Dagskrá
1. Umræða um stöðu leiðar 81
2511064
Framlagt sameiginlegt bréf Borgarbyggðar, Menntaskóla Borgarfjarðar og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi til Vegagerðarinnar vegna fyrirhugaðra breytinga á leið 81.
Bréf framlagt en það hefur verið sent til Vegagerðarinnar og þingmanna kjördæmisins. Byggðarráð Borgarbyggðar hvetur Vegagerðina, innviðaráðherra og Alþingi að taka til greina þau sjónarmið sem fram koma í bréfinu og fram hafa komið í mótmælum sveitarstjórnar Borgarbyggðar og falla frá þeim áformum að leggja niður leið 81.
Samþykkt samhljóða.
Fylgiskjöl
2. Stjórnsýslukæra_sameiningakosningar_2025- Mál IRN25090129
2510014
Framlagður úrskurður innviðaráðuneytisins dags. 12. desember 2025 um stjórnsýslukæru um lögmæti og framkvæmd íbúakosninga um sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps, mál nr. IRN25090129.
Úrskurður framlagður en í úrskurðarorðum er hafnað kröfu kæranda, Péturs Davíðssonar, um að íbúakosningar um sameiningu Skorradalshrepps og Borgarbyggðar, sem fram fóru dagana 5.-20. september 2025, verði felldar úr gildi.
Fylgiskjöl
3. Stjórnsýslukæra_sameiningakosningar_2025- Mál nr. IRN25090119
2510013
Framlagður úrskurður innviðaráðuneytisins dags. 12. desember 2025 um stjórnsýslukæru um lögmæti og framkvæmd íbúakosninga um sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps, mál nr. IRN25090119.
Úrskurður framlagður en í úrskurðarorðum er hafnað kröfu kærenda, Péturs Davíðssonar og Óla Rúnars Ástþórssonar, um
að íbúakosningar um sameiningu Skorradalshrepps og Borgarbyggðar, sem fram fóru dagana 5.-20. september sl., verði felldar úr gildi.
Fylgiskjöl
4. Brattagata - Gatnaframkvæmdir
2510327
Farið yfir hönnunarkostnað á gatnaframkvæmd við Bröttugötu, um er ræða kostnað Borgarbyggðar fyrir gatnahönnun, til viðbótar er hönnunarkostnaður fyrir snjóbræðslu í brekkuhluta Bröttugötu. Ottó Ólafsson verkefnastjóri á skipulags- og byggingarsviði kemur til fundarins.
Framlagt minnisblað starfsmanns. Byggðarráð tekur vel í þær hugmyndir að bæta við hönnun á snjóbræðslu í götuna og gangstétt og samþykkir að miðað verði við þá útfærslu við hönnun og gerð útboðsgagna.
Samþykkt samhljóða.
5. Ugluklettur - Stækkun
2212062
Lagt fram minnisblað um viðbótar hönnunarkostnað vegna Leikskólans við Ugluklett en Ferill verkfræðistofa hefur sent tilboð í viðbótarhönnun á séruppdráttum fyrir eldri húsnæðishluta.
Byggðarráð samþykkir að ganga að tilboði Ferils í gerð séruppdrátta við eldri hluta Uglukletts samhliða vinnu við nýbyggingu. Í því felst verulegt hagræði í vinnu við nýbyggingu og endurbætur leikskólans.
Samþykkt samhljóða.
Ottó Ólafsson fór af fundi.
6. Siglingamerki í Borgarfirði og við innsiglingu að Borgarneshöfn
2512091
Framlagt minnisblað frá yfirhafnsögumanni Faxaflóahafna sem fjallar m.a. um vita og leiðarmerki í Borgarfirði og við innsiglinguna að Borgarneshöfn.
Í minnisblaðinu kemur fram að vegna mikils sandburðar á hafnarsvæðinu, sem hófst eftir gerð Borgarfjarðarbrúar þá hefur dýpi minnkað mjög og einnig hefur dýpi á vissum stöðum Borgarfjarðar verið mjög breytilegt. Er svo komið að núverandi siglingamerki eru skv minnisblaðinu ekki áreiðanleg og gefa ekki rétta mynd af öruggri innsiglingu til hafnar í Borgarnesi. Fram kemur að notkun hafnarinnar í Borgarnesi er mjög lítil og einskorðast við nokkra frístundabáta í eigu staðkunnugra manna. Þá segir að ekki sé lengur hægt að mæla með siglingu um Borgarfjörð og til Borgarneshafnar nema fyrir þá sem kunnugir eru staðháttum. Í minnisblaðinu er lagt til að Faxaflóahafnir fái heimild til að leggja niður tvo hafnarvita og tvö leiðarmerki við bryggjuna í Borgarnesi. Byggðarráð felur sveitarstjóra að óska eftir frekari upplýsingum um þessar tillögur ekki síst í ljósi þess að í tengslum við uppbyggingu í Brákarey er til skoðunar að auka umsvif smábáta í Borgarneshöfn.
