Nemendur 5. bekkjar á Hvanneyri eru í áhugasviðsvali eftir hádegi á föstudögum og eru þetta vinsælustu tímar vikunnar. Í þessum tímum, eins og nafnið gefur til kynna, vinna þau verkefni sem falla að þeirra áhuga. Allar hugmyndir eru skoðaðar og reynt að finna útfærslu sem virkar til að hugmyndin geti orðið að veruleika. Fjölbreyttur efniviður er í boði og ímyndunaraflið ræður för. Einu skilyrðin eru að þau vinni að sinni hugmynd og í upphafi verða þau að hanna og skissa upp verkefnið og skoða hvaða efnivið er best að nota áður en þau byrja á vinnunni. Svo kemur stundum fyrir að eitthvað mistekst eða gengur ekki eins og ætlað var og þá þurfa þau sjálf að finna lausnir. Kennarinn er eingöngu til aðstoðar. Mjög skemmtilegir og líflegir tímar.