Aðalskipulag

Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir sveitarfélag þar sem stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, byggðaþróun og -mynstur ásamt umhverfis- og orkumálum kemur fram. Landið er allt skipulagsskylt sem nær til þess lands og hafs innan marka sveitarfélaga. Byggingar mannvirkja og aðrar framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir.

Aðalskipulagið er grundvöllur deiliskipulaga sem taka til frekari skilgreininga á landnotkun, samgöngum, þjónustukerfum og byggðamynstri. Aðalskipulag er byggt á markmiðum skipulagslaga, landsskipulagsstefnu, áætlunum um þróun og þarfir sveitarfélagsins og gætt að samræmi við skipulagsáætlanir aðliggjandi sveitarfélaga. Sveitarstjórn ber ábyrgð á að í gildi sé aðalskipulag fyrir sveitarfélagið og sér Skipulagsstofnun og ráðherra um að staðfesta það.

Núgildandi aðalskipulag var samþykkt í sveitarstjórn 9. desember 2010, staðfest af Skipulagsstofnun 20. apríl 2011, staðfest af umhverfisráðherra 29. júní 2011 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda þann 8. júlí 2011. Gildistími þess er 2010-2022 og tekur til alls lands innan staðarmarka sveitarfélagsins sem er 4.926 km2 að stærð og þéttbýlanna Bifröst, Borgarnes, Hvanneyri, Kleppjárnsreykir og Reykholt.

Leiðarljós og framtíðarsýn í núgildandi aðalskipulagi

  • Fjölbreytt mannlíf og atvinnulíf í fögru, heilbrigðu og hreinu umhverfi – maður er manns gaman
  • Öflug menntun og menning – mennt er máttur
  • Betri lífsskilyrði íbúa – samfélag fyrir alla
  • Samtvinna gæði þéttbýlis og sveitar – borg í sveit

Aðalskipulagið er sett fram í greinargerð og á fimm uppdráttum, sveitarfélagsuppdrætti, þremur skýringaruppdráttum og þéttbýlisuppdrætti. Unnar hafa verið 28 breytingar á núverandi aðalskipulagi og eru fleiri í ferli.

Heildarendurskoðun aðalskipulags fyrir Borgarbyggð er í ferli núna og má nálgast frekari upplýsingar um það ferli á verkefnavef aðalskipulagsins.