenna í bæjarlandslagi, en niðurstaðan varð að fjarlægja þau. Þess má geta að á þessu svæði höfðu  áður orðið miklar breytingar gegnum tíðina. Templarahúsið (Mæjuhús), Klöpp og Þórshamar (Gunnlaugsgata 13) hafa horfið, svo og svokallað Friðborgarhús sem stóð þar sem Gunnlaugsgata 12 er í dag.
Ennfremur eru tvö hús vestast í Gunnlaugsgötu farin þegar þetta er skrifað, Digranes sem brann 1920 og svokallað Immuhús sem stóð á sömu lóð, nefnt eftir síðasta ábúanda þess Ingibjörgu Þorleifsdóttur (1920-1990). Immuhús var rifið á níunda áratugnum og nýtt hús byggt á lóðinni (Gunnlaugsgata 4). Nú hafa því allmargir fulltrúar frumbyggjaáranna kvatt í bænum, sem byggðist upp á fyrri hluta 20. aldar. Húsin sem þá voru reist eru afar fjölbreytt í útliti en eiga það flest sameiginlegt að vera smá í sniðum þótt oft byggju í þeim mannmargar fjölskyldur.
Staðsetning húsanna er einkennandi fyrir bæjarstæði Borgarness, oft við kletta eða á klettabrúnum. Þetta setur fallegan svip á gamla hluta bæjarins og markar honum eldra yfirbragð.  Á yngri byggingasvæðum eru hús gjarnan stærri og þar má sjá stærri glugga og staðlaðra útlit auk einhæfari þakgerðar. Einnig eru nýrri hús byggð samkvæmt fyrirfram gerðu skipulagi, en elstu húsin ekki. Þess má einnig geta að Gunnlaugsgata var áður tengigata milli Borgarbrautar og Kaupfélagshúsanna í Englendingavík. „Sneiðin“ tengdi göturnar saman þar sem „Himnastiginn“ er nú, milli Borgarbrautar og Grunnskólans.  Húsin tvö sem nú eru farin voru því á sínum tíma reist við götu þar sem nokkur umferð fór um.
Dýralæknishúsið – Gunnlaugsgata 21 Húsið var byggt árið 1936 og var 125,8 fm að stærð. Það var reist af Paul Chr. Ammendrup klæð- og feldskerameistara og eiginkonu hans Maríu S. Ammendrup. Bjarni Bachmann safnvörður kallar húsið „Klæðskerahúsið” í gögnum sínum um hús í Borgarnesi.  Hjónin fluttu í Borgarnes frá Danmörku og bjuggu þar í eitt ár, síðar í Reykjavík.
Veggir – Gunnlaugsgata 21b Þorbjörn Jóhannesson og Margrét Guðrún Sigurðardóttir fluttu í Borgarnes árið 1928 frá Stafholtsveggjum í Stafholtstungum og var húsið kennt við bæinn og kallað Veggir. Árið 1929 voru íbúar í húsinu skráðir svo: „Þorbjörn Jóhannesson tómthúsm. f. 1866. Margrét Guðrún Sigurðardóttir h.k. f. 1875, ásamt börnum sínum.“  Þorbjörn og Margrét Guðrún áttu níu börn, tvö dóu í frumbernsku. Fjölskyldan hélt skepnur og voru útihús á lóðinni sem einnig hafa horfið á síðustu árum. Jóhannes sonur hjónanna (Jói á Veggjum) bjó loks einn í húsinu í tæp 30 ár eftir daga foreldra sinna, hann lést 23. október 2009.
Samantekt í október 2020 (GJ). Ljósmyndir: Bjarni Bachmann og Guðrún Jónsdóttir
Guðrún Jónsdóttir á Húsafelli
6. GunnaGuðrún var fædd í Síðumúla í Hvítársíðu 26. ágúst 1861, dóttir Jóns Þorvaldssonar frá Stóra Kroppi og Helgu Jónsdóttur frá Deildartungu. Jón og Helga voru bræðrabörn. Þau voru fyrst búsett í Bæ í Bæjarsveit, þá í Síðumúla (1859-1868) og loks á Úlfsstöðum í Hálsasveit fram að því að Jón lést árið 1872. Þau áttu tíu börn, þar af þrjár Guðrúnar.
Þegar fjölskyldan flutti frá Síðumúla að Úlfsstöðum segir sagan að það hafi verið gert fyrir tilstilli hreppsyfirvalda, sem óttuðust að svona barnmörg fjölskylda yrði sveitföst í Síðunni. Börnin voru þá sex á lífi, þrjú voru látin og það yngsta fæddist í ágúst árið 1872. Guðrún kom sem vinnukona að Húsafelli um 1880, til hjónanna Þorsteins Magnússonar og Ástríðar Þorsteinsdóttur. Hún og Ástríður voru systradætur.
Nokkru eftir að Guðrún kom að Húsafelli fór Helga móðir hennar til Ameríku ásamt seinni manni sínum. Guðrúnu bauðst að fara með en afþakkaði og dvaldi áfram á Húsafelli. Tveir bræðra hennar voru þá þegar farnir vestur. Störf Guðrúnar á Húsafelli voru flest innanhúss. Hún eldaði, þvoði, spann og prjónaði og ól upp fósturbörn sem henni voru falin. Eitt þeirra var Sigurður Snorrason, síðar bóndi á Gilsbakka í Hvítársíðu, en hann var Guðrúnu ætíð mjög kær.
Guðrún var afar nærsýn og hvessti stundum augun á gesti til að sjá þá betur. Enginn gerði sér grein fyrir nærsýninni fyrr en hún var orðin gömul og las gleraugnalaust.
Á árum hennar á Húsafelli komu þangað ýmsir merkir listamenn s.s. Ásgrímur Jónsson, Júlíana Sveinsdóttir, Kristmann Guðmundsson og Guðmundur Thorsteinsson (Muggur). Þetta urðu góðir vinir Guðrúnar. Einn mesti dýrgripur hennar var vindlakassi sem Muggur hafði gert klippimynd á. Í honum geymdi hún tvær aðrar gjafir frá honum, silkiklút og bókina Íslensk ljóð sem hann áritaði til hennar.
Guðrún var læs en kunni ekki að skrifa og varð því að leita hjálpar annarra við bréfaskipti svo sem við fjölskyldu sína í Ameríku. Þorsteinn Þorsteinsson frá Húsafelli er helsti heimildamaður Safnahúss um Guðrúnu. Hann segir svo í áður óbirtum texta: „En styrkleiki Gunnu var í því að tala við fólk og sýna því hlýtt viðmót og það setti svip á allt heimilið.  …Hún las mikið og dáði skáldin og var fróð um þann heim sem var henni næstur þó skólaþekkingu brysti. Hún var söm og jöfn við alla, lét aldrei hafa sig í þrætur eða deilur án þess þó að láta af meiningu sinni.“
Þegar Guðrún var komin hátt á tíræðisaldur var hún farin að heilsu. Síðasta árið sitt naut hún góðrar umönnunar á Gilsbakka, hjá Sigurði Snorrasyni fóstursyni sínum og konu hans Önnu Brynjólfsdóttur frá Hlöðutúni. Guðrún lést á Gilsbakka þann 7. júní 1957.
Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.
Helstu heimildir: Aðalsteinn Halldórsson o.f. 1975. Borgfirzkar æviskrár IV. Sögufélag Borgarfj. Rvk. Þorsteinn Þorsteinsson. 1982. Óbirt bréf til Önnu Brynjólfsdóttur á Gilsbakka. 2. sept. Vilhj. S. Vilhjálmsson. 1951. Hún bíður þess að skógurinn laufgist. Fólkið í landinu. Menningar- og fræðslusamband alþýðu, Rvk. Ljósmynd: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.
Guðrún Sigurðardóttir (1850-1943)
Í manntali 1901 eru ellefu taldir til heimilis á Gilsbakka í Hvítársíðu, fyrir utan prestshjónin sr. Magnús Andrésson og Sigríði Pétursdóttur og börn þeirra. Samtals voru tuttugu og einn í heimili.  Af börnunum er Andrés elstur, þá átján ára og Sigrún yngst, tveggja ára.
Þegar þetta var bjó heimilsfólk í gömlum reisulegum torfbæ og enn má sjá móta fyrir veggjum hans við hlið húss sem byggt var á jörðinni á árunum 1914-1917.
Á meðal vinnuhjúa árið 1901 er talin kona að nafni Guðrún Sigurðardóttir, þá rúmlega fimmtug.  Hún átti sér nokkuð sérstaka sögu, var fædd á Háafelli í Hvítársíðu árið 1850, dóttir Sigurðar Guðmundssonar og Þuríðar Jónsdóttur. Guðrún missti föður sinn þegar hún var á fimmtánda ári. Skömmu síðar réði móðir hennar til sín ráðsmann, Þiðrik Þorsteinsson frá Hurðarbaki í Reykholtsdal. Þau Þuríður rugluðu saman reitum sínum árið 1867.
En svo fór að Guðrún átti frá tuttugu og tveggja ára til fertugs þrjú börn sem Þiðrik stjúpfaðir hennar var faðir að, og lítið fékk hún af börnum sínum að segja. Að sögn fékk hún ekki einu sinni að ráða nöfnum þeirra, en þetta voru dætur sem voru nefndar Benónýja (f. 1872), Bóthildur (f. 1888) og Rebekka (f. 1890).
Eftir nokkra hrakninga kom Guðrún að Gilsbakka 1898 og var þar til dánardags 1943. Þar leið henni vel og þar lærði hún m.a. fyrst að prjóna. Síðustu ár sín var hún rúmliggjandi vegna heilsubrests. Hún er sögð alltaf hafa farið fram á að fá fjóra sykurmola með kaffinu, tvo fyrir sig og tvo sem hún stakk í box sem hún átti og gat gaukað að börnum úr. Það helsta sem hún prjónaði voru leppar og eru einir slíkir eftir hana í vörslu Byggðasafns Borgarfjarðar.
Guðrún var stálminnug og kunni að sögn utan að nær allar ættartölur í Sýslumannsaæfum. Magnús Sigurðsson á Gilsbakka (1924-2009) mundi Guðrúnu vel: „Vera má að sálargáfur hennar hafi verið nokkuð einhæfar, enda tækifærin fábreytt, sem buðust til þroska á því sviði. Enginn efi er að hún bjó í ríkum mæli yfir bókhneigð og fræðalöngun, eins og margir ættmenn hennar. Hún varð snemma læs… og minni hennar á það, sem vakti áhuga hennar, var bæði trútt og lifandi. … hún kunni margt af sögum og ævintýrum, og án efa hefur hún haft margt af þeim úr bókum, fyrst og fremst Þjóðsögum Jóns Árnasonar, en þó held ég að þar hafi slæðst með sögur, sem ég hef a.m.k. aldrei rekist á í bókum. Ég trúi því að hún hafi sótt þær beint í uppsprettuna, munnlega geymd í þjóðdjúpinu sjálfu.“
Samantekt og uppsetning: Guðrún Jónsdóttir, 2021.
