Sveitarstjórn Borgarbyggðar

270. fundur

14. október 2025 kl. 17:00 - 18:00

í fundarsal að Digranesgötu 2


Nefndarmenn

Guðveig Eyglóardóttir - Forseti
Davíð Sigurðsson - aðalmaður
Eva Margrét Jónudóttir - 1. varaforseti
Eðvar Ólafur Traustason - aðalmaður
Thelma Dögg Harðardóttir - aðalmaður
Sigurður Guðmundsson - aðalmaður
Sigrún Ólafsdóttir - aðalmaður
Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir - aðalmaður
Kristján Ágúst Magnússon - varamaður

Starfsmenn

Stefán Broddi Guðjónsson - sveitarstjóri
Lilja Björg Ágústsdóttir - Sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Lilja Björg Ágústsdóttir - sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslu

Í upphafi fundar gerði Sveitarstjórnarfulltrúi Thelma Harðardóttir, Vinstri græn (V-listi) athugasemd við lögmæti fundar á þeim grundvelli að eina málið á dagskrá hafi þegar fengið fullnaðarafgreiðslu í sveitarstjórn.

í kjölfarið velti hún upp þeirri spurningu, að ef fundurinn færi fram, hvort forseti Guðveig Eyglóardóttir og sveitarstjórnarfulltrúi Eðvar Ólafur Traustasonar búi yfir hæfi við meðför og afgreiðslu eina málsins sem er á dagskrá fundarins.

Forseti leggur til í ljósi þess að aðeins eitt mál er á dagskrá fundar að fyrst verði kosið um hæfi sveitarstjórnarfulltrúa en sveitarstjórn kýs um hæfi fulltrúa til að taka þátt í meðför og afgreiðslu einstaka mála sbr. 7. mgr. 20. gr.
sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Að því loknu verði kosið um lögmæti fundar.

Kosið um hæfi Guðveigar Eyglóardóttur til að taka þátt í meför og afgreiðslu málsins.
Hæfi Guðveigar Eyglóardóttur staðfest með 5 atkvæðum: EMJ, SÓ, EÓT, DS og GLE
4 sátu hjá: BLB, KÁM, SG og TDH

Kosið um hæfi Eðvars Ólafs Traustasonar til að taka þátt í meför og afgreiðslu málsins.
Hæfi Eðvars Ólafs Traustasonar staðfest með 5 atkvæðum: EMJ, SÓ, EÓT, DS og GLE
4 sátu hjá: BLB, KÁM, SG og TDH

Lögmæti fundarins borið upp til atkvæðagreiðslu
Fundurinn fundinn lögmætur með 5 atkvæðum
4 sátu hjá: BLB, KÁM, SG og TDH

Til máls tóku DS, TDH og SG


Dagskrá

1. Lýsing á leið milli hesthúsahverfis og Einkunna
2311308

Forseti sveitarstjórnar óskar eftir því að þetta mál verði lagt á ný fyrir sveitarstjórn. Um er að ræða eftirfarandi tillögu sem byggðarráð hafði vísað til sveitarstjórnar á fundi nr. 721: "Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að gengið verði til samninga við Arnar rafvirkja ehf. og Sigur-garða ehf. um að skipta með sér verkþáttum í verkið Stígalýsing upp í Einkunnir, samtals að fjárhæð 52.913.784 kr. enda rúmast verkið innan fjárheimilda." Málið hafði verið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar nr. 269 og var þar tillagan felld með 5 atkvæðum gegn 4. Lagt fyrir að nýju.

Sveitarstjórnarfulltrúi Sigurður Guðmundsson, Sjálfstæðisflokki (D-listi) leggur fram eftirfarandi bókun: Fyrir hönd minnihlutans vil ég leggja fram eftirfarndi bókun. Ég var á skemmtun fyrir nokkrum árum þar sem Gísli Einarsson skemmtikraftur var að skemmta, þar lýsti hann því yfir að hann væri enginn hestamaður og þekkti því ekki vel gangtegundir hesta en hann þekkti vel tvær gangtegundir heima hjá sér og að þær gangtegundir væru Frekjugangur og Óhemjugangur.

Þetta var það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég fékk boð um aukafund í sveitarstjórn vegna máls sem fékk eðlilega og lýðræðislega afgreiðslu á seinasta sveitarstjórnarfundi, þó að niðurstaðan væri ekki sú sem meirihluti sveitarstjórnar vildi fá, þá var það niðurstaða sveitarstjórnar eigi að síður og er það andstætt þeim lýðræðslegum hefðum sem viðhafðar eru alla jafna þ.e. að kosið er um mál, niðurstaða fenginn og hún virt.

Að boða til aukafund, með töluverðum kostnaði af skattfé, til þess eins að freista þess að fá niðurstöðu sem meirihlutanum er þóknanlegri, er verð ég að segja gróft dæmi um frekjugang eða óhemjugang.

Verkefnið sem um ræðir og er til afgreiðslu á þessum fundi er verksamningar vegna lagningu rafstrengs og uppsetning á ljósastaurum fyrir 53 milljónir. Þessi framkvæmd mun án efa stuðla að bættu aðgengi að útvistarsvæðinu í Einkunnum og þeirri starfsemi sem þar er ásamt því að bæta aðstöðu til útreiða á þessari leið í skammdeginu. Þrátt fyir það er þetta ekki eitt af lögbundnu hlutverkum Borgarbyggðar og kostar talsverða peninga, sem eins og komið hefur fram undanfarið, verður framkvæmdakostnaður við þetta verkefni að stórum hluta tekinn að láni. Unnið hefur verið ötulega að innviðauppbyggingu undanfarin ár og þar hefur komið í ljós að ekki hefur alltaf tekist að halda kostnaðaráætlanir og hefur minnihlutinn áhyggjur af því að opna enn eina gáttina inní fjárhag sveitarfélagsins með ófyrriséðum afleiðingum fyrir fjárhag sveitarfélagsins. Einnig er hægt að benda á önnur verkefni þar sem 53 milljónir mundu nýtast í verkefni sem skiluðu lækkun á rekstrarkostnaði og þar er ég að vísa til mögulegrar fjárfestingar í Leed væðingar á núverandi ljósastaurum fyrir 53 milljónir, það mundi spara sveitarfélaginu töluverða fjármuni á hverju ári til framtíðar, en ekki auka rekstrarkostnað vegna lýsingar.



Sveitarstjórn staðfestir að gengið verði til samninga við Arnar rafvirkja ehf. og Sigur-garða ehf. um að skipta með sér verkþáttum í verkið Stígalýsing upp í Einkunnir, samtals að fjárhæð 52.913.784 kr. enda rúmast verkið innan fjárheimilda.



Samþykkt með 5 atkvæðum: EMJ, EÓT, SÓ, DS og GLE

4 atkvæði á móti: SG, TDH, KÁM og BLB





Til máls tóku: SÓ, DS, SG, GLE, TDH, DS, GLE, SG, GLE, TDH, DS, SÓ, KÁM, og EÓT



Fundi slitið - kl. 18:00