9. apríl, 2024
Fréttir

Rekstur A-hluta Borgarbyggðar var gerður upp með 462 m.kr. afgangi á árinu 2023. Það er talsvert hagstæðari niðurstaða heldur áætlun gerði ráð fyrir og betri afkoma en árið á undan. Sjóðstreymi Borgarbyggðar var sterkt á árinu 2023. Veltufé frá rekstri nam 961 m.kr. eða 16,1% af rekstrartekjum og handbært fé frá rekstri var 971 m.kr. Sterkt sjóðstreymi var nýtt til að greiða niður skuldir og að búa í haginn fyrir framkvæmdir.

Fyrir dyrum standa verulegar fjárfestingar hjá Borgarbyggð. Hafin er endurbygging Grunnskóla Borgarfjarðar – Kleppjárnsreykjadeild og mun sá hluti sem nú er hafinn kosta liðlega 1,0 ma.kr. króna, endurbætur standa yfir á húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi og framundan á húsnæði Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi, í sumar verður ráðist í endurnýjun á götum og gatnagerð fyrir nýja íbúabyggð og atvinnuhúsnæði. Þá er fyrirhugað að bjóða út byggingu á fjölnota íþróttahúsi og stækkun á leikskólanum Uglukletti á seinni hluta árs.

Mikilvægt er fara sér hægt í nýrri lántöku og verður byggt á sterkri lausafjárstöðu eins og hægt er. Hreinar skuldir Borgarbyggðar munu hins vegar aukast á yfirstandandi ári og því fyrirsjáanlegt að fjármagnskostnaður 2024 verði töluvert hærri en á liðnu ári með samsvarandi neikvæðum áhrifum á rekstrarafgang.

Skuldir og skuldaviðmið lækka

Skuldastaða Borgarbyggðar var í lok árs 2023 hagstæðari en áætlað var. Heildarskuldir og skuldbindingar í lok árs 2023 námu 3,9 ma.kr. og lækkuðu lítið eitt milli ára. Hreinar vaxtaberandi skuldir, án lífeyrisskuldbindinga, voru 1.233 m.kr. í lok árs sem er lækkun um 287 m.kr. á milli ára. Skuldaviðmið A-hluta skv reglugerð var 22% í lok árs, en var 32% árið áður, og heildarskuldir sem hlutfall af tekjum 64,9%.

Bókfært eigið fé Borgarbyggðar var tæpir 6,0 ma.kr. í árslok 2023 og eiginfjárhlutfall var 60,6%. Heildareignir A-hluta Borgarbyggðar í árslok 2023 námu 9,8 ma.kr. og jukust um 12,1% milli ára.

Engin ný langtímalán voru tekin en fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 498 m.kr. sem samvarar því sem greitt var inn á fjárskuldbindingar. Fjárfest var fyrir samtals 303 m.kr. sem er heldur lægri fjárhæð en áætlað var.

Borgarbyggð er vel í stakk búin til að ráðast í tímabærar fjárfestingar í skólum, íþróttamannvirkjum, gatnaframkvæmdum og öðrum innviðum sem eru inni í áætlunum sveitarfélagsins. Áfram þarf að gæta að hagkvæmni í rekstri og leita leiða til að hagræða í fjárbindingu.

Tæplega 15% vöxtur tekna

Tekjur Borgarbyggðar voru  5,7 ma.kr. og jukust um 14,6% milli ára. Hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 633 m.kr. eða 10,6% af rekstrartekjum. Afskriftir voru 161 m.kr. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um aðeins 11 m.kr. sem er talsvert hagfelldari niðurstaða en áætlað hafði verið í ljósi verðbólgu. Borgarbyggð greiddi inn á verðtryggð lán í upphafi árs, naut vaxtatekna af sterkri lausafjárstöðu og arður af eignarhlutum var 121 m.kr. sem færist meðal fjármagnsliða.

Þrátt fyrir uppgreiðslu skulda styrktist staða handbærs fjár á árinu 2023 og var í lok árs 581 m.kr.

385 m.kr. afgangur af rekstri samstæðunnar

Samstæða Borgarbyggðar var gerð upp með 385 m.kr. afgangi árið 2023, samanborið við 368 m.kr. afgang árið áður. Áhrif af sorphirðu, félagslegum íbúðum og ljósleiðara leiddu til lækkunar á afkomu milli A-hluta og samstæðu og vegur þar þyngst neikvæð afkoma af sorphirðu. Meðal annarra eignarhluta sem teljast til samstæðu má nefna 4,1% eignarhlut í Faxaflóahöfnum, Hjálmaklett, Menntaskóla Borgarfjarðar og Fasteignina Brákarhlíð.

Tekjur samstæðu Borgarbyggðar voru 6.855 m.kr. árið 2023 og jukust um 13,2% milli ára. Hagnaður fyrir afskriftir var 799 m.kr., samanborið við 823 m.kr. árið áður, og veltufé frá rekstri samstæðunnar var 995 m.kr.

Heildareignir samstæðu Borgarbyggðar voru bókfærðar á 12.051 m.kr. og eigið fé samstæðu í árslok var 6.290 m.kr..

Sjóðflæði ársins 2023 var talsvert sterkara en áætlanir gerðu ráð fyrir og skuldastaða hagstæðari. Borgarbyggð er vel í stakk búin til að ráðast í tímabærar fjárfestingar í skólum, íþróttamannvirkjum, gatnaframkvæmdum og öðrum innviðum sem eru inni í áætlunum sveitarfélagsins. Áfram þarf að gæta að hagkvæmni í rekstri og leita leiða til að hagræða í fjárbindingu.

Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2023 var tekin fyrir á fundi byggðarráðs í 9. apríl og var vísað til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Tengdar fréttir

6. júní, 2023
Fréttir

241. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar

Fundarboð

6. júní, 2023
Fréttir

Umhverfisviðurkenningar – tilnefningar

Umhverfis- og landbúnaðarnefnd veitir árlega viðurkenningar fyrir snyrtilegar og fallegar lóðir og hvetur íbúa til að taka þátt í að gera ásýnd sveitarfélagsins sem besta.