Ljósmynd 1: eina myndin sem til er af Guðrúnu Sigurðardóttur. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.
Ljósmynd 2: í baðstofunni í gamla bænum á Gilsbakka. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.
Helstu heimildir: Magnús Sigurðsson. 1994. Bréf til nafna míns í Stóraási . Óprentuð heimild. Þuríður J. Kristjánsdóttir og Sveinbjörg Guðmundsdóttir. 2003. Borgfirzkar æviskrár 12. bindi, bls. 127. Aðalsteinn  Halldórsson o.fl. 1975. Borgfirzkar æviskrár IV. bindi, bls. 49. Munnlegar heimildir og yfirlestur:  Ásgeir Pétursson og Ragnheiður Kristófersdóttir.
Halldóra B. Björnsson
Halldóra B. Björnsson fæddist í Litla Botni í Hvalfirði árið 1907 og var næstelst í stórum systkinahópi sem öll ortu og hafa komið út ljóðabækur eftir flest þeirra.
Fjölskyldan bjó allmörg ár í Grafardal en einnig á Geitabergi og Draghálsi.
Halldóra elskaði landið sitt og bar djúpa virðingu fyrir því og orti mörg ljóð þar sem þessar tilfinningar koma vel fram.
Hún var þeirrar skoðunar að við ættum öll að ganga vel um jörðina og skila henni í góðu standi til næstu kynslóða. Hugsa um þá sem á eftir koma.
Hún hafði andstyggð á stríði og hermennsku og í minningu þess tíma í seinni heimsstyrjöldinni þegar bandarískur her reisti herbúðir og fleiri mannvirki í Hvalfirði orti hún ljóðin Morgunbæn í Hvalfirði og Í skjóli Skarðsheiðar.
Mörg ljóða hennar eru í svipuðum stíl þar sem vonsku mannanna og stríðsbrölti þeirra er mótmælt. Hún átti létt með að yrkja um tilfinningar og samband fólks við hvert annað hvort sem var rímað eða órímað.
Hún þótti hafa gott vald á íslensku máli og bregða upp einföldu myndmáli í ljóðum sínum.
Nokkrar ljóðabækur komu út eftir hana og í bókinni Eitt er það land færir hún í stílinn minningar úr æsku sinni og Jörð í álögum eru nokkrar frásagnir af forfeðrum hennar sem margir bjuggu á Hvalfjarðarströndinni.
Halldóra lést 1968.
Ofangreint er skrifað fyrir Safnahús af dóttur Halldóru, Þóru Elfu Björnsson. Eru henni færðar bestu þakkir fyrir dýrmæta aðstoð við ýmis fræðastörf fyrir söfnin gegnum tíðina.
Helga María Björnsdóttir
Helga erlendisHelga María Björnsdóttir var fædd 1. apríl 1880. Hún ólst upp á Svarfhóli í Stafholtstungum, ein 12 systkina. Faðir hennar hét Björn Ásmundsson og var frá Laxfossi í Norðurárdal, mikill dugnaðar- og framkvæmdamaður, hreppstjóri í 30 ár og oddviti í mörg ár. Móðir Helgu hét Þuríður Jónsdóttir og var frá Svarfhóli. Hún var ljósmóðir, gáfuð og hagmælt kona. Helga stundaði nám í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík og síðar í Mjólkurskólanum á Hvanneyri þar sem hún var hæst námsmeyja. Hún veitti ýmsum rjómabúum forstöðu, þ.á.m. rjómabúi barónsins á Hvítárvöllum og segir sjálf svo frá í skráningu Blöku dóttur sinnar: „Þegar ég var í Bakkakoti hjá Jóhanni bróður mínum [bóndi þar 1894-1905] kom hann dag einn heim frá Hvítárvöllum, hann var góðvinur barónsins. Ég man ég sat í stiganum þegar hann kom með kveðju frá baróninum með ósk um að ég yrði rjómabústýra hjá honum.“
Árið 1904 kom Helga í Borgarnes, en þar voru þá 63 íbúar. Hún var fyrst heimilisstýra hjá Jóni bróður sínum sem var að flytja í nýtt hús. Þau Jón frá Bæ giftu sig síðan 1906 og árið 1907 fluttu þau í Kaupang, elsta húsið í Borgarnesi. Húsið stendur enn en var var þá í þjóðbraut við höfnina og verslunin var í næsta húsi (nú Landnámssetur). Mikið var því um gestakomur og oft margir í gistingu dögunum saman á meðan beðið var eftir næsta skipi. Helga var þekkt fyrir gestrisni sína, gjafmildi og rausn. Hún var vel lesin og fróð og sagði skemmtilega frá. Hún hafði ljúft viðmót og skipti aldrei skapi þrátt fyrir mikið álag oft á tíðum. Börn hennar og Jóns fæddust árin 1908, 1910, 1912 og 1917. Þau ólust upp í Borgarnesi en fóru síðar öll til náms og starfa annars staðar. Hjónin fluttu að lokum suður sjálf 1946. Þegar Helga María var tæplega níræð missti hún heilsuna. Blaka dóttir hennar flutti þá til hennar og annaðist hana af natni og hlýju í þrjú ár, en Helga lést þann 16. ágúst 1972.
Heimildir: Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1969. Borgfirzkar æviskrár I. bindi, bls. 397-8 Sögufélag Borgarfjarðar. Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1978. Borgfirzkar æviskrár V. bindi, bls. 305. Sögufélag Borgarfjarðar. Guðrún L. Jónsdóttir (Blaka). 1959. Helga í Borgarnesi. óprentuð heimild. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. E.f. 1913. Björn Ásmundsson. Óðinn, 9. árg. 1. tbl. Bls. 8. Jósef Björnsson frá Svarfhóli. 1954.  Æskustöðvar. ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.
Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.
Ljósmynd: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. Líklegt má telja að Blaka dóttir Helgu hafi tekið myndina.
Ingveldur Hrómundsdóttir
7Ingveldur Hrómundsdóttir
Ingveldur Hrómundsdóttir var fædd í Skíðsholtakoti í Hraunhreppi árið 1862, dóttir hjónanna Hrómundar Péturssonar og Sigríðar Pálsdóttur sem þar bjuggu (bærinn fór í eyði 1922).  Ingveldur átti eldri systur sem hét Margrét og fór til Ameríku um þrítugt en lítið mun hafa frést af henni hér á landi eftir það.   Þær systur ólust upp við þröngan efnahag og mikla vinnu eins og þá var títt. Ekki var um menntunarmöguleika að ræða nema til undirbúnings fermingu enda heyrði það til undantekninga að stúlkur fengju aðra menntun. Ingveldur lærði hins vegar öll bústörf þeirra tíma. Það kom sér vel síðar í lífinu að hún var ætíð jafn víg á úti- sem innistörf.
Fjölskyldan í Tröð og búskapur í Landbroti
Þegar Ingveldur var 28 ára fór hún til vistar hjá Guðbirni Ó. Bjarnasyni sem hafði tekið kirkjustaðinn Kolbeinsstaði til ábúðar.  Var það álit manna að þau hefðu tekið saman með hjúskap fyrir augum, en af því varð ekki. Um sumarið réðst til þeirra kaupakona og gerðist hún síðar húsfreyja á bænum. Um líkt leyti réðst Ingveldur að Tröð í sama hreppi. Þar bjuggu þá Sigurður Brandsson hreppstjóri og kona hans Valgerður Pálsdóttir,  sómahjón sem Ingveldur átti eftir að bindast vináttuböndum fyrir lífstíð.  Tvö börn þeirra hjóna voru heima þegar þarna var komið sögu, þau Pálína og Páll.  Pálína giftist skömmu síðar, en Páll var enn um stund í foreldrahúsum. Árið 1899 andaðist Valgerður húsfreyja og við það varð mikil breyting á Traðarheimilinu. Árið eftir fluttist Páll að heiman.
Var þá bara Sigurður bóndi eftir ásamt fósturdóttur sinni svo ekki var lengur þörf á þjónustu Ingveldar. En þegar þar var komið sögu hafði hún af dugnaði og ráðdeild komið sér upp talsverðum búfjárstofni og ákvað að festa sér til ábúðar smábýlið Landbrot. Þangað flutti hún árið 1905 með Sigríði móður sína og kaupamann auk fósturbarna sem nánar verður um getið síðar. Búskapurinn gekk vel í Landbrotum þrátt fyrir að jörðin væri nytjarýr nema helst er sauðfjárbeit varðaði. Tveimur árum síðar gafst Ingveldi kostur á skiptum á jarðnæði og fékk Austurbæinn í Haukatungu til ábúðar. Þar var þá gamall torfbær og þörf á úrbótum á húsakosti. Hófst þá Ingveldur handa við bæjarbyggingu, að mestu leyti úr timbri.
Húsið var ein stofuhæð á upphlöðnum kjallara sem var mestmegnis neðanjarðar og ætlaður til geymslu.  Þrátt fyrir takmarkað rými skaut húsfreyja skjólshúsi yfir eldri hjón sem lengi höfðu verið á hrakhólum víða um sveitina. Reyndist hún þeim hollvinur í raunum þeirra, einnig síðar þegar maðurinn féll frá og gamla konan var orðin ein. Á efri árum Ingveldar var hún spurð að því hvað hún hefði átt flestar ær. Sagði hún þá að hún hefði aldrei náð að fylla hundraðið, ærnar hefðu flestar orðið 99 talsins rétt um 1920.
Verðfall, kreppa og mæðiveiki hefðu átt sinn þátt í að fækka fénu eftir það, en þá hefði komið sér vel að hafa kýrnar.Guðlaugur Jónsson segir svo um Ingveldi: „…Hún getur gengið að því hvenær sem er […] að sinna um kindur sínar, kýr og hesta af fullri kunnáttu jafnhliða því að annast matargerð fyrir heimilið, þjónustubrögð, tóvinnu og vefnað innanbæjar. Hún söðlar eigin hest, ríður í kaupstaðinn í kauptíðinni og stýrir þar sínum innkaupum til búsins [….] hún gengur sjálf í fjárréttina eftir haustsmölun og tiltekur það fé sem á að láta í kaupstaðinn eða leiða til slátrunar heima.  [….] hún var góð húsmóðir og gerði vel við fólk sitt, bæði til fæðis og klæðis.“