Samþykkt samhljóða.
Fylgiskjöl
7. Erindi til fjarskiptafyrirtækja um bætt samband í vestanverðri Borgarbyggð
2412227
Framlagt minnisblað frá Neyðarlínunni sem er stöðugreining varðandi úrbætur á fjarskiptasambandi við Grjótárvatn og Hítardal.
Í minnisblaðinu er lögð fram tillaga að fyrirkomulagi og staðsetningu á uppsetningu á grunninnviðum til að styrkja fjarskiptasamband á svæðinu ásamt grófu kostnaðarmati á uppsetningu og rekstri. Byggðarráð þakkar Neyðarlínunni fyrir góða vinnu og felur sveitarstjóra að kanna grundvöll þess að ráðast í verkefnið í samstarfi við innviðaráðuneytið, hlutaðeigandi stofnanir ríkisins, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og fjarskiptafyrirtæki.
Samþykkt samhljóða.
Fylgiskjöl
8. Framkvæmdir RARIK 2026 í Borgarbyggð
2512079
Lagt fram til kynningar yfirlit frá RARIK um helstu verkefni sem eru á áætlun ársins 2026 í Borgarbyggð.
Byggðarráð þakkar RARIK fyrir gagnlegt yfirlit. RARIK hyggst leggja í þrjú stór verkefni í Borgarbyggð á árinu 2026 en þau eru; sverun jarðstrengja frá Vatnshömrum og yfir Hvítá, lagning nýrra stofnstrengja yfir Borgarfjarðarbrú og í Borgarnes í samstarfi við önnur veitufyrirtæki og lagning þriggja jarðstrengja frá Vatnshömrum að Borgarfjarðarbrú. Fleiri verkefni eru á dagskrá í tengslum við gatnagerð í nýjum hverfum, endurnýjun gatna, stækkun heimtauga og uppsetning rofastöðva. Byggðarráð væntir góðrar samvinnu við RARIK í tengslum við verkefni ársins.
Fylgiskjöl
9. Gatnagerðargjöld í Borgarbyggð - samanburður
2512090
Umræða um gatnagerðargjöld í Borgarbyggð og samanburð við önnur sveitarfélög.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að taka saman samanburð á gatnagerðargjöldum í Borgarbyggð og öðrum sveitarfélögum.
Samþykkt samhljóða.
10. Skammtímadvöl fyrir fötluð börn og ungmenni
2501058
Framlögð viljayfirlýsing sveitarfélaga á Vesturlandi og Þroskahjálpar á Vesturlandi um uppbyggingu skammatímadvalar fyrir fötluð börn. Málið hefur verið til umræðu og afgreiðslu á fundum velferðarnefndar Borgarbyggðar nr. 165 og 166.
Byggðarráð tekur heils hugar undir með velferðarnefnd um þátttöku Borgarbyggðar í samstarfi sveitarfélaga á Vesturlandi og Þroskahjálpar um uppbyggingu skammtímadvalar fyrir fötluð börn og samþykkir fyrir sitt leyti undirritun viljayfirlýsingar þar að lútandi.
Samþykkt samhljóða.
11. Samgönguáætlun 2026-2030
2512053
Innviðaráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2026 - 2040 ásamt fimm ára
aðgerðaáætlun fyrir árin 2026 - 2030.
Því miður fela drög að Samgönguáætlun 2026-2040 í sér litlar breytingar á áætlun um nýframkvæmdir á Vesturlandi og í Borgarbyggð. Hluturinn er áfram mjög rýr. Þá veldur vonbrigðum að svo virðist sem að vegakerfið í Borgarbyggð muni að mjög litlu leyti njóta góðs af hækkun framlaga til viðhalds og tengivega. Það er óásættanlegt. Byggðarráð styður að auknu fjármagni verði ráðstafað í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar sem vonandi leiðir til þess að samgönguöryggi yfir vetrarmánuði eykst. Þau áform rýma vel við þann metnað sem lagður er í vetrarþjónustu af hálfu sveitarfélagsins í Borgarbyggð. Byggðarráð felur sveitarstjóra að óska eftir sundurliðun á úthlutun þess fjármagns sem áætlað er að setja í tengivegi skv. drögum að samgönguáætlun.
