roofing

Skipulagsfulltrúi starfar á grundvelli skipulagslaga, skipulagsreglugerðar og samþykkt sveitarstjórnar um úrvinnslu og afgreiðslu.

Hluti af skipulagsmálum eru svæðisskipulag, aðalskipulag, deiliskipulag auk stefnu og þróunar til framtíðar í þeim málum. Skipulagsvinna er byggð á markmiðum skipulagslaga, landskipulagsstefnu og svæðisskipulags þar sem það á við.

Starfssvið skipulagsfulltrúa er skilgreint í II. kafla skipulagslaga nr. 123/2010.

Símatímar hjá skipulagsdeildinni eru sem hér segir:

  • Mánudaga frá kl. 09:30 – 11:30.
  • Miðvikudaga frá kl. 09:30 – 11:30.
  • Fimmtudaga frá kl. 09:30 – 11:30.

Ef óskað er eftir viðtalstíma þarf að bóka hann með dags fyrirvara.

Netfang: ⁠skipulag@borgarbyggd.is.

Flýtileiðir:

Aðalskipulag

Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir sveitarfélag þar sem stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, byggðaþróun og -mynstur ásamt umhverfis- og orkumálum kemur fram. Landið er allt skipulagsskylt sem nær til þess lands og hafs innan marka sveitarfélaga. Byggingar mannvirkja og aðrar framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir.

Aðalskipulagið er grundvöllur deiliskipulaga sem taka til frekari skilgreininga á landnotkun, samgöngum, þjónustukerfum og byggðamynstri. Það er byggt á markmiðum skipulagslaga, landsskipulagsstefnu, áætlunum um þróun og þarfir sveitarfélagsins og gætt að samræmi við skipulagsáætlanir aðliggjandi sveitarfélaga. Sveitarstjórn ber ábyrgð á að í gildi sé aðalskipulag fyrir sveitarfélagið og sér Skipulagsstofnun og ráðherra um að staðfesta það.

Núgildandi aðalskipulag var samþykkt í sveitarstjórn 9. desember 2010, staðfest af Skipulagsstofnun 20. apríl 2011, staðfest af umhverfisráðherra 29. júní 2011 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda þann 8. júlí 2011. Gildistími þess er 2010-2022 og tekur til alls lands innan staðarmarka sveitarfélagsins sem er 4.926 km2 að stærð og þéttbýlanna Bifröst, Borgarnes, Hvanneyri, Kleppjárnsreykir og Reykholt.

Leiðarljós og framtíðarsýn í núgildandi aðalskipulagi:

  • Fjölbreytt mannlíf og atvinnulíf í fögru, heilbrigðu og hreinu umhverfi – maður er manns gaman
  • Öflug menntun og menning – mennt er máttur
  • Betri lífsskilyrði íbúa – samfélag fyrir alla
  • Samtvinna gæði þéttbýlis og sveitar – borg í sveit

Aðalskipulagið er sett fram í greinargerð og á fimm uppdráttum, sveitarfélagsuppdrætti, þremur skýringaruppdráttum og þéttbýlisuppdrætti. Unnar hafa verið 28 breytingar á núverandi aðalskipulagi og eru fleiri í ferli. Heildarendurskoðun aðalskipulags fyrir Borgarbyggð er í ferli núna og má nálgast upplýsingar um það á verkefnavef aðalskipulagsins sem er aðgengilegur hér fyrir ofan í flýtileiðum.

Deiliskipulag

Deiliskipulag er skipulagsáætlun sem er gerð fyrir einstök svæði eða reiti sveitarfélagsins. Deiliskipulag er byggt á þeirri stefnu sem tekin er í aðalskipulagi og útfærir hana fyrir viðkomandi svæði eða reiti hvort heldur er í þéttbýli eða dreifbýli. Í deiliskipulagi eru settir skilmálar um mótun og yfirbragð byggðar og umhverfis. Tilgreindar eru stærðir, staðsetning og notkun húsa. Hönnun og efnisnotkun bygginga er útfærð nánar ásamt ákvæðum um lóðir og almannarými eins og götur, torg, leiksvæði og almenningsgarða. Byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi skulu vera í samræmi við skipulag. Almenna reglan er að byggingaleyfi skuli byggja á deiliskipulagi, en framkvæmdaleyfi geta í tilteknum tilvikum byggt á aðalskipulagi.