Ingveldur tók unga stúlku í fóstur, Kristínu Kjartansdóttur sem var fædd árið 1894. Hún var dóttir Kjartans Eggertssonar og Þórdísar Jónsdóttur sem voru vinnufólk í Tröð, en varð eftir í skjóli Ingveldar þegar þau fóru þaðan árið 1902. Kristín fylgdi henni í Landbrot ásamt fjögurra ára gömlum dreng, Sigurði Pálssyni barnabarni Sigurðar í Tröð.  Drengurinn var í um ár hjá Ingveldi og eftir það ýmist með afa sínum eða foreldrum sínum, Páli Sigurðssyni og Jóhönnu G. Björnsdóttur frá Stóra-Hrauni. Eftir 10 ára aldurinn var hann eingöngu hjá foreldrum sínum en sýndi Ingveldi mikla tryggð allt fram til dánardags og var hún sem ein af fjölskyldu hans. Sigurður gekk menntaveginn og varð prestur í Hraungerði í Flóa þar sem Ingveldur átti alltaf skjól ef á þurfti að halda.
Árið …. þurfti Kvenfélagið í sveitinni að fá lánaða spöng á skautbúning og var leitað með þá bón til heimilis Sigurðar og Stefaníu Gissurardóttur konu hans. Þau hjónin áttu víravirkisspöng og einnig stokkabelti og höfðu gripirnir báðir verið í eigu Ingveldar Hrómundsdóttur. Hafði hún selt þá á sínum tíma til að hjálpa Sigurði til náms. Svo hagaði til að Páll Kolka læknir og síðar vinur Sigurðar hafði keypt gripina handa konu sinni en þegar hann vissi um uppruna þeirra létu þau hjón smíða eftirlíkingar og færðu Sigurði og Stefaníu upprunalegu gripina. Segir þessi saga sitt um hlýhug Ingveldar til Sigurðar og fórnfýsi hennar við aðra. Þessu til viðbótar tók Ingveldur að sér ársgamla stúlku, Ásthildi Guðmundsdóttur og ól hana upp sem eigin dóttur.
Guðlaugur Jónsson nefnir sem dæmi um hjartahlýju Ingveldar að ung stúlka og mikill einstæðingur Guðfinna Jónsdóttir að nafni, lenti á sveitarframfæri vegna þess að hún var vangefin og bæði heyrnar- og mállaus.  Erfitt reyndist að koma henni fyrir og flæktist hún því á milli bæja. Þegar hún kom á heimili Ingveldar leið henni vel. Hún var ekki látin fara þaðan aftur, Ingveldur hafði hana hjá sér í mörg ár eða þangað til yfir lauk. Dóttir Kristínar og nafna Ingveldar er Ingveldur Gestsdóttir á Kaldárbakka í Kolbeinsstaðahreppi, sem fæddist þegar amma hennar var 63 ára. Svo fór að Ingveldur eldri var fljótlega kölluð Abba vegna þess að Ingveldur litla var að reyna að segja nafnið hennar en tókst ekki betur til. Hún á fallegar minningar um Öbbu.
Eitt sinn þegar Ingveldur var lítil fór Kristín mamma hennar af bæ ásamt tveimur öðrum konum. Telpuna langað með og fór að orga. Þá bauð Abba henni með sér yfir í Skjólhvamm sem er í hrauninu við bæinn. Þetta var góð samverustund. Abba var með hest, teymdi hann í hvamminn sem var langur spotti og lét barnið sitja á hestinum. Sjálf gekk hún, líka til baka, en þá fékk Ingveldur yngri að ríða hestinum sjálf. Þetta hefur líkast til verið 1931, Ingveldur yngri er fædd 1925. Ferðin í hvamminn sefaði óánægju hennar og lét henni líða vel. Hún minnist þess líka að amma hennar hafði það fyrir sið að setja niður í matjurtagarðinn á Jónamessunótt. Þá var sótt fjöl og sett niður gulrófufræ eftir beinni línu enda var Abba nákvæm og nostursöm. Ingveldur fékk að fara með og þótti það afar spennandi.
Í heyskap fékk hún líka að taka þátt og á fallega minningu um slíkan dag. Þá rakaði Abba þúfnastykki, Kristín tók ofanaf fyrir mömmu sína og litla stúlkan Ingveldur fékk lítil föng til að vinna með og bera út á slétta flöt. Ingveldi er minnisstætt að bæði hjá ömmu sinni og Kristínu móður sinni hafi allt af skepnunni verið notað, t.d. lakinn, sem nýttur var soðinn fyrir hunda og ketti, enda var ekkert kattafóður til þá.  Mjólkin var strokkuð og gert smjör og mysuostur. Og alltaf var maturinn góður þrátt fyrir að vinnuaðstæður væru oft frumstæðar og bara moldargólf í eldhúsinu. Þegar Ingveldur Hrómundsdóttir eltist lét hún Kristínu dóttur sinni og tengdasyni sínum Gesti L. Fjeldsted eftir jörðina, en lét það fylgja að Kristín skyldi skrifuð fyrir henni. Ingveldur lést í skjóli þeirra í Haukatungu árið 1954.
Samantekt:  Guðrún Jónsdóttir, 2015.
Helstu heimildir Guðlaugur Jónsson. 2000. Ingveldur Hrómundsdóttir. Kolbeinsstaðahreppur, ritstj. Þorst. Jónsson, bls. 210-214. Ingveldur Gestsdóttir, Kaldárbakka, viðtal 2015. Munnlegar heimildir: viðtal við Ingveldi Gestsdóttur og Sigríði Guðjónsdóttur í janúar 2015. Ljósmynd: Ingveldur (lengst til hægri) ásamt Sigurði Pálssyni og fjölskyldu hans.
Jóhanna ljósmóðir
Jóhanna Jóhannsdóttir var fædd í Skógum á Fellsströnd í Dölum 13. febrúar 1910, ein níu systkina. Foreldrar hennar voru hjónin Jóhann Jónasson og Margrét Júlíana Sigmundsdóttir (1876-1968). Jóhanna stundaði í tvö ár nám í húsmóðurfræðum á Hallormsstað og lauk námi frá Ljósmæðraskóla Íslands árið 1940. Eftir að hafa verið eitt ár ljósmóðir í Vatnsdal í Húnavatnssýslu starfaði hún í ljósmóðurumdæmi Borgarness óslitið í tæp 40 ár,  frá 1942 til 1980. Þá var umdæmi hennar þrír hreppar, Borgarhreppur, Álftaneshreppur og Hraunhreppur.
Erfiðleikar
Helsta heimild um veru Jóhönnu í Borgarnesi er frásögn Solveigar systur hennar sem segir að ýmsir erfiðleikar hafi verið á vegi hennar. Nefna má að erfitt var að fá gott húsnæði í Borgarnesi á þessum tíma. Um tíma leigði hún lítið forstofuherbergi sem var ansi kalt. Var það bagalegt því oft kom hún köld og hrakin heim úr vinnu. Lengst af leigði Jóhanna litla kjallaraíbúð á Skallagrímsgötu 5 og þar gátu konur dvalið hjá henni fram yfir fæðingu ef á þurfti að halda. Ljósmóðurstarfið var ekki fullt starf og því hefði Jóhanna gjarnan viljað vinna önnur störf með til að afla tekna. Það var hins vegar ekki auðvelt um vik því fáir vildu hafa fólk í vinnu sem sí og æ þyrfti að fara frá til að sinna skyldustörfum. Oftast fór Jóhanna ferða sinna með mjólkurbílnum og gat þá þurft að bíða úti á vegum í langan tíma hvernig sem viðraði. Hafa ber í huga að í þá daga var góður skjólfatnaður af skornum skammti. En Jóhanna lét ekki deigan síga og tók bílpróf árið 1949, þá tæplega fertug. Eftir það fékk hún af og til lánaðan bíl til að fara til sængurkvenna, en árið 1951 fékk hún undanþágu á skömmtunarárunum til að kaupa sér bíl.  Var það Willis árg. 1951, ljósgrár að lit. Var sett á hann ný yfirbygging og þennan bíl átti Jóhanna alveg þar til hún hætti ljósmæðrastörfum árið 1980 eða í tæp þrjátíu ár.  Bíllinn er nú (2021) í eigu Kristjáns Björnssonar frá Þverfelli í Lundarreykjadal og var þar áður í eigu Arnar Símonarsonar. Hefur ökutækið varðveist vel og prýddi sýninguna Börn í 100 ár í Safnahúsi.
Saga um Jóhönnu
Árið 2014 kom gestur á sýninguna sem þekkti til Jóhönnu. Var það Jón Magnús Guðnason (f. 14.7.1936, d. 31.12.2018) frá Árbakka í Andakíl. Rifjaði hann við það tækifæri upp í samtali við sýningarvörð að eitt sinn hafði Jóhanna verið á leið að Árbakka á jeppanum í erfiðri færð og mikilli hálku og fest hann góðan spöl frá bænum. Þá greip hún töskuna sína og hélt áfram fótgangandi.  Þegar hún kom að Árbakka bað hún tiltæka menn um að sækja fyrir sig bílinn og Jón Magnús var einn þeirra sem fór.  Hann sagði að þetta væri gott dæmi um skapfestu og einurð Jóhönnu að halda áfram fótgangandi við svona aðstæður þegar hennar var þörf.
Síðustu ár kjarkaðrar konu
Jóhanna var mörgum minnisstæð enda sterkur persónuleiki. Árið 1976 hélt hún upp á 25 ára afmæli bílsins með því að aka honum hringveginn. Hún var góður bílstjóri og fékk tvívegis viðurkenningu frá Samvinnutryggingum fyrir öruggan akstur. Jóhanna giftist ekki og átti ekki afkomendur. Árið 1952 hóf hún sambúð með Benedikt Sveinssyni sem þá var skrifstofumaður hjá Kaupfélagi Borgfirðinga.  Hann lést árið 1967. Jóhanna bjó í Borgarnesi fram til 1980 að hún flutti til Reykjavíkur. Hún var farin á heilsu síðustu ári ævi sinnar og lést í Reykjavík 29. apríl 2007, þá 97 ára gömul.
Ljósubókin
Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar hefur um 12 ára skeið safnað eiginhandaráritunum ljósubarna Jóhönnu í sérstaka bók sem er verðugur minnisvarði um ævistarf hennar sem ljósmóður.
Helstu heimildir: Ingibjörg Jónasdóttir. 2020. Munnleg heimild. Jón Guðnason. 1961. Dalamenn, æviskrár II, bls. 127. Grétar Sæmundsson o.fl. 2007. Minningargrein um Jóhönnu. Morgunblaðið 27. maí, bls. 65. Solveig Jóhannsdóttir: Um veru Jóhönnu Jóhannsdóttur í Borgarnesi. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. Samantekt: Guðrún Jónsdóttir, apríl 2021. Ljósmyndir:  Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.
Jón Björnsson frá Bæ

