
Í fyrstu vikunni fór 3. og 4. bekkur út fyrir skólastofuna til að njóta veðurblíðunnar og prufa sig áfram í öðrum aðferðum við námið. Hópnum var skipt upp í þrjár einingar, sem reyndi á samvinnu í verkaskiptingu og skapaði einnig passlegan keppnisanda milli hópa. Verkefnið fól í sér lengdarmælingar, finna form og mismunandi horn ásamt verkefnum með steinum. Nemendur fengu með sér kaðalspotta sem var notaður við ýmsar mælingar á skólalóðinni ásamt því að telja hænuskref á milli staða. Það reyndi pínu á nemendur að átta sig á að formin sem við erum oft að vinna með í stærðfræðinni eru allt í kring um okkur. Þau þurftu t.d. að finna átthyrning, og átti það að vera snúnasta formið að finna, en einn hópurinn áttaði sig fljótlega á að fótboltapannan er átthyrnd. Síðasti hluti verkefnisins var svo að telja steina, raða þeim í stærðarraðir og deila þeim í jafnar hrúgur. Krakkarnir voru áhugasamir og leystu verkefnið með ánægju og prýði.