Sveitarfélagið birtir gild deiliskipulög sem birtast á vefsjá Skipulagsstofnunar sem er aðgengileg hér fyrir ofan í flýtileiðum. Nánari upplýsingar um ferli deiliskipulagsgerðar má nálgast á heimasíðu Skipulagsstofnunar ásamt leiðbeiningarblöðum þar að lútandi undir Skipulag sveitarfélaga > Deiliskipulag > Leiðbeiningar.

Skipulagsráðgjafar

Á 28. fundi skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar þann 5. október 2021 var lögð fram ábending Skipulagsstofnunar er varðar hæfisskilyrði skipulagshönnuða við gerð skipulagsáætlanir sbr. 5. mgr. 7. gr. og 9. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010:

Skipulags- og byggingarnefnd telur sveitarfélaginu skylt að fara að ábendingu Skipulagsstofnunar. Mun sveitarfélagið hér eftir fara fam á að skipulagshönnuðir séu á lista Skipulagsstofnunar yfir þá sem uppfylla framangreind hæfisskilyrði frá og með 1. nóvember 2021 þegar lagðir eru fram nýjir uppdrættir og greinargerðir til sveitarfélagsins. Eðlilegt er að þau mál sem þegar eru í ferli hjá sveitarfélaginu, eða aðrir samningar liggja fyrir um, fái undanþágu frá þessari reglu.

Skipulagsstofnun heldur úti lista yfir þá sem uppfylla skilyrði til gerðar skipulagsáætlana. Þeir sem uppfylla skilyrði um menntun og/eða starfsreynslu sem tilgreind eru í 7. grein skipulagslaga geta óskað eftir skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana. Hægt er að nálgast þennan lista á heimasíðu Skipulasstofnunar undir Skipulag sveitarfélaga > Skipulagsráðgjafar en hann er uppfærður um leið og breytingar verða á listanum hverju sinni. Æskilegast er að landeigendur, framkvæmdaraðilar og aðrir leyti ráðlegginga hjá hönnuði sem er síðan tengiliður við Skipulags- og umhverfissvið Borgarbyggðar.

Landskipulagsstefna

Landsskipulagsstefna til tólf ára er lögð fram á Alþingi af ráðherra innan tveggja ára frá aþingiskosningum. Í stefnunni koma fram samþættar áætlanir opinberra aðila um málaflokka eins og samgöngur, byggðamál, náttúruvernd og annað er varðar landnotkun, nýtingu og vernd auðlinda. Er stefnan útfærð með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Sveitarfélög skulu taka mið af landsskipulagsstefnunni í gerð skipulagsáætlana.

Svæðisskipulag

Svæðisskipulag er skipulagsáætlun tveggja eða fleiri sveitarfélaga. Þar er sett fram sameiginleg stefna um byggðaþróun og þá þætti landnotkunar þar sem sveitarfélögin eiga sameiginlega hagsmuni að gæta. Í Borgarbyggð er ekki svæðisskipulag í gildi.

Rammaskipulag

Rammahluti aðalskipulags er sá hluti aðalskipulags sem er útfærð eru ákveðin afmörkuð svæði innan sveitarfélagsins með það að markmiði að ákvarða nánar landnotkun svæðisins. Þetta geta verið meginþættir þjonustukerfa, afmarkanir byggingarsvæða eða áfanga deiliskipulagsáætlana. Eitt rammaskipulag er í Borgarbyggð, rammaskipulag fyrir Brákarey. Skipulagið var kynnt á 5. fundi skipulags- og byggingarnefndar sem haldinn var 1. nóvember 2019 og kynnt á íbúafundi 28. mars 2019.

Rammaskipulag fyrir Brákarey 

Rammaskipulag er aðeins grunnur að framtíðarsýn og uppbyggingu og tók skipulags- og byggingarnefndin vel í heildarhugmyndirnar og ákvarðanir fyrir svæðið í heild sinni. Bent skal á að rammaskipulag er ekki bindandi skipulagsgagn.

Hverfisskipulag

Hverfisskipulag er þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi og er frekar lögð áhersla á almennar reglur um yfirbragð byggðarinnar auk almennra rammaskilmála en þær kröfur um framsetningu sem gerðar eru til deiliskipulags í nýrri byggð. Reglur um málsmeðferð deiliskipulags gilda eftir sem áður um hverfisskipulag. Í Borgarbyggð er ekki hverfisskipulag í gildi.