Byggðarráð Borgarbyggðar

726. fundur

6. nóvember 2025 kl. 08:15 - 11:30

í fundarsal að Digranesgötu 2


Nefndarmenn

Davíð Sigurðsson - formaður
Guðveig Eyglóardóttir - varaformaður
Thelma Dögg Harðardóttir - áheyrnarfulltrúi
Sigurður Guðmundsson boðaði forföll og Ragnhildur Eva Jónsdóttir - varamaður sat fundinn í hans stað
Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir boðaði forföll og Kristján Rafn Sigurðsson - áheyrnarfulltrúi sat fundinn í hans stað

Starfsmenn

Stefán Broddi Guðjónsson - sveitarstjóri
Lilja Björg Ágústsdóttir - Sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Broddi Guðjónsson - sveitarstjóri


Dagskrá

1. Fjárhagsáætlun 2026
2505064

Farið yfir stöðu vinnu við fjárhagsáætlun 2026. Til fundarins kemur Eiríkur Ólafsson fjármálastjóri.

Drög að áætlun um rekstur 2026 og fjárfestingar 2026-2029 rædd og kynnt. Lagt til að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt milli ára 14,97%. Drögum að fjárhagsáætlun er vísað til fyrri umræðu í sveitarstjórn sem fram fer 13. nóvember næst komandi og í framhaldinu til kynningar í sveitarstjórn Skorradalshrepps.



Samþykkt samhljóða.





2. Gjaldskrár 2026
2510200

Lagðar fram tillögur að uppfærðum gjaldskrám fyrir árið 2026.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá hjá Hjálmaklett. Vísað til samþykktar í sveitarstjórn.



3. Mælaborð um rekstur Borgarbyggðar
2401059

Farið yfir þróun rekstrar og fjárfestinga fyrstu níu mánuði ársins 2025.

Farið yfir þróun rekstrar og fjárfestinga fyrstu níu mánuði ársins. Tekjuþróun hefur verið jákvæðari yfir tímabilið heldur en staða við uppgjör fyrstu sex mánaða gaf til kynna. Það skýrist aðallega af jákvæðari þróun útsvarstekna. Horfur í rekstri hafa því styrkst.



4. Viðauki við fjárhagsáætlun 2025
2502016

Lögð fram viðbót við viðauka V við fjárhagsáætlun 2025.

Lögð fram viðbót við viðauka V við fjárhagsáætlun 2026. Í viðbótinni er uppfærsla á áætlun sem tengist breytingum á rauntölum 2024 og áætlunar sem var grunnur áætlunar 2025. Samtals eru áhrif á rekstraráætlun samstæðu neikvæð um 74,3 m.kr. sem skýrist af áhrifum samstarfsverkefna en um er að ræða reikningsleg áhrif af afskriftum og fjármagnsliðum.

Lögð er til sú breyting á fjárfestingaráætlun að stofnaður verði liðurinn bílastæði í Borgarnesi og þar veitt heimild að fjárhæð 5,1 m.kr. en á móti lækkar rammi vegna stígagerðar um samsvarandi fjárhæð. Þá er lögð til hækkun á ramma vegna framkvæmda við GBF á Kleppjárnsreykjum um 12,0 m.kr. sem leiðir til þess að áður samþykkt lækkun á rammanum verður 21,0 m.kr. í stað 33,0 m.kr. sbr. afgreiðslu byggðarráðsfundar nr. 723.



Samþykkt samhljóða og vísað til fullnaðarafgreiðslu í sveitarstjórn.



5. Hrafnaflöt 2,4,6 - Umsókn um lóð
2510341

Lögð fram umsókn um lóðirnar Hrafnaflöt 2, 4 og 6 á Hvanneyri.

Byggðarráð samþykkir að úthluta lóðunum Hrafnaflöt 2, 4 og 6 til Trésmiðjunnar Akurs ehf. með fyrirvara um breytingu á deiliskipulagi.



Samþykkt samhljóða.



6. Janus heilsuefling
2306047

Þann 09.09.25 sl. kynnti Ragnar Örn Kormáksson nýr framkvæmdarstjóri hjá Janus heilsueflingu nýtt greiðslufyrirkomulag fyrir Velferðarnefnd Borgarbyggðar. Óskaði nefndin eftir nýju tilboði er snýr að áframhaldandi samstarfi við Janus heilsueflingu. Tilboðið felur m.a. í sér fasta greiðslu á mánuði sem sveitarfélagið greiðir en Janus sér um að innheimta öll þátttakendagjöld, sér alfarið um þjálfun, ráðningar, auk þess að sjá um mælingar, skýrslugjöf og skipuleggur uppbrot og fleira. Bókun velferðarnefndar var eftirfarandi: Velferðarnefnd telur að nýtt greiðslufyrirkomulag sé bæði hagkvæmara fyrir sveitarfélagið og veiti meiri fyrirsjáanleika þegar kemur að kostnaði og fyrirkomulagi. Velferðarnefnd samþykkir því fyrir sitt leyti að gengið verði til áframhaldandi samninga við Janus heilsueflingu, og valin verði þjónustuleið 1. Leggur nefndin áherslu á að nýr samningur verði til tveggja ára. Er málinu vísað til Byggðarráðs. Meðfylgjandi er tilboð frá Janusi heilsueflingu.