Jón Björnsson 24 áraJón Björnsson var fæddur í Bæ í Bæjarsveit 11. júní 1878.  Foreldrar hans voru Björn Þorsteinsson bóndi í Bæ og kona hans Guðrún Jónsdóttir, sem ættuð var frá Deildartungu í Reykholtsdal. Björn var frá Húsafelli, bróðir fræðimannsins góðkunna Kristleifs Þorsteinssonar. Björn og Guðrún áttu alls 10 börn og var Jón næstelstur. Hann var kenndur við æskuheimili sitt í Bæ. Þau Helga María Björnsdóttir frá Svarfhóli giftast árið 1906 og hefja sinn búskap í Borgarnesi þar sem þau bjuggu síðan óslitið til ársins 1946 er þau fluttust til Reykjavíkur. Þau eignuðust fjögur börn: Björn Franklín f. 1908, Guðrúnu Laufeyju f. 1910, Halldór Hauk f. 1912 og Selmu f. 1917. Jón kynnti sér verslun í Danmörku og á Englandi. Hann hóf verslunarrekstur sem fyrsti forstöðumaður (frkv.stj.) „Framfararfélags Borgfirðinga“ sem síðar varð Kaupfélag Borgarfjarðar. Hann var ásamt föður sínum hvatamaður að stofnun þess félags. Jón hóf síðan sjálfstæðan rekstur eftir að hafa 28 ára gamall keypt „Lange verslunina“ í Borgarnesi árið 1906 og rak hann þar fjölbreytta  verslun um fjörtíu ára skeið á þeim stað þar sem Landnámssetur Íslands er til húsa í dag. Einnig rak hann sláturhús og stundaði útgerð, um tíma með nafna sínum og mági, Jóni Björnssyni sem kenndur var við Svarfhól í Stafholtstungum. Svo segir Friðrik Þórðarson í minningargrein um Jón í apríl 1949:

