
Við Melabraut á Hvanneyri er nú að rísa tæplega 1.700 fermetra límtréshús úr yleiningum frá Límtré Vírnet í eigu Melabrautar byggingarfélags ehf. Í húsinu verða iðngarðar auk þess sem að október næst komandi mun Slökkvilið Borgarbyggðar flytja starfsstöð sína á Hvanneyri í hluta hússins. Í liðinni viku var samningur þar að lútandi undirritaður á byggingarsvæðinu á Hvanneyri. Sá hluti sem slökkviliðið tekur á leigu er samtals 283 fermetrar að stærð. Þar verður bílasalur sem rúmar tvær slökkvibifreiðar og vatnsinntak fyrir fyllingu slökkkvibifreiða innandyra, gallarými, salerni, sturtur og afeitrunaraðstaða, starfsmannaaðstaða og vinnurými. Húsnæðið leysir af hólmi bráðabirgðahúsnæði sem slökkviliðið hefur haft til afnota frá Landbúnaðarháskóla Íslands undanfarin ár.
Slökkvistöðin á Hvanneyri gegnir lykilhlutverki í bráðaviðbragði víðs vegar í Borgarbyggð og í Skorradal og er fyrsta aðstoð við stöðvarnar í Borgarnesi og í Reykholti. Ný slökkvistöð á Hvanneyri gjörbreytir aðstæðum fyrir mannskap, bíla og búnað.
Myndin var tekin er samningur var handsalaður um langtímaleigu á húsnæði fyrir slökkvistöð Slökkviliðs Borgarbyggðar á Hvanneyri. Frá vinstri: Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri, Birkir Þór Guðmundsson sem stendur að uppbyggingunni og Heiðar Örn Jónsson slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð.
Tengdar fréttir

Söfnun rúlluplasts hefst 30. ágúst
Söfnun á rúlluplasti hefst helgina 30.–31. ágúst. Bílstjóri mun hafa samband við þá aðila sem plast hefur verið sótt til áður. Gert er ráð fyrir að byrja vestan við Borgarnes og halda áfram í Norðurárdal, Stafholtstungur og svo framvegis. Bændur eru vinsamlegast beðnir um að hafa plastið aðgengilegt og vel pakkað til að auðvelda söfnunina.

Framkvæmdir við nýtt fjölnota íþróttahús í Borgarbyggð ganga vel
Framkvæmdir við nýtt fjölnota íþróttahús í Borgarbyggð ganga vel og samkvæmt áætlun. Stálgrind er að rísa þessa dagana og komin er ágætis mynd af verkinu. Ístak og Efla leggja áherslu á að framkvæmdirnar gangi vel og öryggi allra sé tryggt. Þegar framkvæmdir hófust voru settar upp auknar öryggisráðstafanir fyrir gangandi vegfarendur vegna aukinnar þungaumferðar. Öryggisráðstafanir þessar hafa einnig gengið vel, …