13. desember, 2024
Allar fréttir

Áralöng hefð er fyrir því á Varmalandi að hefja aðventuna með svokallaðri Vinakeðju og var hún haldin föstudaginn 6. desember.

Í upphafi skóladags komu foreldrar, nemendur og starfsfólk saman fyrir utan skólann, þar sem kveikt var á kyndlum. Síðan var gengið í halarófu í snjónum og myrkrinu upp að Laugahnjúl. Þar tóku nemendur skólans sig til og sungu vel valin jólalög, sem fylltu andrúmsloftið af jólaanda. Með lokalaginu tókst nemendunum að kveikja á jólastjörnunni, sem nú lýsir upp skammdegið yfir Varmalandi og minnir á komandi hátið með hækkandi sól.

Að athöfn lokinni fóru allir aftur í skólann, sumir gangandi og aðrir rennandi sér, þar sem heitt súkkulaði og piparkökur beið þeirra. Samverunni var síðan haldið áfram í skólanum fram til hádegis, þar sem nemendur og foreldrar tóku þátt í alls kyns jólaföndri og nutu samverunnar.

Þetta var virkilega vel heppnuð stund og ánægjuleg byrjun á aðventunni í skólanum, þar sem samhugur, gleði og jólaskapið voru í fyrirrúmi.

Tengdar fréttir