„Jón Björnsson frá Bæ má telja einn af ármönnum þjóðarinnar á hinu viðskiftalega endurreisnartimabili hennar um og eftir síðustu aldamót. Með afskiftum hans af viðskiftamálum hjeraðsins, kemst öll verslun þess í innlendar hendur og það mikið fyrr en í öðrum nálægum hjeruðum.“

Jón var víðlesinn og átti gott bókasafn. Hann hafði sem ungur maður komið á lestrarfélagi í sinni heimasveit og var formaður lestrarfélagsins í Borgarnesi í mörg ár. Hann var sagður raungóður starfsfólki sínu og hjálpsamur og greiðasamur svo eftir var tekið. Jón fluttist ásamt Helgu Maríu konu sinni til Reykjavíkur árið 1946 en lifði ekki lengi eftir það. Hann lést 24. mars 1949.

Heimildir: Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1969. Borgfirzkar æviskrár I. bindi, bls. 462. Sögufélag Borgarfjarðar. Friðrik Þórðarson. 1949. Jón Björnsson frá Bæ, minning. Morgunblaðið, 7. apríl, bls. 6. Garðar Halldórsson. 2010. Munnleg heimild.

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.

Júlíus Axelsson

Júlíus (Júlli) Axelsson fæddist 12. september 1937 á Borg á Mýrum. Foreldrar hans voru Axel Kristjánsson og Ingibjörg Jónsdóttir.  Hann ólst upp hjá þeim að Þorsteinsgötu 19 í Borgarnesi. Móðir hans lést árið 1970 þá 63 ára gömul og bjuggu feðgarnir tveir saman eftir það á Þorsteinsgötunni. Eftir nám í barnaskóla vann Júlli ýmis verkamannastörf, m.a. hjá Borgarneshreppi og Loftorku. Síðar á starfsævinni vann hann í Fjöliðjunni við Kveldúlfsgötu. Júlli tók þátt í starfi nokkurra félaga í Borgarnesi, m.a. Verkalýðsfélagi Borgarness, Alþýðubandalaginu í Borgarnesi og nærsveitum og Íþróttafélaginu Kveldúlfi. Hann ferðaðist líka mikið, bæði innanlands og utan, m.a. til Grænlands og með Bændaferðum til Evrópulanda. Þá fór hann í bílferðir með föður sínum á Volkswagen bjöllu hans um Borgarfjarðarhérað og víðar. Júlíus var mikill Borgnesingur og fylgdist grannt með öllum framkvæmdum í bænum sem hann skráði í dagbækur sínar. Skrif hans birtust í Kaupfélagsritinu sem Kaupfélag Borgfirðinga gaf út um tæpt þrjátíu ára skeið.

Skráningar hans eru mikilvægar heimildir um uppbyggingu Borgarness á 20. öld. Hann málaði líka myndir frá Borgarnesi og víðar og eru margar þeirra varðveittar í Safnahúsi. Júlíus er þó sennilega kunnastur fyrir ljósmyndir sínar. Hann sótti nær alla viðburði sem fram fóru í Borgarnesi á síðari hluta 20. aldar og eftir aldamót, og var alltaf með myndavélina við hönd. Ef framkvæmdir voru þar sem  hús var rifið eða reist, eða gata malbikuð, var hann mættur með myndavélina. Ljósmyndir hans veita því skemmtilega innsýn í húsasögu, mannlíf og framkvæmdir. Mörgum bæjarbúum þótti vænt um Júlla.  Hann bjó síðustu árin sín í Brákarhlíð sem er heimili fyrir aldraða í Borgarnesi og lést þar 79 ára að aldri 4. febrúar 2016. Árið 2017 var 150 ára afmælis Borgarness minnst. Við það tækifæri var sett upp sýning í Safnahúsi á ljósmyndum fjögurra ljósmyndara og var Júlíus einn þeirra. Hinir voru Friðrik Þorvaldsson, Einar Ingimundarson og Theodór Kr. Þórðarson. Sýningin var opnuð á afmælisdeginum sjálfum 22. mars og stóð allt fram ársloka.

Ljósmynd efst: Júlíus í einni af heimsóknum sínum í Safnahús árið 2013. Í baksýn er hluti sýningar um Hallstein Sveinsson,  myndir sem listamenn í vinahópi Hallsteins gerðu af honum.  Júlli skoðaði sýninguna af athygli enda hafði hann gott auga fyrir litum og formum.

Myndataka: Guðrún Jónsdóttir.

Kristleifur Þorsteinsson

Hér skal að nokkru getið fræðimannsins og rithöfundarins Kristleifs Þorsteinssonar. Hann var fæddur á Húsafelli 5. apríl 1861 og var Snorri Björnsson langafi hans. Kristleifur var yngstur af tólf börnum foreldra sinna, Ingibjargar Jónsdóttur frá Deildartungu og Þorsteins Jakobssonar frá Húsafelli. Þegar hann fæddist voru sex af systkinum hans látin, þar af fjögur úr barnaveiki með stuttu millibili. Nafn sitt fékk hann frá tveimur þeirra, sem hétu Kristín og Þorleifur.  Mun  það vera í fyrsta sinn sem nafnið Kristleifur varð til. Kristleifur dvaldist á Húsafelli  fram á fullorðinsár og stundaði sveitastörf,  en sjóróðra á Suðurnesjum á vertíðum. Hann byrjaði búskap á Uppsölum í Hálsasveit árið 1888, þá nýkvæntur fyrri konu sinni, Andrínu Guðrúnu Einarsdóttur (1859-1899). Undir aldamótin 1900 flutti hann búferlum að Stóra-Kroppi í Reykholtsdal. Kristleifur missti konu sína árið 1899 og kvæntist öðru sinni ári síðar, Snjáfríði Pétursdóttur (1862-1951) frá Grund í Skorradal. Þau áttu eina dóttur barna, Guðnýju, sem síðar giftist Birni Jakobssyni á Varmalæk. Börn Kristleifs af fyrra hjónabandi voru þessi:

Ingibjörg, giftist Þorsteini bónda Þorsteinssyni á Húsafelli. Þorsteinn, bjó á Gullberastöðum, kvæntur Kristínu Vigfúsdóttur. Þórður, bjó á Laugarvatni, kvæntur Guðrúnu Eyþórsdóttur. Katrín, ógift, var ráðskona hjá föður sínum. Einar, bóndi í Runnum, kvæntur Sveinbjörgu Brandsdóttur. Jórunn, giftist Jóhannesi Erlendssyni og bjó á Sturlureykjum. Andrína Guðrún, gift Birni bónda Gíslasyni í Sveinatungu.

Kristleifur var þekktur fyrir merka sagnaritun sína um borgfirska hætti og sögu. Minni hans var afar gott og gat hann lýst atvikum úr bernsku sinni með glöggum hætti. Meðal rita sem eftir hann liggja er Úr byggðum Borgarfjarðar, greinasafn um mannlíf og verkhætti í Borgarfirði. Hann átti einnig stærstan þátt í Héraðssögu Borgfirðinga og ritaði fjölda greina auk fréttapistla sem hann sendi  reglulega í Lögberg, annað blað Íslendinga vestan hafs í um þrjátíu ár. Kristleifur náði háum aldri og hélt áfram að skrifa á meðan heilsan leyfði. Pétur Ottesen segir í minningargrein við andlát hans 1952: „Fyrir það afrek sem Kristleifur hefur unnið með sagnaritun sinni og fræðimennsku eru ekki einasta Borgfirðingar í mikilli þakkarskuld við hann, heldur þjóðin öll“ Kristleifur lést þann 1. október 1952 og var jarðsettur í heimagrafreit á Stóra-Kroppi við hlið Snjáfríðar síðari konu sinnar. Heimildir m.a.: Aðalsteinn Halldórsson ofl. 1985. Borgfirzkar æviskrár VII bindi. Kristleifur Þorsteinsson. 1941. Frá bernskuárunum. Vísir, sunnudagsblað, 13. apríl. Pétur Ottesen. 1952. Héraðsþulur og fræðimaður Kristleifur á Stórakroppi. Mbl bls. 6 og 12. Þorsteinn Þorsteinsson. 2006. Kristleifur og uppruni hans. ópr./Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.

Magnús Andrésson

Magnús var Þingmaður, prestur og prófastur á Gilsbakka í Hvítársíðu og gegndi fjölmörgum öðrum ábyrgðarstörfum fyrir samfélag sitt. Hann var fæddur í Núpstúni í Hrunamannahreppi 30. júní 1845, sonur Andrésar Magnússonar (1818 -1857) og Katrínar Eyjólfsdóttur (1820-1911),  síðar í Syðra-Langholti. Magnús var elstur systkina sinna. Hann missti föður sinn 12 ára gamall og fluttist ári síðar að Urriðafossi í Flóa með móður sinni sem giftist Einari Einarssyni bónda þar. Magnús þótti efnisdrengur og fékk við fermingu vitnisburðinn „prýðilega í öllu.“ Hann fór ungur til vetrarvertíða á Vatnsleysuströnd, þar sem hann kynntist Guðmundi Ívarssyni formanni sem síðar varð mágur hans og velgjörðarmaður.  Guðmundur kenndi Magnúsi sjó sem kallað var, en Magnús kenndi honum skrift og reikning.

