roofing

Á Hvanneyri í Borgarbyggð eru lausar til úthlutunar 22 lóðir til uppbyggingar á íbúðarhúsnæði. Lóðirnar eru í Flatahverfi sem er nýtt hverfi vestast á Hvanneyri. Um er að ræða tólf lóðir fyrir einbýlishús við Rjúpuflöt og Þrastarflöt, fjórar parhúsalóðir og sex lóðir fyrir raðhús.

Hér má finna nánari upplýsingar um lóðirnar og deiliskipulagsuppdrætti.

Hvanneyri er liðlega 300 manna þéttbýli um 80 km. frá Reykjavík og 14 km. frá Borgarnesi. Á Hvanneyri starfrækir Grunnskóli Borgarfjarðar deild upp í fimmta bekk og þar er nýlegur leikskóli, Andabær, í þremur deildum með stóra skólalóð þar sem náttúran nýtur sín. Andabær er staðsettur í hinu nýja Flatahverfi og getur bætt við sig börnum frá tólf mánaða aldri.

Hvanneyri er miðstöð umhverfis- og matvælarannsókna. Landbúnaðarháskóli Íslands er á Hvanneyri og fer þar fram alþjóðlegt háskólanám á sviði ræktunar, matvælaframleiðslu, umhverfismála, skipulags og hönnunar. Skólinn er í mikilli sókn í rannsóknum og kennslu, innanlands og á alþjóðavísu.

Á Hvanneyri mun í haust opna skrifstofa Háskólans á Bifröst í Borgarbyggð en reglubundin kennsla í skólanum fer nú fyrst og fremst fram í fjarnámi en á Hvanneyri munu fara fram staðlotur skólans. Hvanneyri styrkist þar með enn frekar sem miðstöð menntunar, rannsókna og fræða.

Þá er á Hvanneyri staðsett ýmis ráðgjafaþjónusta fyrir landbúnaðinn, Umhverfisstofnun hefur þar starfsstöð, verkfræðistofa, iðnaður, vélasafn og handverk svo eitthvað sé nefnt.

Stutt er í Borgarnes að sækja alla almenna þjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu og verslun.

Á Hvanneyri er gott samfélag í fallegu umhverfi sem byggir á gömlum grunni rannsókna, menntunar og skólastarfs og hefur mikla möguleika til vaxtar.