Velferðarnefnd Borgarbyggðar

164. fundur

7. október 2025 kl. 14:00 - 15:30

í fundarsal að Digranesgötu 2


Nefndarmenn

Guðveig Eyglóardóttir - formaður
Kristín Erla Guðmundsdóttir - aðalmaður
Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir - aðalmaður
Kristján Ágúst Magnússon - aðalmaður
Eva Margrét Jónudóttir - aðalmaður

Starfsmenn

Erla Björg Kristjánsdóttir - félagsmálastjóri
Klara Ósk Kristinsdóttir - verkefnisstjóri
Fundargerð ritaði: Erla Björg Kristjánsdóttir - félagsmálastjóri

Dagskrá

1. Trúnaðarbók 2025
2501057

Lagðar fram afgreiðslur starfsmanna frá síðasta fundi og afgreiddar umsóknir um fjárhagsstyrk.

Óheimilt er að birta afgreiðslu nefndarinnar og starfsmanna opinberlega og því eru afgreiðslur skráðar með formlegum hætti í trúnaðarbók. Það er skýr reglurammi sem nefndin og starfsmenn félagsþjónustu starfa eftir. Reglurnar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins.



2. Gjaldskrár fjölskyldusviðs 2025
2411036

Þann 11.06.25 lagði Velferðarnefnd til að gjaldskrá er snýr að akstursþjónustu aldraðra hækki um 15% um næstu áramót, auk þess sem nefndin lýsti áhuga á því að skoða samræmda gjaldskrá á Vesturlandi er snýr að félagslegri heimaþjónustu. Sú vinna er enn í gangi. Því er lagt til að um áramót hækki gjaldskrá heimaþjónustu umfram vísitöluhækkun, sjá meðfylgjandi drög að uppfærðri gjaldskrá. Hvað varðar heimsendan mat er lagt til að sú hækkun taki mið af kostnaði á hvern matarbakka.

Gjaldskrá tekur að hluta til mið af vísitöluhækkun. Velferðarnefnd leggur til að gjaldskrá er snýr að félagslegri heimaþjónustu taki mið af hjúskap og tekjum. Hækkun á heimsendum mat tekur mið af kostnaði á hvern matarbakka. Jafnframt verður áfram unnið að hækkun á akstursþjónustu og að hún taki gildi um áramót 2026.



3. Janus heilsuefling
2306047

Þann 09.09.25 sl. kynnti Ragnar Örn Kormáksson nýr framkvæmdarstjóri hjá Janus heilsueflingu nýtt greiðslufyrirkomulag fyrir Velferðarnefnd Borgarbyggðar. Óskaði nefndin eftir nýju tilboði er snýr að áframhaldandi samstarfi við Janus heilsueflingu. Tilboðið felur m.a. í sér fasta greiðslu á mánuði sem sveitarfélagið greiðir en Janus sér um að innheimta öll þátttakendagjöld, sér alfarið um þjálfun, ráðningar, auk þess að sjá um mælingar, skýrslugjöf og skipuleggur uppbrot og fleira.

Velferðarnefnd telur að nýtt greiðslufyrirkomulag sé bæði hagkvæmara fyrir sveitarfélagið og veiti meiri fyrirsjáanleika þegar kemur að kostnaði og fyrirkomulagi. Velferðarnefnd samþykkir því fyrir sitt leyti að gengi verði til áframhaldandi samninga við Janus heilsueflingu, og valin verði þjónustuleið 1. Leggur nefndin áherslu á að nýr samningur verði til tveggja ára. Er málinu vísað til Byggðarráðs.



4. Umboðsmaður barna
2510035

Umboðsmaður barna og föruneyti hans komu í heimsókn í Borgarbyggð þann 30. september síðastliðinn. Var tilgangur heimsóknarinnar m.a. að fræðast um stöðu flóttabarna í sveitarfélaginu. Fengu þau leiðsögn um Varmaland, hittu börn sem stunda þar nám og fengu auk þess að skoða nýjan leiksskóla á Varmalandi. Að lokum heimsóttu þau Bifröst og fengu að skoða aðstæður þar sem og eiga samtal við starfsmenn sem sinna samræmdri móttöku auk annarra starfsmanna á Fjölskyldusviði.

Velferðarnefnd þakkar Umboðsmanni barna og föruneyti hans fyrir komuna og sýndan áhuga á málefnum barna og fjölskyldna í sveitarfélaginu.



5. Félagslegt leiguhúsnæði
1810002

Þann 11.06.25 sl. bókaði Velferðarnefnd eftirfarandi: Velferðarnefnd telur mikilvægt að leitað verði hagkvæmra leiða þegar kemur að félagslegu leiguhúsnæði. Ljóst er að fara þarf í töluverðar endurbætur á hluta íbúðanna með tilheyrandi kostnaði. Því leggur velferðarnefnd til að frekari framleiga á húsnæði verði skoðuð til lengri tíma litið og hluti íbúða í mikilli viðhaldsþörf verði seldar þegar þær losna eða leigutaka bíðst annað húsnæði. Málið var tekið fyrir á Byggðarráðsfundi þar sem Byggðarráð tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í bókun velferðarnefndar og felur sveitarstjóra að leggja fram tillögur um fyrirkomulag á rekstri og eignarhaldi félagslegs húsnæðis í sveitarfélaginu til framtíðar. Meðfylgjandi er minnisblað er snýr að tillögum um fyrirkomulag á rekstri og eignarhaldi.

Velferðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að stofnaður verði vinnuhópur til að endurskoða fyrirkomulag félagslegs leiguhúsnæðis, með áherslu á sölu eigna í mikilli viðhaldsþörf og utan þéttbýliskjarna, endurfjárfestingu í hagkvæmum eignum og aukið samstarf við leigufélög. Lagt er til að í vinnuhópnum sé félagsmálastjóri, verkefnastjóri í félagsþjónustu, umsjónarmaður fasteigna, fjármálastjóri, formaður velferðarnefndar og sveitastjóri. Vinnuhópurinn skal leggja fram heilstæða framkvæmdaáætlun innan þriggja mánaða, eða í síðasta lagi 15. janúar 2026. Samhliða verði hafið samtal við leigufélög varðandi uppbyggingu og fjárfestingu í sveitarfélaginu.


Hlöðver Ingi Gunnarsson, sviðsstjóri Fjölskyldusviðs sat undir þessum lið.

Fundi slitið - kl. 15:30