Þarna kom fyrst í ljós hæfileiki Magnúsar til að fræða aðra, en það átti eftir að verða honum ástríða síðar á ævinni. Guðmundur stuðlaði að því að Magnús færi í nám hjá séra Helga Hálfdánarsyni, þá presti á Álftanesi haustið 1866 þá rúmlega tvítugur.  Hann tók síðan próf í Lærða skólann vorið 1867 og hóf þar nám um haustið. Að sumrinu fór hann til kaupavinnu norður að Grenjaðarstað til séra Magnúsar Jónssonar sem þekktur var um allt land fyrir smáskammtalækningar (homopathiu). Ungi maðurinn lærði af nafna sínum og átti síðar eftir að verða nafnkunnur fyrir slíkar lækningar. Magnús átti við veikindi að stríða á þriðja vetri sínum í skólanum og lauk því ekki prófi fyrr en 1875, þegar hann var um þrítugt.

Guðfræðipróf tók hann frá Prestaskólanum tveimur árum síðar. Hann var fylgdarmaður Kr. Kålunds á ferðum hans um Ísland sumrin 1873 og 1874. Árin 1877-1881 var hann biskupsskrifari í Reykjavík og stundaði jafnframt kennslu. Árið 1881 giftist hann mætri konu, Sigríði Pétursdóttur (1860-1917) og fékk Gilsbakka í Hvítársíðu 17. júní sama ár. Alls eignuðust þau hjón tíu mannvænleg og hæfileikarík börn og komust átta þeirra til fullorðinsára. Hér eru þau tilgreind: Þorlákur (1882-1882) Andrés (1883-1916) Sigríður (1885-1980) Pétur (1888-1948) Katrín (1890-1972) Guðmundur (1891-1892) Steinunn Sigríður (1894-1976) Guðrún (1896-1943) Ragnheiður (1897-1981) Sigrún (1899-1989). 11.08.11 (1)

Sigríður og Magnús bjuggu á Gilsbakka til æviloka og þar búa afkomendur þeirra og tengdafólk enn. Þegar þau fluttu þangað var Gilsbakki talinn með rýrari brauðum landsins, en bújörðin góð. Margt þurfti að gera á staðnum og voru bæði bæjarhús og kirkja léleg.  Í janúar 1882 brann hluti bæjarins og urðu ungu hjónin að endurnýja hann.  Kirkja var einnig byggð á árunum 1882-3 en hún fauk í óveðri 15. desember 1907.  Svo sagði þá í Norðra:

„Kirkjan á Gilsbakka fauk í ofviðri og brotnaði … Hún var nýlega bygð og í stór skuld við síra Magnús Andrésson, er hafði látið gera hana.“

Ný kirkja var þá byggð og vígð ári síðar.  Prestakallið var lagt niður árið 1907 og sameinað Reykholtsprestakalli. Árið 1909 keypti sr. Magnús jörðina og lét síðar reisa þar stórt íbúðarhús úr steini í stað torfbæjarins.  Það hús stendur enn og á því er ártalið 1917. Árið 2011 var sett upp ítarleg heimildasýning um sr. Magnús í Safnahúsi, en skömmu áður höfðu ættingjar hans gefið talsvert magn muna og skjala úr hans eigu til Safnahúss. Magnús var einstakur embættismaður er vönduð vinnubrögð snerti og skrifaði afar góða rithönd.  Hluti af ræðusafni hans fylgdi gjöfinni og eru þær varðveittar í rauðum kistli sem þær voru ævinlega geymdar í á meðan hann lifði.

Helstu heimildir: Magnús Helgason. 1925. Sjera Magnús Andrjesson á Gilsbakka. Andvari 1.tbl. bls. 30. www.althingi.is. Skoðað 18. jan. 2011. Björk Ingimundardóttir, Sigríður B. Jónsdóttir ofl. 2009. Gilsbakkakirkja. Kirkjur Íslands 13. bindi, bls. 91-124. Magnús Helgason. 1925. Sjera Magnús Andrjesson á Gilsbakka. Andvari 1.tbl. bls. 30. www.althingi.is. Skoðað 18. janúar 2011. Óþekktur höf.: Norðri. 21. janúar 1908. Frétt á bls. 11. Munnlegar heimildir og yfirlestur: Ásgeir Pétursson, Ragnheiður Kristófersdóttir o.fl.

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.

Magnús Jónasson bílstjóri
Á árinu 2018 eru liðin 100 ár frá því að Magnús Jónasson keypti fyrsta bílinn sem kom í Borgarnes. Af þessu tilefni minnist Safnahús Magnúsar með þrennum hætti; grein hefur verið rituð í Borgfirðingabók, veggspjaldasýning sett upp í Safnhúsi og fróðleik hér með komið á framfæri á heimasíðu hússins.  Fór undirbúningur fram í samvinnu við fjölskyldu Magnúsar svo og í samstarfi við Sögufélag Borgarfjarðar útgefanda Borgfirðingabókar. Eru viðkomandi aðilum færðar bestu þakkir.
Upphafið
Magnús var einn sjö barna Jónasar Jónassonar og Ingibjargar Loftsdóttur sem fluttu í Borgarfjörðinn árið 1894. Þegar hann fæddist bjuggu þau á Galtarhöfða í Norðurárdal. Fátæktin var mikil á barnmörgu heimili og Magnús fór ungur að heiman í vinnumennsku. Haustið 1916 hóf hann nám í húsgagnasmíði hjá Jónatani Þorsteinssyni í Reykjavík.
Fyrsta ökuskírteinið
Jónatan var umsvifamikill atvinnurekandi og framleiddi allt frá stórum kerrum til húsgagna. Hann flutti einnig inn bifreiðar og þar fékk Magnús bílaáhugann. Hann lærði á bíl hjá Jóni Ólafssyni frostaveturinn mikla 1917-1918, lauk prófinu í febrúar 1918 og eignaðist sama ár fyrsta borgfirska ökuskírteinið, þá 24 ára gamall. Einnig keypti hann gamlan Ford sem var skráður MB 1. Ári seinna eignaðist hann nýjan Ford og fékk sá númerið MB 2.  Oft þurfti Magnús að fara yfir óbrúaðar ár og ófæra vegi. Á yngri árum veiktist hann af berklum og var nokkuð bæklaður á fæti. Hefur það vafalaust háð honum nokkuð, en engu að síður starfaði hann sem atvinnubílstjóri í áratugi.
Konungsævintýri
Árið 1930 rak Magnús orðið bílastöð ásamt Friðriki Þórðarsyni. Það ár fóru þeir eitt sinn suður í Hvalfjörð til að taka á móti Kristjáni X.  Danakonungi sem vildi renna fyrir lax í Norðurá. Var þá m.a. ekið yfir Andakílsá óbrúaða, en allt fór þó vel.  Veitti konungur Magnúsi síðar heiðurspening fyrir góða þjónustu.
Fjölskylda og heimili
Magnús giftist árið 1933 Önnu S. Agnarsdóttur (f. 1907) sem ólst upp á Hofi í Vatnsdal. Eignuðust þau tvö börn, Ingibjörgu Ástu og Skjöld Heiðar. Áður hafði Anna eignast son, Reyni Karlsson. Tvo fóstursyni áttu þau einnig, Magnús Reynisson og Magnús Hauk Norðdahl. Fjölskyldan bjó lengst af í húsi sem í dag er Borgarbraut 7 í Borgarnesi en hefur gjarnan verið kallað nítjánnítján (byggingarárið).  Byggði Magnús húsið ásamt Árna bróður sínum sem síðar flutti til Reykjavíkur. Var það byggt af stórhug, tvær hæðir og ris og rúmlega tvö hundruð fermetrar að stærð. Þótti það með glæsilegustu húsum í Borgarnesi og garðurinn skartaði fallegum gosbrunni. Var löngum gestkvæmt á heimilinu sem var biðstaður ferðalanga og margir bílstjórar Magnúsar héldu þar til. Mæddi því mikið á húsfreyju sem var orðlögð fyrir hlýjar og góðar móttökur. Þegar breskt herlið kom í Borgarnes árið 1940 leigði það stofuna á miðhæðinni undir skrifstofu. Margir Borgnesingar muna húsið á blómatíma þess. Það stendur enn og þegar þetta er skrifað er endurbygging þess hafin eftir langan tíma í niðurníðslu. Magnús Jónasson þótti vandaður, hjálpfús og orðheldinn. Starfsævi hans varð löng og vann hann vel fram yfir sjötugt. Í júní 1969 tóku þau hjón ákvörðun um að setja hús sitt á sölu og síðar sama ár lést Magnús, 75 ára að aldri. Anna lifði mann sinn en flutti fljótlega til Reykjavíkur eftir lát hans. Hún lést um áttrætt, árið 1987. Þau eru jarðsett í Borgarneskirkjugarði.
Ljósmyndir: Magnús Jónasson á unga aldri. Anna og Magnús. Húsið 1919 í Borgarnesi (Einar Ingimundarson).
Samantekt í janúar 2018, Safnahús Borgarfjarðar, Guðrún Jónsdóttir.
Ljósmyndir: Fjölskylda Magnúsar og Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar. Þakkir fyrir upplýsingar, yfirlestur og ljósmyndir:  Skjöldur Magnússon, Torfhildur Eyrún Ragnarsdóttir, Ingibjörg Ásta Magnúsdóttir, Atli Norðdahl og Jóhanna Skúladóttir.Aðrar helstu heimildir: Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1985. Magnús Jónasson. Borgfirzkar æviskrár VII. bindi, bls. 349. B.V.G. o.fl. 1983. Þegar kóngurinn kallaði „Stopp“ Kaupfélagsritið maí bls. 28-38 og júlí bls. 52-57. „Bróðursonur“ 1969. Magnús Jónasson – Minning. Morgunblaðið 14. desember, bls. 22. Br. 1968. Þegar kóngurinn kallaði: STOPP. Morgunblaðið, 15. júní, bls. 14. Guðmundur Jónsson. 1969. Magnús Jónasson, minning. Morgunblaðið 13. desember, bls. 12 og 22. Hreinn Ómar Arason. 2017. Bifreiðar á MB og M númerum. Borgfirðingabók, bls. 257. Jón Jónsson o.fl. 1979. Jónas Jónsson. Borgfirzkar æviskrár VI. bindi, bls. 373-374. Egill Ólafsson og Heiðar Lind Hansson. 2017. Bílaöld hefst. Saga Borgarness I. bindi, bls. 186 – 191. Magnús Jónasson. 1969. Auglýsing. Morgunblaðið, 22. júní, bls. 4. S.J. 1968. Fimmtíu ár undir stýri. Tíminn, 20. febrúar, bls. 3.
Ragnhildur Benjamínsdóttir

