17. desember, 2024
Allar fréttir

Nú er aðventan gengin í garð með tilheyrandi undirbúningi, notalegheitum, söng og föndri. Þetta er alltaf skemmtilegur tími í leikskólanum og eru börnin full tilhlökkunar fyrir öllu því sem er að gerast á þessum tíma árs. Í leikskólanum reynum við að skapa rólega stemmningu, við lesum mikið bækur, föndrum í rólegheitum og hlustum á og syngjum jólalög.

Við fengum góða heimsókn frá leikkonunni Þórdísi Arnljótsdóttur sem setti upp Leikhús í tösku – Grýla og jólasveinarnir og skemmtu börn og starfsfólk sér mjög vel.

Litlu jólin voru haldin hátíðleg hjá okkur föstudaginn 13. desember, það var gaman að sjá alla í sínu fínasta pússi og leikskólinn okkar kominn í hátíðarbúning alskreyttur með verkum og jólaföndri allra barnanna. Jólaballið gekk mjög vel og var dansað í kring um jólatréð við gömlu góðu jólalögin. Það var heldur betur kátt í Klettaborg þegar að jólasveinninn Ketkrókur mætti á svæðið og gaf öllum pakka. Í hádeginu reiddu Thelma og Heba fram dýrindis jólamat sem var borðaður með bestu lyst. Börnin fóru svo með gjafir heim fyrir foreldra sína sem þau hafa unnið að við að gera undanfarnar vikur.

Heiðrún Bjarnadóttir Prestur bauð elstu börnunum í heimsókn í kirkjuna, maula smákökur, drekka capri sun og hafa stutta samveru. Engin boðun, bara tala um jólin og leyfa börnunum að sjá kirkjuna að innan og syngja saman eitt jólalag eða tvö.

Við óskum þess að öll megum við eiga gleðilega aðventu og friðsamleg jól.

Tengdar fréttir