
Dagana 21.–23. janúar fóru fram skemmtilegir og fræðandi þemadagar í Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi. Þema vikunnar var vatn, enda er það áberandi náttúruauðlind á Varmalandi í öllum fösum.
Þemadagar hófust á ævintýralegri ferð þar sem nemendur gengu um jarðhitasvæðið í snjónum. Þar fundu nemendur vatn í gufu- og ísformi, en það var ekki nóg – næst lá leiðin niður að Norðurá til að kanna vatnið í fljótandi formi. Náttúran sjálf var því vettvangur fyrsta dagsins og veitti innblástur fyrir það sem á eftir fylgdi.
Í skólanum voru nemendum skipt í hópa sem fengu tækifæri til að vinna á mismunandi stöðvum með áherslu á fjölbreytt viðfangsefni. Ein stöðin fjallaði um hringrás vatns og þau vistkerfi sem það tengist. Önnur stöðin einbeitti sér að gufunni og orðaforða tengdu vatni og vatnsbúskap. Á þriðjustöðinni var unnið með tölfræði, þar sem nemendur gerðu hitastigsmælingar og færðu niðurstöðurnar í súlurit. Í takt við heilsueflingu skólans var fjórða stöðin hreyfistöð, þar sem nemendur fengu útrás og endurnæringu.
Þemadagarnir voru einnig í anda þeirra grunngilda sem Grunnskóli Borgarfjarðar leggur mikla áherslu á. Skólinn er réttindaskóli og starfar eftir hugmyndafræði Leiðtogans í mér, þar sem nemendur eru hvattir til að taka ábyrgð á eigin námi, þróa leiðtogahæfni og sýna virðingu gagnvart umhverfi sínu og öðrum. Þema vatns var því kjörin leið til að samþætta sjálfbærni í námi og vekja nemendur til vitundar um mikilvægi náttúruverndar. Ekki er síður vert að nefna að skólinn hefur hlotið Grænfánann, tákn sjálfbærni og umhverfisvitundar, og skipulag þemadaga endurspeglar þau markmið.
Þemadagar vöktu mikla gleði og áhuga nemenda. Náttúrufræði, stærðfræði, menning, vísindi, íþróttir og íslenska fengu öll sinn sess í þessari skapandi og fjölbreyttu nálgun á námi. Slík uppbrot á hefðbundnu skólastarfi eru dýrmæt og styrkja nemendur í að tengja fræðin við nærumhverfið.
Við tekur Bóndadagur og upphaf Þorra, og því má með sanni segja að það sé aldrei dauð stund í lífi og námi barnanna á Varmalandi.