F. 16. október 1883, d. 12. júlí 1958

Höfundur: Ragnheiður Kristófersdóttir

Ragnhildur Benjamínsdóttir

Ég kalla hana Rönku. Í uppvexti mínum var hún eitt af því sjálfsagða og óbreytanlega og mér þótti vænt um hana. Ranka giftist ekki og eignaðist ekki börn. Hún vann öðrum alla æfi og gerði ekki víðreist. Hún var alla æfi í uppsveitum Borgarfjarðar, lengst af í Hvítársíðu.

Ranka fæddist að Hallkelsstöðum í Hvítársíðu. Foreldrar hennar voru hjónin Benjamín Jónsson og Nikhildur Erlingsdóttir sem þar bjuggu. Þau voru bæði alin upp á Hallkelsstöðum hjá hjónunum Nikulási Björnssyni og Ragnhildi Símonardóttur. Þau voru barnlaus og þegar Benjamín og Nikhildur giftust þurfti ekki að skipta reytunum!

Benjamín og Nikhildur eignuðust fimm börn: Nikulás f. 1879, d. 1882., Ragnhildi f. 1881, d. 1883. Ragnhildi f. 1883, lengi vinnukona í Kalmanstungu, Sigríði f. 1886, gift kona á Akureyri og Nikólínu f. 1889, lengi vinnukona á Gilsbakka. Áður hafði Benjamín  eignast barn með Ragnheiði Nikulásdóttur, þá vinnukonu á Hallkelssstöðum, það var Jóhannes, f. 1872, síðar bóndi á Hallkelsstöðum.

Ranka ólst upp á rótgrónu heimili foreldra sinna og vandist í æsku öllum venjulegum störfum, eins og þau gerðust á sveitaheimilum þessa tíma, bæði úti við og innanbæjar. Sem barn og unglingur sat hún yfir ánum meðan haft var í kvíum, hún lærði að mjólka bæði ær og kýr og hún þótti góður smali, hún var svo dugleg að hlaupa. Meðan heyskapur var stundaður með gamla laginu, með orfi og hrífu, var hún talin góður sláttumaður og gekk að því verki þegar þurfti ásamt því að raka og hjálpa til í heybandi. Hún lærði líka að breyta ull í fat og mjólk í mat. Öll þessi störf urðu meira og minna í hennar verkahring alla æfi, í fyrstu í foreldrahúsum en seinna á bæjum í nágrenninu.

Ég veit ekki hvar Ranka var í vistum framan af, hún var eitthvað í Hraunsási, annað hvort vinnukona eða kaupakona og í Stóra-Ási var hún vinnukona, ég held kannske í tvö ár, og ef til vill hefur hún verið einhversstaðar víðar, en þetta veit ég ekki vel.

Ólafur og Sesselja í Kalmanstungu

Ranka var í Reykjavík í einn (eða kannski tvo) vetur. Þar lærði hún karlmannafatasaum. Ég held að það hafi verið nokkuð um, að ungar stúlkur brygðu á það ráð ef þær gátu. Þetta var svo nytsöm kunnátta meðan allur fatnaður var saumaður heima. Fleira kann ég ekki að segja um vistferli Rönku annað en það, að 1913 kom hún að Kalmanstungu og var þar uns yfir lauk.

Þegar Ranka kom að Kalmanstungu bjuggu þar afi minn og amma, Ólafur Stefánsson og Sesselja Jónsdóttir. Ólafur og Ranka voru að öðrum og þriðja að frændsemi, Ólöf móðir Ólafs og Þórunn amma Rönku voru systur, Magnúsdætur frá Fljótstungu. Árið 1930 urðu miklar breytingar í Kalmanstungu. Ólafur bóndi lést, Sesselja hætti búskap og jörðin skiptist á milli bræðranna, Kristófers og Stefáns, sem báðir giftust það ár og stofnuðu heimili. Ranka fylgdi Kristófer og var æ síðan á hans heimili.

Mamma kom úr Reykjavík og var óvön sveitastörfunum. Þá var Ranka nú betri en enginn, hún kunni á öllu skil og var vön öllum aðstæðum í Kalmanstungu. Mömmu og Rönku kom alltaf vel saman og virtu hvor aðra. Mamma vandist nýjum aðstæðum og Ranka hélt áfram að annast ýmislegt, sem lengi hafði verið í hennar verkahring. Hún hirti kýrnar, gaf þeim og mjólkaði og vann úr mjólkinni. Hún bjó til besta skyr, sem ég hef smakkað. Það er vandaverk, en hún studdist við reynsluvísindi kynslóðanna. Mjólkin þarf að vera mátulega heit svo að vel fari þegar hún er hleypt. Það var aldrei til mjólkurmælir heima. Ranka stakk bara fingri ofan í mjólkina og  fann þá hvað var mátulegur hiti. Ranka vildi alltaf skilja mjólkina sjálf. Hún trúði varla unglingunum til að snúa skilvindunni mátulega hratt svo að rjóminn væri hæfilega þykkur.

Ranka bakaði líka rúgbrauðin. Þau voru sælgæti. Fjallagrös voru alltaf til í Kalmanstungu og notuð í grasamjólk og grasagraut, sem var þykkur, eins og ávaxtagrautur. Ranka var alveg sjálfsögð í allar grasaferðir, alltaf var farið á hestum og henni fannst þær vera bestu skemmtiferðir, þó voru þær oftast farnar þegar rigning var og blautt á. Hún fór líka með okkur til berja. Ranka vann alltaf svolítið af ull heima, kembdi og spann og prjónaði aðallega vettlinga og sokka. Hún kunni líka að vefa. Það var ekki til vefstóll heima eftir að ég man eftir, en það voru til nokkur brekán sem Ranka hafði ofið.