Byggðarráð samþykkir tillögu Velferðarnefndar um að ganga til áframhaldandi samninga við Janus heilsueflingu og að valin verði þjónustuleið 1 og miðað við samning til tveggja ára.



Samþykkt samhljóða.



7. Endurheimt Hítarár - erindi til Borgarbyggðar
2510203

Farið yfir samskipti við stjórn Veiðifélags Hítarár vegna málsins. Einnig lagt fram mat á kostnaði sveitarfélagsins ef ákveðið verður að taka þátt í athugun á lagalegri stöðu sveitarfélagsins sem landeiganda sbr. afgreiðslu 724. fundar byggðarráðs dags. 23. október sl.

Á 724. fundi byggðarráðs var tekið fyrir erindi tveggja landeigenda við Hítará þar sem óskað var eftir þátttöku sveitarfélagsins í að láta fara fram athugun á lagalegri stöðu. Í bókun fundarins felst byggðarráð á "að sem landeigandi og eigandi hlunninda er mikilvægt er að fá upplýsingar um þau verðmæti sem eru í húfi fyrir sveitarfélagið. Byggðarráð tekur vel í það erindi að Borgarbyggð taki þátt í láta kanna lagalegan grundvöll þess að endurheimta ána í fyrri farveg og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar að það sé gert. Einnig að skoðuð verði áhrif þess að aðhafast ekkert."

Í kjölfarið hefur sveitarstjóra borist erindi frá formanni stjórnar Veiðifélags Hítarár vegna málsins. Þar var m.a. óskað eftir aðkomu stjórnar veiðifélagsins að málinu og farið yfir mikilvægi þess að lagaleg athugun taki tillit til sjónarmiða annarra veiðiréttarhafa. Þá eru gerðar athugasemdir við fullyrðingar sem fram koma í upphaflegu erindi landeigendanna til Borgarbyggðar um tjón vegna breytinga á farvegi Hítarár. Þá kemur fram að núverandi stjórn vinnur út frá samþykktum tillögum félagsfundar dags. 8. desember 2018 þar sem samþykkt var að meta til hlítar valkosti vegna framtíðarfarvegs Hítarár og að niðurstaða þeirrar vinnu yrði lögð fyrir félagsfund. Fram kemur að markmið stjórnar sé að ná ásættanlegri lendingu í þessu máli þar sem allir hlutaðeigandi geti unað lendingu í málinu og að byggt sé undir lífríki Hítarár til framtíðar.

Byggðarráð er meðvitað um að skiptar skoðanir eru meðal landeigenda við Hítará um hvort og þá hvernig bregðast skuli við þeirri stöðu að Hítará breytti um farveg í kjölfar berghlaupsins í júlí 2018 og þornaði upp á kafla, m.a. í landi sveitarfélagsins. Borgarbyggð forðast að taka að sér hlutverk innan frjálsra veiðifélaga eða vera milligönguaðili á milli eigenda veiðiréttar. Byggðarráð gætir fjárhagslegra hagsmuna sveitarfélagsins og hlunnindi eru þar á meðal. Það samþykkir því þátttöku í athugun á lagalegri stöðu sem unnin verður að frumkvæði landeigenda í sömu stöðu og sveitarfélagið.

Byggðarráð gerir ekki athugasemd við aðild stjórnar veiðifélagsins eða annarra landaeigenda eða hagsmunaaðila að þessari athugun. Það er enda mikilvægt að sem flest sjónarmið verði tekin til skoðunar í þeirri vinnu. Fyrirhuguð athugun á lagalegri stöðu er hins vegar ekki unnin að frumkvæði byggðarráðs eða sveitarfélagsins né lýtur hún þeirra verkstjórn.

Gróft kostnaðarmat felur í sér að kostnaður sveitarfélagsins vegna fyrirhugaðrar athugunar verði 200 - 500 þúsund krónur og er þá miðað við að þriðjungur kostnaðar komi í hlut sveitarfélagsins.



Samþykkt samhljóða.



8. Samstarf við Festi um uppbyggingu Brákareyjar
2405160

Framlögð viljayfirlýsing milli Festis og Borgarbyggðar varðandi skipulag og uppbyggingu í Brákarey.

