26. október, 2023
Fréttir

Árshlutauppgjör Borgarbyggðar fyrstu sex mánuði ársins var kynnt í byggðarráði í gær, fimmtudaginn 28. september. Rekstur Borgarbyggðar gekk vel og batnaði afkoman talsvert á milli ára. Afkoma A-hluta fyrir fjármagnsliði batnaði um 190 m.kr. milli ára og var jákvæð um 29 m.kr. Að frádregnum fjármagnsliðum var rekstrarniðurstaðan neikvæð um 23 m.kr. sem skýrist af hækkun verðtryggðra lána.

Tekjur A-hluta Borgarbyggðar jukust um 22% á fyrri árshelmingi og námu um 2,6 ma.kr., þar af jukust um útsvarstekjur um liðlega 17% en útsvar er um 50% tekna sveitarfélagsins. Á sama tíma jukust rekstrargjöld um 13% og munar þar mestu um hækkun launakostnaðar upp á 13% en laun og launatengd gjöld voru um 63% af gjöldum sveitarfélagsins fyrir afskriftir.

Íbúar í Borgarbyggð voru 4.275 talsins við lok júní 2023 og hafði fjölgað um 8,8% á einu ári. Fjölgun íbúa, gott atvinnuástand og öflugt atvinnulíf ráða mestu um kröftugan raunvöxt tekna sveitarfélagsins. Að umfangi hefur rekstur sveitarfélagsins aukist minna en sem nemur fjölgun íbúa. Rekstur nær allra stofnana sveitarfélagsins hefur haldist innan áætlunar í upphafi árs, fyrir utan að kjarasamningar á vinnumarkaði reyndust ríflegri en vænst var. Forstöðumenn og annað starfsfólk á miklar þakkir skildar fyrir ráðdeild og skynsemi í rekstri.

Borgarbyggð nær yfir um 5.000 ferkílómetra svæði eða tæplega 5% af flatarmáli Íslands. Um helmingur íbúa býr í Borgarnesi en auk þess er þéttbýli á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum, Varmalandi, Húsafelli, Bifröst og Reykholti og blómleg byggð til sveita. Sveitarfélagið starfrækir tvo grunnskóla á fjórum starfsstöðvum og fimm leiksskóla.

Í fjárfestingaráætlun sveitarfélagsins er á komandi árum gert ráð fyrir uppbyggingu bæði knatthúss og stækkun íþróttahúss í Borgarnesi, stækkun grunnskóla á Kleppjárnsreykjum og leikskólans Uglukletts í Borgarnesi. Unnið er að gatnagerð á Hvanneyri og Varmalandi, stækkun íbúabyggðar í Bjargslandi og uppbyggingu atvinnuhúsnæðislóða við Vallarás. Lítið lát er á uppbyggingu frístundabyggða og skref hafa verið stigin í uppbyggingu íbúabyggðar í dreifbýli. Þá stendur fyrir dyrum endurskipulagning byggðar í Brákarey.

Uppgjör fyrstu sex mánaða ársins sýnir fjárfestingu í varanlegum rekstrarfjármunum upp á 77 m.kr. en á sama tíma hefur lausafjárstaða sveitarfélagsins styrkst og greitt hefur verið inn á lán í stað þess að taka ný lán. Veltufé frá rekstri fyrstu sex mánuði ársins var 200 m.kr. og handbært fé frá rekstri 456 m.kr.

Fjárfestingar á tímabilinu voru umtalsvert minni en ráðgert var. Þar spilar inn í hátt vaxtastig og verðbólga og góð verkefnastaða iðnfyrirtækja, verktaka og hönnuða. Heildareignir A-hluta Borgarbyggðar voru bókfærðar á 9,0 ma.kr. um mitt ár 2023 og var eiginfjárhlutfall 57%. Um mitt ár námu hreinar vaxtaberandi skuldir A-hluta Borgarbyggðar um 1,5 ma.kr. án lífeyrisskuldbindinga.

Fyrirsjáanlegt er að fjárfestingar munu aukast á síðari hluta ársins en unnið er að hönnun mannvirkja og gatnagerð. Í vetur mun framboð á bæði lóðum undir íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði aukast. Uppgjör fyrstu sex mánaða þessa árs gefur fyrirheit um að afkoma og fjárstreymi af rekstri sveitarfélagsins verði betri en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Borgarbyggð bindur vonir við að vaxtastig og verðbólgu taki að hjaðna þannig að hagfellt verði að ráðast í tímabæra uppbyggingu íþróttamannvirkja, skóla og annarra innviða.

 

Tengdar fréttir

17. september, 2025
Fréttir

Sameiningarkosningar Borgarbyggðar og Skorradalshrepps: Upplýsingar um kjördeildir og opnunartíma

Fimmtudaginn 18.09. 2025 verða opnar kjördeildir Borgarbyggðar í Félagsheimlinu Lindartungu Lindartungukjördeild, Félagsheimilinu  Þinghamri Varmalandi , Þinghamarskjördeild og Grunnskólanum  Kleppjárnsreykjum  Kleppjárnsreykjakjördeild.  Í Lindartungu verður opið milli 18:00 og 20:00. Í Þinghamri og Kleppjárnsreykjum mun vera opið á milli kl 16:00  og 20:00. Þennan dag (18.09) er opið í  Ráðhúsi Borgarbyggðar milli 12.00 og 14.00 en þá einungis fyrir Borgarneskjördeild og í …

17. september, 2025
Fréttir

Bíllausi dagurinn 2025

Frá árinu 2002 hafa borgir og bæir á Íslandi tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu um að ýta undir sjálfbærar samgöngur. Yfirskrift átaksins er Evrópsk Samgönguvika og er hún haldin 16. – 22. september ár hvert. Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið …