roofing

Sækja þarf um byggingarleyfi til að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útlit og formi. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.

Með mannvirki er átt við hvers konar jarðfasta manngerða smíði, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagna. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja.

Undantekning frá byggingarleyfisskyldu eru þó fráveitumannvirki og dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta og breytingar á slíkum mannvirkjum en sækja þarf um framkvæmdaleyfi hjá skipulagsfulltrúa fyrir fyrrgreindum framkvæmdum. Sækja þarf hins vegar um byggingarleyfi vegna bygginga sem tengdar eru fráveitumannvirkjum og dreifi- og flutningskerfum hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta, þ.m.t. fjarskiptamöstrum, tengivirkjum og móttökudiskum.

Hvernig skal sækja um byggingarleyfi?
Húseigendur og lóðarhafar eða hönnunarstjóri í umboði þeirra geta sótt um byggingaleyfi.Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 ber húseigendum að ráða löggiltan hönnunarstjóra.
Hönnunarstjóri hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á því að hönnunargögn séu til staðar og með þeim hætti sem byggingarleyfisumsókn og framkvæmd krefst. Hönnunarstjóri er að öllu jöfnu sá aðili sem annast öll samskipti við embætti byggingarfulltrúa þegar sótt er um byggingarleyfi.Ekki er tekið á móti hönnunargögnum eða skráningu á iðnmeisturum eða byggingarstjórum nema að viðkomandi aðili sé á lista Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (www.hms.is) og að hann eða hún hafi tekið upp gæðastjórnunarkerfi frá og með 1. janúar 2015, sbr. lög um mannvirki nr. 160/2010.
Sækja skal um byggingarleyfi með góðum fyrirvara þar sem umfjöllun um umsóknir getur tekið nokkrar vikur. Óheimilt er að hefja framkvæmdir áður en byggingarleyfi hefur verið gefið út. Byggingarfulltrúi afgreiðir allar umsóknir um byggingarleyfi og tilkynningaskyldar framkvæmdir á afgreiðslufundum sem haldnir eru einu sinni í mánuði. Að fundi loknum fá umsækjendur senda tilkynningu um afgreiðslu málsins og hvaða gögnum er óskað eftir. Fundargerð er jafnframt færð inn á vef Borgarbyggðar strax að fundi loknum.
Ef byggingaráform eru ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag er umsókn lögð fyrir til umfjöllunar hjá skipulags- og byggingarnefnd. Fundir skipulags- og byggingarnefndar að jafnaði haldnir fyrsta föstudag hvers mánaðar.Sækja þarf um byggingarleyfi á þjónustugátt Borgarbyggðar.  Með umsókn skulu fylgja aðaluppdrættir, útfylltur gátlisti vegna aðaluppdrátta og önnur viðeigandi fylgiskjöl varðandi umsókn (leiðbeiningar). Ekki er krafist að skila inn teikningum á pappír fyrr en að málið hefur verið samþykkt og nægir að fá teikningar á PDF-formati til yfirferðar.