Velferðarnefnd Borgarbyggðar

163. fundur

9. september 2025 kl. 13:00 - 15:00

í fundarsal að Digranesgötu 2


Nefndarmenn

Guðveig Eyglóardóttir - formaður
Kristín Erla Guðmundsdóttir - aðalmaður
Kristján Ágúst Magnússon - aðalmaður
Eva Margrét Jónudóttir - aðalmaður
Sólveig Hallsteinsdóttir - varamaður

Starfsmenn

Erla Björg Kristjánsdóttir - félagsmálastjóri
Fundargerð ritaði: Erla Björg Kristjánsdóttir - félagsmálastjóri

Dagskrá

1. Trúnaðarbók 2025
2501057

Lagðar fram afgreiðslur starfsmanna frá síðasta fundi og afgreiddar umsóknir um fjárhagsstyrk.

Óheimilt er að birta afgreiðslu nefndarinnar og starfsmanna opinberlega og því eru afgreiðslur skráðar með formlegum hætti í trúnaðarbók. Það er skýr reglurammi sem nefndin og starfsmenn félagsþjónustu starfa eftir. Reglurnar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins.



2. Janus heilsuefling
2306047

Ragnar Örn Kormáksson nýr framkvæmdarstjóri hjá Janus heilsueflingu fer ítarlega yfir verkefnið Janus, heilsuefling í Borgarbyggð. Einnig kynntar nýjar þjónustuleiðir sem standa Borgarbyggð til boða.

Samkvæmt kynningu frá Ragnari þá eru jákvæðar niðurstöðum úr þeim mælingum sem gerðar hafa verið á þátttakendum í Janus verkefninu auk þess sem mat á eigin heilsu þátttakenda er betri eftir því sem liðið hefur á verkefnið. Velferðarnefnd lýsir áhuga á áframhaldandi samstarfi við Janus heilsueflingu og þakkar Ragnari kærlega fyrir góða kynningu.


Klara Ó. Kristinsdóttir, verkefnastjóri í félagsþjónustu sat undir þessum lið.

3. Gott að eldast
2311278

Meðfylgjandi er erindisbréf fyrir Móttöku- og matsteymi Borgarbyggðar (MOMA teymi). Í teyminu munu sitja fulltrúar frá félagsþjónustunni, heilsugæslunni í Borgarnesi og Brákarhlíð. Markmiðið er að auka samþættingu á milli heimahjúkrunar, félagslegrar heimaþjónustu og dagdvalarþjónustu, sem og tryggja að rétt þjónusta sé veitt af réttum aðila á réttum tíma. Til stendur að teymið taki til starfa nú í haust.

Lagt fram til kynningar.


Klara Ó. Kristinsdóttir, verkefnastjóri í félagsþjónustu sat undir þessum lið.

4. Samræmd móttaka flóttafólks
2303023

Á fundi velferðarnefndar í apríl sl. var farið yfir stöðu mála í samræmdri móttöku flóttafólks. Í bókun nefndarinnar kom m.a. fram að ljóst væri að sveitarfélagið bæri töluverðan og fjárhagslegan þunga vegna fjölda flóttafólks sem hefur verið búsett í yfir tvö ár og réttur sveitarfélaga til endurgreiðslu væri ekki lengur til staðar skv. 15. gr. laga um félagsþjónustu nr. 40/1991. Því væri mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni samhliða því að vinna áfram að því að fækka þeim sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda og auka þann hóp flóttamanna sem sækir atvinnu og eru virkir þáttakendur í samfélaginu. Málið fór til kynningar hjá Byggðarráði og í framhaldi var sent bréf til Félags- og húsnæðismálaráðherra, þingmanna Norðvesturkjördæmis, Vinnumálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, og á fjármála- og dómsmálaráðuneytin, sjá meðfylgjandi. Nokkur viðbrögð urðu við erindinu. Starfsmenn sveitarfélagsins ásamt oddvita sveitastjórnar hafa t.a.m. fundað með sambandi íslenskra sveitarfélaga, auk þess sem haldnir hafa verið þrír fundir með Vinnumálastofnun. Auk þess hefur verið haldinn fundur með háskólanum á Bifröst. Ljóst er að þétta þarf samstarfið við Vinnumálastofnun og hefur nú verið stofnað teymi sem mun funda hálfsmánaðarlega og Vinnumálastofnun mun vera með viðveru vikulega á Bifröst. Þessar aðgerðir er til þess gerðar að fylgja eftir ofangreindri bókun nefndarinnar.



Hvað varðar samræmda móttöku þá rennur út samningur sem sveitarfélagið hefur gert, er telur þjónustu við 180 flóttamenn. Í samráðsgátt liggur frumvarp frá félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, sjá meðfylgjandi. Þar er m.a. lagt til að Vinnumálastofnun sjái um framfærslu til þeirra sem hafa fengið vernd og taki þá við því hlutverki félagsþjónustu. Ef af verður má teljast ólíklegt að gerðir verði áframhaldandi samningar um samræmda móttöku. Það breytir þó ekki þeirri stöðu að stór hluti flóttafólks sem búsettur er í Borgarbyggð þarf áfram á félagsþjónustu að halda, enda sívaxandi hópur sem hefur verið búsettur í sveitarfélaginu lengur en tvö ár.



Í bréfi frá félags- og húsnæðismálaráðherra dags. 05.09.25 er upplýst að komi til breytinga þá verði kveðið á um að gildistaka verði sex mánuðum eftir að frumvarp verði samþykkt sem lög á Alþingi.

Velferðarnefnd lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er hvað varðar samræmda móttöku. Ljóst er að töluverð og umfangsmikil vinna hefur átt sér stað er snýr að auka virkni og þátttöku flóttafólks með það að markmiði að draga úr fjölda þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð. Auk þess hefur samráð og samtal við aðrar mikilvægar stofnanir átt sér stað. Velferðarnefnd óskar eftir reglulegri upplýsingagjöf og eftirfylgni af hálfu félagsþjónustu.


Klara Ó. Kristinsdóttir, verkefnastjóri í félagsþjónustu og Heiðrún Halldórsdóttir verkefnastjóri í móttöku flóttamanna sátu undir þessum lið.

5. Farsældarráð Vesturlands
2405112

Stjórn SSV samþykkti á fundi þann 20. ágúst að stofnað yrði svæðisbundið Farsældarráð á Vesturlandi. Um er að ræða samstarfsvettvang þjónustuveitenda ríkis

og sveitarfélaga sem sinna málefnum barna í landshlutanum. Í ráðinu skulu eiga sæti m.a. fulltrúar leik, grunn- og framhaldsskóla, félagsþjónustu og barnaverndar,

heilbrigðisþjónustu, lögreglu, skólaþjónustu, frístunda- og íþróttastarfs, ungmenna sem og aðrir aðilar eftir þörfum svæðisins.



Meðfylgjandi eru drög að samstarfsyfirlýsingu og verklagsreglum um svæðisbundin samráðsvettvan.

Velferðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti samstarfsyfirlýsingu fyrir hönd sveitarfélagsins auk verklagsreglna vegna stofnun svæðisbundis Farsældarráðs á Vesturlandi.


Klara Ó. Kristinsdóttir, verkefnastjóri í félagsþjónustu sat undir þessum lið.

Fundi slitið - kl. 15:00