Samþykkt samhljóð.
Fylgiskjöl
12. Mælaborð um rekstur Borgarbyggðar
2401059
Farið yfir þróun rekstrar og fjárfestinga fyrstu tíu mánuði ársins 2025. Hlöðver Ingi Gunnarsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs, Eiríkur Ólafsson fjármálastjóri og Kristín Lilja Lárusdóttir aðalbókari koma til fundarins.
Farið yfir rekstur Borgarbyggðar á fyrstu tíu mánuðum ársins.
13. Samræmd móttaka flóttafólks
2303023
Farið yfir þróun í fjárhagsaðstoð við flóttafólk í sveitarfélaginu. Jafnframt lögð fram drög að erindi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með beiðni um stuðning vegna annars kostnaðar sem sveitarfélagið hefur axlað vegna málsins.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að fullvinna framlögð drög og senda til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Byggðarráð harmar þau rýru viðbrögð sem borist hafa frá ráðuneyti félagsmála og þingmönnum við þeirri sérstöku stöðu að um 5% íbúa Borgarbyggðar séu flóttamenn sem mest megnis búa á einum og sama staðnum fjarri þjónustu og atvinnu og stór hluti þeirra reiði sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins sér til framfærslu. Sú staða er verulega íþyngjandi fyrir fjárhag sveitarfélagsins. Byggðarráð þakkar framlagða fyrirspurn Ingibjargar Davíðsdóttur á Alþingi um áform og ábyrgð félagsmálaráðuneytisins er varðar þessa stöðu. Um leið lýsir byggðarráð yfir vonbrigðum með að ekkert sé í hendi um að komið verði til móts við kostnað sveitarfélagsins. Byggðarráð felur sveitarstjóra að óska eftir fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar með ráðherra málaflokksins og þingmönnum Norðvesturkjördæmis vegna þessarar stöðu.
Samþykkt samhljóða.
Bjarney L. Bjarnadóttir, Hlöðver Ingi Gunnarsson, Eiríkur Ólafsson og Kristín Lilja Lárusdóttir fóru af fundi.
14. Samband ísl. sveitarfélaga - fundargerðir 2025
2501012
Framlagðar fundagerðir 989. og 990. fundar stjórnar sambands íslenskra sveitarfélaga.
Fylgiskjöl
15. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga 2025
2503350
Lögð fram tillaga að 600 m.kr. langtímalántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga til að greiða um skammtíma framkvæmdalán hjá sjóðnum.
Byggðarráð Borgarbyggðar samþykkir hér með lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga að útgreiðslufjárhæð samtals kr. 600.000.000,- með fyrirvara um staðfestingu sveitarstjórnar á endanlegum lánasamningi. Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að til tryggingar láninu (höfuðstólsfjárhæðinni, uppgreiðslugjaldi, auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standi tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til að fjármagna endurbyggingu grunnskóla sveitarfélagsins á Kleppjárnsreykjum.
Jafnframt er Stefáni Brodda Guðjónssyni, sveitarstjóra, kt. 230771-4649, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Borgarbyggðar að undirrita lánssamninga við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun lána. Afgreiðsla þessi verði lögð fram til staðfestingar á fundi sveitarstjórnar.
Samþykkt samhljóða.
16. Eigendanefnd Orkuveitunnar
2512102
Lögð fram endurskoðuð drög að erindisbréfi eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir að Reykjavíkurborg tilnefni fjóar aðila í nefndina en Akraneskaupstaður og Borgarbyggð tvo hvort sveitarfélag.
Byggðarráð tilnefnir Sigurð Guðmundsson og Davíð Sigurðsson sem fulltrúa Borgarbyggðar í eigendanefnd Orkuveitunnar.
Samþykkt samhljóða.
17. Fjárhagsáætlun Skorradalshrepps 2026 - til kynningar
2511065
Fjárhagsáætlun Skorradalshrepps 2026 ásamt fjárheimildum áranna 2027-2029 lögð fram.
Byggðarráð staðfestir fyrir sitt leyti fjárhagsáætlun Skorradalshrepps 2026 ásamt fjárheimildum áranna 2027-2029.
Samþykkt samhljóða.
18. Viðauki við fjárhagsáætlun Skorradalshrepps 2025
2512109
Viðauki við fjárhagsáætlun Skorradalshrepps 2026 lagður fram.
Byggðarráð staðfestir fyrir sitt leyti framlagðan viðauka.
Samþykkt samhljóða.