3. maí, 2024
Allar fréttir

Samstarfsskólinn okkar er Základní Skola Karla Jerábka, í bænum Roudnice nad Labem í Tékklandi. Vikuna 22. – 26.apríl sl. voru fimmtán nemendur þaðan í heimsókn hér í skólanum, ásamt aðstoðarskólastjóra og tveimur kennurum. Nemendur í 8. og 9.bekk, sem hafa í vetur verið í valgreininni „Erlent samstarf“ voru gestgjafar þeirra hér, ásamt náttúrufræðikennara og verkefnisstjóra.

Dásamlegt veður og hressandi verkefni einkenndu þessa líflegu viku. Hópurinn eldaði saman eftir tékkneskum og íslenskum uppskriftum, fór í sund, heimsótti ferðamannastaði, fór á sýningar og umfram allt naut þess að vera saman. Mikið hlegið og spjallað.

Landnámssetrið bauð hópnum á sögusýningarnar, Borgarbyggð bauð í sund og í Safnahúsið og á Sturlu-Reykjum fékk hópurinn fræðslu um íslenska hestinn og nýtingu jarðvarma. Tékkneski hópurinn sótti MB heim og fékk fræðslu um starfsemina í Kviku. Við kunnum þessum aðilum bestu þakkir fyrir móttökuna og ómetanlegan stuðning.

Það er góð reynsla fyrir krakkana okkar að fá að sýna tékkneskum félögum sínum aðstöðuna í skólanum sínum, útsýnið og kennslugögnin. Fá að heyra hvað þetta sé mikið og flott og heyra samanburðinn við þeirra aðstöðu. Það vill nefnilega gleymast hvað við höfum það í rauninni gott. Mötuneytið vakti sérstaka lukku enda hafði hópurinn kynnt sér matseðilinn á Instagram í þónokkurn tíma. Samaburðurinn alfarið okkur í hag, að þeirra sögn.

Það er áskorun að taka þátt í slíku verkefni, en jafnframt þroskandi og skemmtilegt. Næsta vetur er komið að okkur í GB að bæta því í reynslubankann að velja úr okkar hópi þá sem sækja tékkneska samstarfsskólann okkar heim. Við hlökkum mikið til.

Tengdar fréttir