Framlögð fullunnin drög að viljayfirlýsingu milli Festis og Borgarbyggðar varðandi skipulag og uppbyggingu í Brákarey sbr. afgreiðslu fundar byggðarráðs nr. 725. Byggðarráð samþykkir viljayfirlýsinguna og felur sveitarstjóra að undirrita með fyrirvara um fullnaðarafgreiðslu í sveitarstjórn.



Samþykkt samhljóða.



Eiríkur Ólafsson fór af fundi.



9. Fjölnota íþróttahús - Knatthús
2303105

Framlagt yfirlit um kostnað vegna heimlagnar að fjölnota íþróttahúsi/knatthúsi sem nú er í byggingu í Borgarnesi. Til fundarins koma Hlynur Ólafsson og Ottó Ólafsson verkefnastjórar framkvæmda.

Hönnun lagnaleiðar er nú í lokarýni hjá Veitum en samkvæmt yfirliti er áætlaður samanlagður kostnaður vatnsveitu og hitaveitu um 20 m.kr.

Samþykkt og vísað til framkvæmdaáætlunar 2026.



10. Ugluklettur - Stækkun
2212062

Farið yfir stöðu hönnunar vegna nýbyggingar og eldri hluta Uglukletts. Lögð fram tillaga að verkefnum vegna eldri hluta.

Um er að ræða verkefni er snúa að aðgengi milli eldri og nýrri hluta t.d. snjóbræðslu og lýsingu ásamt hönnun á eldri hluta Uglukletts varðandi séruppdrætti. Byggðarráð tekur undir að æskilegt er að ráðast í þau verkefni sem lagt er til. Það mun auðvelda verklag við framkvæmdir við eldri og nýja hluta ásamt útisvæði. Byggðarráð felur sveitarstjóra að óska eftir kostnaðaráætlun á séruppdráttum vegna eldri hluta.



Samþykkt samhljóða.



11. Grunnskóli Borgarfjarðar- Kleppjárnsreykjadeild - framkvæmdir á skólahúsnæði
2104092

Framlögð tilboð í tækjabúnað í eldhús í GBF - Kleppjárnsreykjadeild.

Tvö sambærileg tilboð bárust frá þjónustufyrirtækjum. Byggðarráð samþykkir tillögu um að gengið verði að tilboði frá Fastus að upphæð 11.390.347 kr. m/vsk. og vísar til gerðar viðauka við framkvæmdaáætlun.



Samþykkt samhljóða.



12. Bjargsland og Kveldúlfshöfði - Gatnagerð og kostnaður
2203079

Framlagt minnisblað um stöðu tengingu veitna við lóðir í fyrsta áfanga Fjólukletts og Kveldúlfshöfða auk áfangaskiptingar við úthlutun lóða.

Farið yfir stöðuna og valkostir ræddir og vísað til skipulags- og byggingarnefnd að leggja mat á valkosti.



Samþykkt samhljóða.



13. Vallarás - hönnun og framkvæmdir
2311091

Framlagt minnisblað verkefnastjóra um færslu lagna við Vallarás með það að markmiði að auka verðmæti lóða við Vallarás 5 og 5a.

Fyrir liggur uppfært kostnaðarmat sem felur talsverða lækkun frá fyrra kostnaðarmati. Þar með hafa forsendur breyst fyrir framkvæmdinni og kemur í veg fyrir að lóðunum fylgi kvöð vegna lagna. Byggðarráð samþykkir að vísa til sveitarstjórnar að stækka framkvæmdaverk vegna síðari áfanga Vallaráss um sem nemur kostnaði við færslu lagna við Vallarás 5 og 5a og felur sveitarstjóra að uppfæra viðauka V við framkvæmdaáætlun 2025.



Samþykkt samhljóða.



14. Melabraut á Hvanneyri - staða og skipulag
2510125

Farið yfir drög að viðauka við samning milli Borgarbyggðar og Landbúnaðarháskóla Íslands um umsjón með landi á Hvanneyri. Viðaukinn felur í sér að hluti Melabrautar fer í umsjá sveitarfélagsins.

Byggðarráð samþykkir drög að viðauka og felur sveitarstjóra að fullvinna og leggja fyrir sveitarstjórn.



Samþykkt samhljóða.



Ottó Ólafsson og Hlynur Ólafsson foru af fundi.



15. Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga 2025
2503350

Framlögð drög að lánasasmningum milli Borgarbyggðar og Lánasjóðs sveitarfélaga.

Drög að samningum um langtímalántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga lagðir fram en ekki hefur verið endanlega gengið frá þeim hluta er snýr að vaxtakjörum. Byggðarráð felur sveitarstjóra að fullvinna og leggja fyrir sveitarstjórn til staðfestingar.



Samþykkt samhljóða.



Fundi slitið - kl. 11:30