Þann 9. 2021 júní útskrifuðust 23 slökkviliðsmenn í Slökkviliði Borgarbyggðar úr námi Brunamálaskóla Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar. Um er að ræða 5 námskeið sem haldin hafa verið frá janúar 2020 og fram í maí 2021.
Á námskeiðunum lærðu menn fræðin bakvið vatnsöflun, grunnatriði í reykköfun, reykköfun við erfiðar aðstæður, reykköfun í miklum hita, björgun fólks við erfiðar aðstæður, björgun fólks úr bílflökum, eiturefnaslys, eðli elds, þróun innanhúsbruna, stútatækni og öllu því sem við kemur starfi slökkviliða. Hópurinn hefur lagt mikla vinnu í sína menntun og þrátt fyrir Covid takmarkanir og annasamt ár voru þeir að uppskera árangur erfiðisins í gær og fengu afhentar sínar diplómur og löggildingar sem slökkviliðsmenn. Slökkvilið Borgarbyggðar óskar útskriftarhóp innilega til hamingju með árangurinn og óskum við einnig íbúum Borgarbyggðar innilega til hamingju með vel menntaða, vel þjálfaða og öfluga slökkviliðsmenn!