Velferðarnefnd Borgarbyggðar

166. fundur

9. desember 2025 kl. 14:00 - 15:00

í fundarsal að Digranesgötu 2


Nefndarmenn

Guðveig Eyglóardóttir - formaður
Kristín Erla Guðmundsdóttir - aðalmaður
Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir - aðalmaður
Kristján Ágúst Magnússon - aðalmaður
Sigrún Ólafsdóttir - varamaður

Starfsmenn

Erla Björg Kristjánsdóttir - félagsmálastjóri
Fundargerð ritaði: Erla Björg Kristjánsdóttir - félagsmálastjóri


Dagskrá

1. Trúnaðarbók 2025
2501057

Lagðar fram afgreiðslur starfsmanna frá síðasta fundi og afgreiddar umsóknir um fjárhagsstyrk.

Óheimilt er að birta afgreiðslu nefndarinnar og starfsmanna opinberlega og því eru afgreiðslur skráðar með formlegum hætti í trúnaðarbók. Það er skýr reglurammi sem nefndin og starfsmenn félagsþjónustu starfa eftir. Reglurnar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins. Nefndin óskar jafnframt eftir því að félagsmálastjóri komi með tillögur að breyttri grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar á næsta fund.



2. Samræmd móttaka flóttafólks
2303023

Þann 28.11.25 sl. fór til umræðu hjá Byggðarráði III viðauki við þjónustusamning um samræmda móttöku flóttafólks. Eftirfarandi er bókun Byggðarráðs: "Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja III. viðauka við þjónustusamning um samræmda móttöku flóttafólks sem felur í sér lækkun á heildarfjölda samnings úr 180 einstaklingum í 140. Með þessari breytingu er dregið úr líkum á fjölgun flóttafólks umfram getu sveitarfélagsins og tryggt að eins miklu leyti og hægt er að fjármagn fylgi þeim sem kunna að flytjast á eigin vegum í sveitarfélagið.

Það er jafnframt nauðsynlegt að í öllum samskiptum vegna þessa máls sé vakin athygli og leitað lausna á þessari þungu stöðu sem Borgarbyggð er í vegna fjárhagsaðstoðar. Samhliða samþykkt verði óskað eftir frekari aðgerðum af hálfu ráðuneyta og stofnana ríkisins til að leysa málið og leiðrétta fjárhagsleg áhrif sem sveitarfélagið hefur orðið fyrir" Bókunin var samþykkt samhljóða.



Haldinn var fundur með Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu þann 04.12.25 þar sem farið var m.a. yfir afstöðu Borgarbyggðar er snýr að bókun Byggðarráðs.



Málið fer til afgreiðslu á næsta sveitastjórnarfundi, þann 12.12.25

Lagt til kynningar. Velferðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að ofangreindar breytingar verði gerðar á viðauka við þjónustusamning um samræmda móttöku.



3. Skammtímadvöl fyrir fötluð börn og ungmenni
2501058

Á síðasta fundi Velferðarnefndar var lýst yfir mikilli ánægju með mögulega aðkomu Þroskahjálpar á Vesturlandi að uppbyggingu skammtímadvalar á Vesturlandi. Nefndin lagði áherslu á að brýnt væri að koma á skammtímadvöl á svæðinu og skrifað yrði undir viljayfirlýsingu milli Þroskahjálpar á Vesturlandi og sveitarfélaga á Vesturlandi.



Þann 03.12.25 skrifaði Borgarbyggð undir sameiginlega viljayfirlýsingu þess efnis að sveitarfélög á Vesturlandi og Þroskahjálp séu með þann sameiginlega vilja til að vinna að framgangi uppbyggingar á skammtímadvöl á Vesturlandi.



Lagt er til að verkefnahópur skili niðurstöðum sínum þann 13.02.25.

Velferðarnefnd fagnar því að Borgarbyggð sé búið að skrifa undir viljayfirlýsinguna.



4. Félagslegt leiguhúsnæði
1810002

Í samræmi við bókun fundar byggðarráðs nr. 713 og velferðarnefndar nr. 164 var lagt fyrir minnisblað á síðasta fundi Byggðarráðs um næstu skref hvað varðar eignarhald og rekstur félagslegs leiguhúsnæðis á vegum Borgarbyggðar.



Bókun Byggðarráðs var eftirfarandi: "Byggðarráð samþykkir þá tillögu sem lögð er fram í minnisblaði að stefna skuli að sölu á hluta þess félagslega leiguhúsnæðis sem er í eigu sveitarfélagsins. Samhliða sölunni tryggi sveitarfélagið leiguhúsnæði fyrir skjólstæðinga í samstarfi við húsnæðissjálfseignarstofnanir (óhagnaðardrifin leigufélög). Byggðarráð felur sveitarstjóra að halda áfram samtali við óhagnaðardrifin leigufélög með það að markmiði að tryggja leigutökum í félagslegu húsnæði hagstæðari búsetu í nýju og væntanlegu húsnæði í Borgarbyggð. Sveitarstjóra falið að vinna stefnu um félagslegt leiguhúsnæði og leggja fyrir sveitarstjórn í janúar. Markmiðið er að tryggja leigutökum hjá félagsþjónustu Borgarbyggðar húsnæði sem fellur betur að þörfum þeirra. Drög að framkvæmdaramma 2026-2029 gerir ráð fyrir húsnæðisframlagi af hálfu sveitarfélagsins í verkefni að þessum toga.

Samþykkt samhljóða"

Lagt til kynningar. Velferðarnefnd lýsir yfir ánægju með minnisblað sem liggur fyrir og leggur áherslu á að unnið verði áfram á þessum grunni.



Fundi slitið - kl. 15:00