Ranka hafði gaman af að lesa, bæði sögur og þjóðlegan fróðleik, en ekki lá hún í bókum á virkum dögum! Hún átti fáeinar bækur, hún lánaði mér bæði Skugga-Svein og Þúsund og eina nótt. Ranka átti kommóðu og koffort og hægindastól fékk hún í vinnuhjúaverðlaun, í annað skipti fékk hún silfurskeið og síðar gauksklukku í samskonar verðlaun og svo átti hún hnakk. Hún fór ekkert af bæ nema ef hún skrapp upp að Hallkelsstöðum að finna frændfólk sitt. Einu sinni á seinni árunum þurfti hún þó að fara í Borgarnes til að fá ný gleraugu og vera nótt í burtu, þá hafði hún áhyggjur af því að við gætum ekki mjólkað kýrnar.

Ranka stamaði og kom sér illa við meðal ókunnugra og ef henni var mikið niðri fyrir, en hversdagslega meðal heimafólks bar ekki mikið á því. Hún vildi ekki vera ein heima ef það skyldu koma gestir. Hún hafði gaman af að hlýða á tal manna, hún hafði sínar skoðanir og hvikaði ekki frá þeim þó að öðru væri haldið fram. Ranka var alla tíð heilsugóð. Ég minnist þess ekki að hún væri rúmföst þó einhverjar umgangspestir væru á ferðinni, hún fór að minnsta kosti alltaf í fjósið. En svo komu mislingar á bæinn og úr þeim andaðist Ranka, heima í rúminu sínu, 12. júlí 1958. Ranka var áreiðanleg og vönduð manneskja, ég vissi aldrei til að hún ætti nokkurn óvin.

Sigríður Pétursdóttir

Sigríður Pétursdóttir Gilsbakka_2Sigríður Pétursdóttir var húsfreyja á Gilsbakka í Hvítársíðu. Hún var dóttir hjónanna Sigríðar Þorsteinsdóttur frá Reykholti og Péturs Sívertsen, sem síðar bjó í Höfn í Melasveit.

Sigríður var fædd árið 1860 í „Húsinu“ á Eyrarbakka þar sem foreldrar hennar bjuggu frá því þau giftu sig 1857.  Hún átti tvö eldri systkini, Sigríði eldri (f. 1858) og Torfa (f. 1859).  Sigríður yngri var þriðja systkinið og það yngsta. Hún missti móður sína nýfædd og við það leystist heimilið upp.  Sigríður eldri var tekin í fóstur af afa sínum og ömmu í Reykjavík (Sigurði og Guðrúnu Sívertsen) og giftist síðar til Danmerkur (Tajsen).  Torfi var tekinn í fóstur af Guðmundi Thorgrímssyni á Eyrarbakka en dó ungur.  Sigríður yngri ólst fyrir tilstilli ömmu sinnar Sigríðar Pálsdóttur upp hjá Sigríði Guðmundsdóttur á Selalæk, ekkju séra Gísla Ísleifssonar í Kálfholti.  Sú kona kom að Gilsbakka til fósturdóttur sinnar þegar hún var gift sr. Magnúsi Andréssyni og þau hjón nýflutt þangað og var þar há þeim til æviloka.

Þegar Sigríður Pétursdóttir yngri kynntist Magnúsi var hún aðstoðarstúlka í Görðum á Álftanesi hjá frú Þórunni, konu séra Þórarins Böðvarssonar. Gekk hún einnig í Kvennaskólann fyrir tilstilli Sigríðar Pálsdóttur ömmu sinnar í tvo vetur.  Þar var kennari hennar Magnús Andrésson og þar með voru örlögin ráðin. Var brúðkaup þeirra haldið í Görðum 9.  sept. 1881.  Þau fóru fyrst austur í sveitir til að heimsækja ættingja og vini, en fóru ríðandi yfir Kaldadal að Gilsbakka síðar um haustið.  Sigríður tók þar við stóru búi og var algengt að um 20 manns væru í heimili.  Eiginmaður hennar var oft löngum stundum í burtu vegna þingsetu og annarra embættisstarfa.  Alls áttu þau tíu börn á árunum 1882-1899.  Þar af dóu tveir synir í barnæsku; Þorlákur og Guðmundur.  Einnig misstu þau hjón Andrés son sinn úr berklum rúmlega þrítugan í júní 1916.  Lát hans var þeim mikið áfall. Stuttu síðar fékk Sigríður aðkenningu af slagi og náði aldrei aftur fullri heilsu. Hún lést 24. ágúst 1917 einungis 57 ára gömul.

Svo segir Þórður Kristleifsson um frú Sigríði á Gilsbakka (óbirt: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar):

„…Frú Sigríður var svo gæfusöm að ávinna sér þegar í þessari umsvifamiklu stöðu virðingu og fullkomið trúnaðartraust vinnuhjúa sinna. Og allir, sem af henni höfðu nokkur kynni, báru til hennar hlýjan hug. Hún var mannkostakona, hafði mannbætandi, göfgandi áhrif á umhverfi sitt.

Einhver ólýsanlegur bjarmi geislaði af svipmóti frú Sigríðar á Gilsbakka, einhver eðlislægur, sannur yndisþokki, svo að öðrum varð rótt og létt í skapi í návist hennar og fóru af hennar fundi með vorlega birtu í geði.“

Heimildir:

Magnús Helgason. 1925. Sjera Magnús Andrjesson á Gilsbakka. Andvari 1.tbl. bls. 30.
Peter Abel Borup og Sigurdór Sigurðsson. 1994. Borgfirzkar æviskrár IX, bls. 80. Sögufélag Borgarfjarðar.
Munnlegar heimildir og yfirlestur: Ásgeir Pétursson, Ragnheiður Kristófersdóttir o.fl.

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.

Þorsteinn Jósepsson

Þorsteinn Jósepsson var fæddur 18. júlí 1907 á Signýjarstöðum í Hálsasveit, sonur Jóseps G. Elíesersonar bónda þar og Ástríðar Þorsteinsdóttur konu hans.  Jósep var ættaður úr Víðidal í Húnavatnssýslu en Ástríður var frá Húsafelli í Hálsasveit.  Þorsteinn starfaði mikið með ungmennafélaginu heima í héraði, varð ágætur íþróttamaður og  síðar kunnur ljósmyndari, blaðamaður og rithöfundur. Hann dvaldist erlendis um nokkurt skeið, í Þýskalandi og Sviss. Laust fyrir 1940 réðst hann að Vísi bæði sem ljósmyndari og blaðamaður og starfaði þar síðan eða í meira en aldarfjórðung.  Ljósmyndasafn Þorsteins er nú í eigu Þjóðminjasafns Íslands.

Þorsteinn var mikill bókasafnari og hafði áhuga á alls kyns bókmenningu, ferðalögum og náttúruskoðun svo nokkuð sé nefnt. Þess má geta að mikil vinátta var með honum og Páli Jónssyni frá Örnólfsdal (1909-1985), merkum bókasafnara og velgjörðarmanni Safnahúss. Sjá má nánar um Pál með því að smella hér.

Þorsteinn var fyrst giftur Guðbjörgu Maríu Benediktsdóttur en þau skildu. Árið 1947 kvæntist hann Jósefínu Gísladóttur og varð þeim einnar dóttur auðið, er heitin var Ástríður í höfuð ömmu sinni. Jósefína andaðist árið 1962. Síðari kona Þorsteins var Edith Wischatta frá Innsbruck í Austurríki.

Eftirfarandi ritverk hafa komið út eftir Þorstein Jósepsson:

Tindar – smásögusafn 1934
Ævintýri förusveins – 1934
Undir suðrænni sól – 1937
Týrur, smásögusafn – 1946
Í djörfum leik – 1946
Landið þitt – I 1966
Landið þitt II – 1968Auk ofangreinds ritaði Þorsteinn fjölda greina í innlend og erlend tímarit og í árbækur Ferðafélags Íslands þar sem hann sat í stjórn frá árinu 1942 og til dauðadags, en hann lést í janúarlok árið 1967.

 

Ljósmynd: Þorsteinn Jósepsson. Birt með góðfúslegu leyfi Þjóðminjasafns Íslands.

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.

Helstu heimildir:
Axel Thorsteinsson. 1967. Þorsteinn Jósepsson blaðamaður látinn. Vísir 30. janúar, bls. 16.
Gunnar G. Schram. 1967. Þorsteinn Jósepsson, minning. Morgunblaðið 4. febrúar bls. 12.
Sveinbj. Guðmundsdóttir og Þuríður J. Kristjánsdóttir. 2003. Borgfirskar æviskrár XII. Söguf. Borgarfjarðar, Rvk.
Sverrir Þórðarson. 1967. Þorsteinn Jósepsson, minning. Morgunblaðið 4. febrúar bls. 12.