Maí tók á móti okkur brosandi með grænu grasi og fuglasöng.
Í byrjun maí var starfsdagur hjá okkur þar sem við endurmátum starf vetrarins og fórum yfir alla þætti innan starfsins. Tilgangur þessa er sá að líta til baka, skrifa söguna og svo að sjálfsögðu að ígrunda störf okkar og læra af því sem vel hefur verið gert og bæta það sem er ábótavant, þannig sjáum við líka hvort við höfum náð þeim markmiðum sem við höfðum sett okkur yfir veturinn. Það er mjög mikilvægt að allir starfsmenn taki þátt í að endurmeta starfið, þannig fást sjónarhorn allra sem vinna í Uglukletti. Þess vegna eru starfsdagar í leikskóla mjög mikilvægir fyrir starfið.
Á fimm ára fresti búum við okkur til matsáætlun til næstu fimm ára. Er það gert út frá aðalnámskrá, skólastefnu Borgarbyggðar og skólanámskrá Uglukletts. Út frá matsáætluninni sjáum við hvaða þætti við ætlum að leggja áherslu á og hvaða þætti við ætlum sérstaklega að endurmeta þann veturinn. Þegar við svo endurmetum þessa þætti, ásamt fleiri þáttum búum við okkur til umbótaáætlun sem við höfum til hliðsjónar fyrir næsta vetur, sem fer svo inn í starfsáætlun vetrarins sem við endurmetum svo að vori aftur. Þannig erum við í sífellu að ígrunda skólastarfið og endurmeta og sjá hvað vel er gert og hvað má bæta.
Við erum búin að vera dugleg að fara í fjöruna í maí og skoða fuglalífið og drullumalla. „Besta“ góðviðrisdaginn í maí fóru elstu börnin að vaða í fjörunni og þurftu margir að fá þurr föt eftir það ferðalag.
Í lok maí fengum við tuttugu og þriggja manna hóp gesta til okkar frá Slóveníu. Voru það fulltrúar frá 12 leik- og grunnskólum ásamt aðilum frá „skólaþjónustu“ í Slóveníuhreppi. Þessir gestir fengu fræðslu um Ugluklett og hvernig íslenska menntakerfið er upp byggt og hvernig það virkar. Okkur í Uglukletti þykir alltaf gaman að fá gesti og sérstaklega gesti erlendis frá sem dást að umhverfinu sem við erum svo heppin með.
Vinna við hönnun viðbyggingar í Uglukletti er í fullri vinnslu og eru allir mjög spenntir fyrir því verkefni. Því tengdu þá var smíðadagur hjá okkur einn daginn og höfðu sumir orð á því að þeir væru að byggja nýjan Uglukletta. Svo það má segja að framkvæmdir séu hafnar.
Karolína kónguló sem hefur átt heima á Grettisbæli dafnaði vel í maí og var fylgst vel með henni á hverjum morgni og reyndar allan daginn.
Síðast en ekki síst er gaman að segja frá því að 28. maí útskrifuðum við 20 barna hóp úr Uglukletti sem ætlar að setjast á grunnskólabekk næsta vetur. Dagurinn þeirra bauð upp á ferðalag upp í Paradísarlaut ásamt kennurum og foreldrum. Klukkan fjögur var svo haldin hátíðleg útskrift í Hjálmakletti þar sem húsnæði Uglukletts er orðið of lítið fyrir svo stórar samkomur. Í útskriftina komu rúmlega 100 manns sem áttu góða stundir. Meðal annar höfðu börnin sjálf búið til leikrit sem þau sýndu. Í lokin var boðið upp á safa, kaffi og köku sem börnin höfðu pantað hjá Pálu. Þess má geta að börnin sáu alfarið um að skipuleggja hvað þau ætluðu að gera við útskriftina og er það einn liður í lýðræði okkar í Uglukletti. Dagurinn er jú þeirra 😊.
Við bíðum spennt eftir því hvað júní á eftir að færa okkur